14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (2304)

151. mál, rannsókn leigumála húsnæðis í Reykjavík

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg flutti á þessu þingi frv. til l. um verkamannabústaði. Það hefir ekki komið til umr., og má búast við því, að það verði ekki hjeðan af. En því get jeg lýst yfir, að það skal verða hið fyrsta frv., sem jeg flyt á næsta þingi, ef jeg lifi þá.

Sú er skoðun mín og jafnaðarmanna, að úr húsnæðisvandræðunum verði ekki leyst til frambúðar, nema með nýbyggingum. Undanfarið hefir að vísu verið bygt mikið, en það hafa að mestu leyti verið stórar 3–5 herbergja íbúðir, yfir efnameira fólk. En af 1 og 2 herbergja íbúðum er lítið til, en slíkar íbúðir geta verkamenn helst tekið. Húsnæðisvandræðin eru því mikil meðal verkamanna enn.

Þessi till. fer fram á rannsókn á leigumála húsnæðis og jafnframt frekari rannsókn á ástandi og herbergjatölu íbúða o. fl. Þó flm. búist aðallega við, að árangurinn verði notaður til að koma á mati á húsaleigu, þá getur þó rannsókn þessi leitt til fleira. Mætti nota hana til að koma hjer á byggingalöggjöf.

Jeg álít, að sem stendur sje þörf á opinberri íhlutun um leigumála á húsnæði hjer í bænum. Þó skal jeg viðurkenna, að slík íhlutun um verð á leigu geti ekki átt sjer langan aldur, meðan bæjarfjelagið á ekki sjálft yfir húsnæði að ráða. Matsleiga á ekki að miðast við upprunalegan byggingarkostnað húsanna, heldur við byggingarkostnað á hverjum tíma, sem metið er, og þarf þó að taka tillit til þess, hvernig húsunum er við haldið.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) lagði þá spurningu fyrir flm., hvort ekki mundi þurfa lög til þess, að rannsókn geti farið fram. Jeg álít, að til þess muni þurfa lög, ef upplýsinga er neitað. Þó hefir bæjarstjórn álitið sig geta fengið upplýsingar án lagasetningar, því að síðastliðið haust samþykti hún að láta fara fram rannsókn á húsnæði í bænum. En verði væntanlegri nefnd neitað um nauðsynlegar upplýsingar, þá getur stjórnin gefið út bráðabirgðalög, með þann vilja þingsins að baki sjer, sem kemur fram í till.

Að endingu skal jeg taka það fram, að jeg álít, að till. eigi rjett á sjer nú, bæði er litið er á hana frá því sjónarmiði, að setja þurfi hámark á húsaleiguna, og að hún verði til þess að leggja grundvöll undir skynsamlegt byggingafyrirkomulag í bænum.