04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (2278)

67. mál, endurskoðun fátækralaganna

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Hv. frsm. meiri hl. (BSt) viðurkendi, að í fyrra hefði talsverður meirihl. verið sammála því fátækralagafrv., sem þá var samþ. En hann sagði reyndar, sem satt er, að það væri engin sönnun fyrir því, hvernig fara mundi eftir nýjar kosningar. En jeg hjelt sannast að segja, að heimilt væri að ganga út frá því, að engin breyting yrði á afstöðu þeirra, sem eru endurkosnir. (BSt: Eru ekki nýir menn á þingi?). Jú, en jeg er að reikna með þeim gömlu, og það er talsvert mikill meiri hl. — Annars er til lítils að ræða þetta mál, þar sem svo að segja enginn maður er í deildinni. (MT: O, maður vil jeg nú heita!). Jeg sagði, að svo að segja enginn maður væri við. Í fyrra var það yfirleitt skoðun Framsóknar, að framfærslan mundi verða dýrari, ef eitt væri framfærsluhjerað, en sumir álitu, að hægt væri að bæta úr með því að láta hlutaðeigandi hreppa og kaupstaði borga sjálfa mikinn hluta af kostnaðinum. Það fer náttúrlega mikið eftir því, hversu mikill hluti þetta er, því ef hlutinn er lítill, er hvötin miklu minni til að spara. Og jafnvel þó að þeir ættu að borga helming, væri hvötin ekki nema helmingi sterkari en ella myndi vera.

Það er náttúrlega rjett hjá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að maður getur hugsað sjer, að ekki þyrfti að verða sú breyting, að ríkissjóður yrði fyrir skakkafalli, ef gjaldinu yrði jafnað milli sveitanna. En það sýnist nú fyrst og fremst ekki vera hans meining, þar sem hann segir, að mál þetta sje þjóðfjelagsmál. Og í öðru lagi minnist jeg þess, að þegar upp á því var stungið að jafna útsvörum milli sveita, þá held jeg, að hann hafi ásamt fleirum álitið, að það væri ákaflega mikil fyrirhöfn.

Hann kvaðst ekki þekkja, að hreppum væri hjálpað. En jeg get mint hann á það, að þeim hefir verið hjálpað með hagkvæmum lánum. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess með sjerstökum lögum að láta hreppa fá slík lán, þar sem breytt var lögunum um bjargráðasjóð. Jeg veit, að hreppar hafa notað þetta, og það hefir verið hlaupið undir bagga með hreppum, t. d. Gerðahreppi í Gullbringusýslu. Að hreppar fari á sýsluna, þekki jeg ekki dæmi um, enda veit jeg ekki til, að lög skyldi sýslu að taka að sjer einstaka hreppa.

Hv. þm. (BSt) áleit það mjög óheppilegt að láta sveitirnar ákveða, hvort sveitarstyrkur skuli afturkræfur eða ekki. (BSt: Hann á allur að vera afturkræfur). Það mundi mönnum, sem við sveitarstörf hafa fengist, finnast lítið hafa að segja, því að það er alls ekki algengt, að sveitarstyrkur sje endurborgaður. Mundi jeg skjóta þessu til þeirra mörgu hv. þdm., sem þessi mál hafa með höndum, ef þeir væru hjer nú, en það býðir nú lítið að tala fyrir tómri deild. En jeg þekki það vel til þessara mála, að jeg veit, að slík endurgreiðsla er tiltölulega sjaldgæf. En ef hv. frsm. meiri hl. (BSt) vill láta allan styrk vera afturkræfan, þá er engin önnur leið til en sú, að breyta stjórnarskránni, svo framarlega sem hlutaðeigendur eiga ekki að missa rjettindi. Og hann segist ekki vilja, að þeir missi rjettindi. Nú hygg jeg, að nokkuð torvelt geti orðið að breyta henni. Þau tíðindi hafa gerst á þessu þingi, sem geta fært mönnum heim sanninn um það, að ekki er auðhlaupið að slíku.

Hv. þm. sagði, eins og satt er, að þegar jafnað væri kostnaðinum milli sveita, þá mætti taka tillit til fleira en fólksfjöldans eins. En sá útreikningur, sem lagður var fram hjer í fyrra, var aðeins um það atriði og ekkert annað. Hitt er náttúrlega rjett, að það má taka fleira til greina, en það er ómögulegt að hugsa sjer, að fullkomið rjettlæti náist að heldur. Það næst aldrei. Því að þótt teknar væru t. d. skuldlausar eignir og tekjur, jarðahundruð eða hvað það er, sem stungið er upp á, þá er það alt til samans alls ekki fullkomin trygging fyrir því eina og sanna rjettlæti.

Hv. þm. áleit, að um sýslugjöld væri alt annað að segja heldur en um fátækraframfærslu, því að þegar sýslubúar legðu á sig mikil gjöld, væri það venjulega vegna einhverra framkvæmda. Einhver tilfinnanlegasti útgjaldaliður sýslusjóða nú fer til berklavarna, og ekki verður slíkt talið til framkvæmda. Ef jeg man rjett, eru það tvær krónur á hvern sýslubúa, og í stórum sýslum verður það um 10 þús. kr. á ári. Þetta gjald verður því í flestum sýslum alstærsti liðurinn. (BSt: En það er ákaflega jafn skattur). En ætli hann sje ákaflega sanngjarn; eða heldur hv. þm., að allar sýslur á landinu sjeu jafn-efnaðar? Nefskattar þykja mörgum ósanngjarnir; en það er eins og enginn hafi tekið eftir því, að þetta er ekkert annað en nefskattur.

Svo er annar kostnaður, sem hvílir oft þungt á ýmsum hjeruðum, en það er uppihald sjúkrahúsa. Ekki er hægt að telja það til framkvæmda heldur.

Hv. þm. var að tala um, að fátækraframfærslan væri þjóðfjelagsmál. Með því vildi hann sýna fram á, að ríkissjóður ætti að hafa málið með höndum. En það er vissulega ekki gefið, því að það eru mörg þjóðfjelagsmál, sem ríkissjóður hefir ekki með höndum, a. m. k. ekki einungis. Jeg hefi bent á, að ríkissjóður tekur stórmikinn þátt í fátækraframfærslunni hjer á landi, og jeg veit ekki, hvort hann tekur minni þátt í þessu þjóðfjelagsmáli heldur en öðrum, sem skift er á milli hinna ýmsu greina framkvæmdavaldsins í landinu. Jeg skal taka til dæmis vegamálin. Sumt af vegamálunum er falið hreppunum, sumt sýslunum, sumt ríkissjóði; held jeg þó, að allir viðurkenni, að vegir landsins sjeu þjóðfjelagsmál. Það er því alls ekkert sagt með þessu; og af því leiðir ekki, að það sje ríkissjóður einn, sem á að bera þennan kostnað.

Hv. 2. þm. Reykv. (HjV) vildi ekki fara út í það, hvers vegna menn væru fátækir eða ríkir, en sagði, að orsakirnar til þess, að menn yrðu að þiggja sveitarstyrk, væru venjulega óviðráðanlegar ástæður. Hv. þm. sagði, að þau lög, sem voru sett í fyrra, hefðu ekki bætt úr í þessu efni. En jeg lít svo á, að þau hafi mjög bætt úr, og vil því til sönnunar lesa upp 43. gr. þeirra laga. (HjV: Það þekkja hana allir). Það lítur ekki út fyrir, að hv. 2. þm. Reykv. (HjV) þekki hana, og vil jeg því, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp. Hún hljóðar svo:

„Skylt er sveitarstjórn, er hún veitir styrk úr sveitarsjóði, að kveða svo á innan 3 mánaða, að styrkurinn skuli ekki afturkræfur af styrkþega, ef hún telur það sanngjarnt vegna elli þiggjanda, ómegðar hans, veikinda hans eða þeirra, sem hann hefir á skylduframfæri, eða annarra óhappa hans“ o. s. frv.

Með öðrum orðum, í þeim tilfellum, sem álíta má að styrkþegi eigi ekki sök á, að hann hefir orðið styrksþurfi, þá er bæjar- eða sveitarstjórn skylt að kveða upp úrskurð um, að styrkurinn skuli ekki afturkræfur. svo framarlega sem bæjarstjórnir eða sveitarstjórnir fara rjett með sitt vald, er þetta trygt. Um þetta atriði get jeg ennfremur vísað til þess, sem sagt var á þingi í fyrra, til dæmis um það, að það er alls ekki hægt að finna neitt stjórnarvald, sem hafi meiri kunnugleika á högum manna eða betri vilja á að gera rjett í þessu efni en einmitt þessi stjórnarvöld, bæjar- og sveitarstjórnir.

Þá sagði sami hv. þm. (HjV), að þetta mál hefði verið barið fram af Íhaldsflokknum á þinginu í fyrra. Þetta er alveg röng staðhæfing, enda hlýtur svo að vera, þar sem það er öllum vitanlegt, að Íhaldsflokkurinn var í minni hluta í þessari hv. deild í fyrra. Fyrv. stj. gat engu komið fram í þessari hv. deild, nema með stuðningi þeirra manna einhverra, sem ekki fylla Íhaldsflokkinn. Það er augljóst, að í þeim meiri hl., sem samþ. núgildandi lög, hljóta að hafa verið aðrir en Íhaldsmenn, því að annars hefðu þau auðvitað ekki gengið fram.

Út af því, sem hv. þm. (HjV) sagði um fátækraflutninginn, vil jeg segja það, að framfærslan er vitanlega miklu dýrari í kaupstöðum en sveitum, og verður því það, að halda þeim styrkþegum kyrrum í kaupstöðunum, sem annarsstaðar eiga sveit, beint til þess að auka byrðina á landinu yfirleitt, því að einhversstaðar verður kostnaðurinn að koma niður. Jeg held nú líka, að yfirleitt fái börnin betra og hollara uppeldi í sveit en í fátækrahreysum Reykjavíkur. (HjV: Álítur hv. þm. (MG) það heppilegt að taka fullorðið fólk nauðugt og flytja það á sína sveit?). Jeg var að tala um börnin. (HjV: En jeg var að tala um fullorðna fólkið). Jeg verð að álíta einnig um fullorðið fólk, að því líði betur á góðu sveitaheimili en með því að lifa á kaffi og þurru brauði í kaupstöðunum.

Hvað skriffinskuna snertir, þá hygg jeg, að hún yrði ekki minni, þótt alt landið væri eitt framfærsluhjerað, því að mikla vinnu mundi þurfa til að skifta kostnaðinum niður á hina einstöku landshluta eða sveitir. Hv. þm. (HjV) sagði, að borgarstjórinn í Reykjavík væri þessu meðmæltur, að landið væri eitt framfærsluumdæmi, enda þótt hann væri Íhaldsmaður. Já, jeg veit, að hann er svo mikill vinur Reykjavíkur, að hann mundi ekki setja sig upp á móti því að ljetta kostnaði á bæjarsjóði. Það mundi nefnilega ekkert hjerað á landinu hagnast eins mikið á slíku eins og Reykjavík.

Þá sagði hv. þm. (HjV) ennfremur, að fátækralögin væru sniðin eftir úreltum samgöngum að því er fátækraflutning snerti. En í öðrum löndum, þar sem jeg þekki til og þar sem betri eru samgöngur, er svipuðum reglum fylgt eins og hjer, og með því fyrirkomulagi mælir m. a. það, að kostnaðurinn verður minni en ella. Jeg sje því enga ástæðu til að samþ. þessa till.