14.03.1928
Neðri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Ólafsson:

Jeg hefði ef til vill getað sparað mjer að tala, en út af því, sem hv. frsm. sagði um smámunasemina, verð jeg að segja nokkur orð. Og jeg verð að endurtaka það, að jeg álít það smámunasemi, að nefndin vildi ekki mæla með þessu eða dró það út. Nýlega er afstaðið mál, sem fjallaði um breytingar á jarðræktarlögunum, og gerðu þá margir hv. þm. það að kappsmáli að fá litla upphæð, sem jeg álít ekki skifta máli í sjálfu sjer, til starfsemi í búnaðarfjelögum úti um sveitir landsins. Mig minnir, að hv. þm. Mýr. segði, að þessu fje væri safnað saman úti um sumar sveitir og lánað einstökum mönnum til jarðræktarframkvæmda. Og annar þingbóndi sagði, að þessu væri varið til gripasýninga. Jeg skal ekki hafa á móti hvatningarstarfsemi og tel rjett að styðja hana af ríkisfje, en jeg hygg, að hjer sje um engu óþarfara mál að ræða. — Frsm. viðurkennir þann lofsamlega árangur, sem liggur eftir þetta fjelag, og er jeg honum þakklátur fyrir það. En jeg fæ ekki skilið, af hverju fjelagið, ef það er meiningin, að það hafi komið miklu góðu til leiðar, á ekki að fá þennan styrk til að halda starfsemi sinni áfram. Það getur verið, að hv. þm. Mýr. sje ókunnugur starfsemi þess, og því vil jeg, til að taka af öll tvímæli, skýra frá því, að þetta á ekki að renna til einstakra manna, því að þeir vinna í raun og veru fyrir ekki neitt og fá aðeins greiddan ferðakostnað og uppihald, ef þeir ferðast út um land. Jeg ætla, að fjelagið eigi um 6000 kr. í sjóði, sem er myndaður úr tillögum fjelagsmanna, auk þess sem fjelagið hefir fengið styrk frá Búnaðarfjelaginu. Og meiningin er að styrkja þá, sem erfiða aðstöðu eiga, til að afla sjer verkfæra og ljetta undir með mönnum að brjóta land til ræktunar. Upphaflega vakti það fyrir fjelaginu að hjálpa mönnum, sem vinna fyrir litlu mánaðarkaupi og verður lítið úr, til að koma sjer upp kúabúi, sem þeir gætu haft stuðning af. Fólk sækist mikið eftir þessum skikum og sjer, að því verður meira úr kaupi sínu með þessu móti en að borga háa húsaleigu. Og það er auðsýnt, að þetta getur orðið til að auka þjóðarvelmegunina, þó að það sje í smáum stíl hjá hverjum einstökum. Það er rjett hjá hv. frsm., að eftir öðrum kafla jarðræktarlaganna er kaupstaðabúum að mestu leyti gert jafnt undir höfði og sveitabændum, en það er erfiðara fyrir þá að fá fje úr verkfærasjóði, enda er ekki ætlast til, að þeir njóti hans að mun, því að þeir eiga fremur kost á öllum smærri verkfærum. En ef litið er á 12. gr. eins og hún er nú eftir breytinguna, eiga kaupstaðabúar erfiðari aðstöðu, ekki af því, að þeir sjeu útilokaðir, heldur af því, að þeir fá lítinn hluta af því, sem til þarf. Í byggingar- og landnámssjóð eiga bæjabúar ekki greiðan aðgang, og ekki ætlast til þess upphaflega, af því að í bæjunum eru ekki eins aðkallandi þarfir og í sveitunum, þar sem er húsalaust. Þeir menn, sem taka land hjer, hafa venjulega nokkur efni og verða að bjargast upp á eigin spýtur og með það, sem þeir fá úr ræktunarsjóði til húsagerða o. fl. Jeg vona, þó að fjvn. mælti ekki með brtt. minni, að sumir í henni, og þar á meðal hv. frsm., sjeu till. meðmæltir. Þetta er þjóðþrifamál, og þótt Búnaðarfjelagið geti leyst þetta af hendi og jeg efist ekki um, að það hafi góðum starfskröftum á að skipa, hefir það nóg að gera. Og jeg get ekki láð Búnaðarfjelaginu, þó að það einskorði starfsemi sína nokkuð á meðal bænda og skifti sjer minna af bæjabúum. Hjer er ekkert „svindl“ á ferðinni til að auðga einstaka menn. Þetta er í alla staði nauðsynlegt, og í samanburði við margt, sem er á ferðinni, þarf engum að blöskra að veita ekki hærri upphæð en þetta, þegar jafnmikið kemur annarsstaðar frá. Auk þess er þetta ekki fastur skattur, heldur veitt í eitt skifti fyrir öll.