14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (2302)

151. mál, rannsókn leigumála húsnæðis í Reykjavík

Flm. (Halldór Stefánsson):

Af því að þetta mál var afgreitt umræðulaust við fyrri umr., þykir mjer rjett að gera grein fyrir ástæðum okkar flm. fyrir till. Við teljum húsaleiguna í Reykjavík snerta allverulega hag þjóðarinnar og því rjettmætt að skifta sjer af því, hvernig henni er farið. Það kann að vera, að sumir álíti þetta meira einka- en alþjóðarmál. Um það má altaf deila. En þegar einka- og þjóðarhagsmunir rekast á, eiga einkahagsmunirnir að víkja. Það er grundvallarregla okkar stjórnarfars, að almenningsheill eigi að ráða. Jeg skal víkja að því nokkrum orðum, að hvaða leyti þetta mál snertir hag almennings í heild sinni. Það kemur fram í því, að laun manna og kaupkröfur eru miðaðar m. a. við húsnæðis- og vöruverðlag. Nú ganga vörur allra landsmanna að miklu leyti í gegnum Reykjavík, ekki aðeins það, sem hjer er neytt, og það kemur því niður á vöruverðinu, ef húsaleigan er há. Fjöldi embættismanna býr hjer í Reykjavík, og hið háa vöruverð og húsaleiga kemur fram í launaþörf þeirra og þannig óbeinlínis niður á öllum landsmönnum í tollum og sköttum. Sama er að segja um verkafólk og kröfur þess, en þær miðast fyrst og fremst við það, hvað það kostar að lifa með sparnaði. Það er kunnugt, að atvinnurekendum þykir kaupkröfur verkafólksins of háar til þess, að þeir geti rekið atvinnu sína án tjóns. Af þessu leiðir ýmiskonar sundurþykkju, deilur og verkföll, sem kemur niður á hag alþjóðar. Þetta verður nokkurskonar hringrás. Þurftarlaunin grundvalla kaupkröfurnar, en þær íþyngja gjaldþoli atvinnuveganna og gjaldþegna ríkissjóðs, og gjaldþolið er sá stofn, sem óumflýjanlega verður að bera uppi lægstu þurftarlaun.

Jeg gat þess fyr, að hvorirtveggja þættust vanhaldnir, vinnuþiggjendur og vinnuveitendur, og munu báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls. Kaupið er svo lágt, að ekki er hægt að lifa sómasamlega af því, en hinsvegar er það of hátt fyrir vinnuveitendurna og skattþegnana. Afleiðingin er sú, að í slíku landi er ekki hægt að lifa, hvorki fyrir vinnuveitendur eða verkafólk. Þegar svo er, þá er þjóðarhagur og þjóðarlíf á sandi reist.

Jeg hefi nú stuttlega leitt rök að því, að húsaleigan hjer í Reykjavík á sinn drjúga þátt í þessu ástandi, og því er rjettmætt í alla staði, að löggjafarvaldið láti til sín taka í þessu máli. Sú rannsókn, sem við flm. viljum að gerð sje, á að fara fram á þeim grundvelli, hvort nokkuð sje hægt að gera og hvað eigi að gera. Ef til vill verður því haldið fram, að húsaleigan sje eðlilega há, þegar miðað sje við hið raunverulega verð húsanna. Um það skal jeg ekki fullyrða, en því er alment haldið fram og ekki mótmælt. En það á við í þessu máli sem öðrum, að það er betra að vita rjett en hyggja rangt.

Það er sjálfsagt að viðurkenna það, að peningar eigi rjett sanngjarnra vaxta, en hitt verður jafnframt að viðurkenna, að rjett er að sporna við óhæfilega háum vöxtum, eða því, sem kallað hefir verið okur. Fyr meir var meiri áhersla lögð á það en nú er gert. Til þess að fá að vita, hvort húsaleigunni er svo farið, og geta þá haft hemil á í því efni, er enginn ábyggilegur grundvöllur til. Það er ekki hægt að fara eftir fasteignamatinu, vegna þess að verð húsanna er mishátt, eftir því hvenær þau eru bygð, hvort þau hafa gengið kaupum og sölu eftir að þau voru bygð, hvernig þau eru sett o. s. frv.

Till. gerir ráð fyrir, að stj. geti notað niðurstöðu rannsóknarinnar til lagasetningar í þessu efni, ef ástæða þykir til. Sú lagasetning gæti orðið með ýmsu móti, en jeg vil ekki binda hendur stj. við neitt ákveðið. Þó vil jeg benda á eina leið, sem komið getur til greina. Það mætti hugsa sjer stimpilgjald af leigu. Af lágri leigu ætti það að vera lágt, eða jafnvel ekkert, en fara hækkandi eftir því, sem leigan yrði hærri eða ósanngjarnari. Sjálf er till. svo löng og ítarleg að efni sem um lög væri að ræða. Er það gert til þess að benda á sem ítarlegastan starfsgrundvöll. Það má þó vera, að till. sje ekki tæmandi, en úr því má auðveldlega bæta með ítarlegri reglugerð.

Jeg hefi þá skýrt frá því, sem vakir fyrir okkur flm, þessarar till. Jeg get ekki búist við, að allir verði okkur sammála, og má því vera, að ný sjónarmið verði dregin fram. Jeg mun þó ekki fást um að þræta um það til þrautar, en láta það nægja, að jeg hefi nú lýst því, sem fyrir okkur flm. vakir. Læt jeg svo hv. deild um að meta þar á móti þau rök, sem færð kunna að verða á móti þessu máli, og verður það að ráðast við atkvgr., hvernig um till. fer.