16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (2307)

151. mál, rannsókn leigumála húsnæðis í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Þar sem hjer er aðeins um að ræða rannsókn á leigumála húsnæðis, þá mætti kanske segja með rjettu, að það eigi ekki við að taka málið til efnismeðferðar, heldur aðeins ræða um, hvort rjett sje að rannsaka þetta og annað, er að því lýtur, hve mikið verk það sje og hverjar ástæður sjeu fyrir því að láta slíka rannsókn fara fram. En það grípur svo inn í rannsóknarefnið sjálft, að það er beinlínis ómögulegt annað en minnast 3 það.

Um sjálfa nefndina og rannsóknina hefir hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) sagt það, sem jeg hefði annars sagt. Hv. flm. (HStef og JörB) hafa ekki gert sjer ljóst, hve gífurlegt verk þeir ætla þessari nefnd að vinna á stuttum tíma. Það er tekið fram í till., að öll nefndin, eða a. m. k. 2 nefndarmenn, skuli kynna sjer með eigin augum hið leigða. Þeir eiga m. ö. o. að koma í öll bygð ból í Reykjavík. En það er gífurlegt verk, þar sem skoða ber og grannskoða hverja leigða íbúð; það er ekki svo sem þeir eigi rjett að reka inn höfuðið og spyrja, hvað þessi eða hin íbúðin sje leigð dýrt; það á að taka skýrslu um hvert hús, hvað það er gamalt, hve hátt virt, hvernig við haldið og hvernig það hefir gengið kaupum og sölum, auk þess er snertir stærð íbúðarinnar, sem leigð er, og dýrleika. Það er ekki neitt í áttina, að hægt sje að ljúka þessu starfi á parti úr ári. En svo er fyrir mælt í till., að rannsókninni skuli lokið fyrir árslok 1928, og meira að segja ætlast til, að þá hafi nefndin unnið úr skýrslunum og náð niðurstöðuatriðum úr þeim.

Kostnaðurinn við þetta lendir auðvitað á landinu. Jeg hygg, að bæjarstjórnin muni þykjast vera búin að fá nóg af þessu braski áður.

Eins og kunnugt er, voru sett hjer húsaleigulög 1917, og var þeim breytt 1921. Það hefir aftur og aftur verið gerð tilraun til að koma þessu í það horf, að bærinn gæti tekið málið í sínar hendur. En á þetta hefir verið litið sem óvenjulega ráðstöfun, sem gerð var vegna styrjaldarinnar. Eins og kunnugt er, sætta menn sig við ýmsar óvenjulegar ráðstafanir, sem gerðar voru á stríðsárunum fyrir nauðsynja sakir, og þessi húsaleigulög gátu þá flotið í skjóli annara þvingunarráðstafana.

En smátt og smátt urðu kröfurnar háværari um það hjer í bænum, að þessu oki yrði ljett af. Það var líka svo um þessi lög, eins og önnur, að hin mikla óánægja með þau gerði þau að miklu leyti gagnslaus. Jeg held, að að því er leiguupphæðina snerti, hafi þau verið hreinasta pappírsgagn, sem engin áhrif hafði. Hin einu áhrif, sem lögin höfðu, voru þau, að húseigendur voru að miklu leyti sviftir umráðum yfir eignum sínum, þannig að leigjendur gátu setið svo lengi sem þeir vildu, ef þeir aðeins greiddu leiguna og gerðu ekki af sjer nein skammarstrik. En hitt mun löngum erfitt, að binda með lögum, hvaða verði hluturinn sje seldur, ef einhver vill selja hann og hefir kaupanda að honum við því verði, sem hann vill fá.

Það var erfitt að framfylgja húsaleigulögunum, meðan þau voru í gildi síðast, en hversu miklu erfiðara mundi það ekki reynast nú? Þá var þó hægt að tala um sem grýlu, hvað verða mundi, ef þau yrðu afnumin. Því var haldið fram, að þá myndu verða endalausir flutningar, mönnum yrði sagt upp í þúsundatali og fjölskyldur í hundraðatali myndu standa uppi húsnæðislausar. En nú er reynslan búin að kveða þessar grýlur svo rækilega niður, að þær verða aldrei vaktar aftur til lífs.

Jeg skal alls ekki neita því, að hin háa húsaleiga hjer í Reykjavík sje mikið böl, sem hafi haft áhrif á verðlag úti um land. En þetta má ekki taka of einhliða.

Hv. 1. flm. till. (HStef) benti á starfsmenn ríkisins, sem hjer eru búsettir, og sagði, að launakröfur þeirra miðuðust m. a. við hina háu húsaleigu, sem þeir verða að greiða. En þeirra laun hafa ekki verið ákveðin með þetta fyrir augum. Það hefir aldrei verið gert ráð fyrir staðaruppbót eða neinu slíku, til að jafna hlut þeirra. Enda hefir embættislaunum ekki verið haggað um langan tíma. Þá er líka hins að gæta, að embættismenn eru ekki allir leigjendur. Sumir þeirra eiga sjálfir hús, og hafa einstöku átt það síðan fyrir stríð og þrengt að sjer til að geta leigt af húsnæði sínu, og hafa þeir haft af því mikinn stuðning. Þessi háa leiga hefir þannig bjargað sumum yfir örðugleikana, þeim, sem búið hafa við hin mestu sultarlaun frá ríkinu. Þessa hlið málsins þarf líka að athuga.

Jeg hefi lengst af verið leigjandi og hefi fundið ákaflega vel, hve erfitt er að greiða hina háu leigu, en jeg hefi líka fundið, að þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, hafa reynst gagnslausar.

Það er ákaflega hart að gengið að skerða eignarrjett einstakra manna, og má alls ekki koma fyrir, að það sje gert, án þess að verulegt gagn verði að því fyrir heildina.

Hv. 1. flm. (HStef) talaði um, að um þetta ættu að gilda. sömu reglur og um okur. Jeg skil ekki, hvers vegna ætti að taka þetta fyrir, fremur en annað vöruverð. Hvað er það, sem ákveður leiguna? Það er auðvitað, hvað það kostar að koma sjer upp húsi. Leigan verður að laga sig eftir því, og svo hefir verið fram að þessu. Ef litið er á þetta, þá hefir leigan ekki verið, svo að úr skæri, of há. Frumorsökin til hinnar háu húsaleigu er hinn gífurlegi byggingarkostnaður, og þessa aðalorsök þarf ekki að setja neina nefnd til að rannsaka.

Menn vita vel, hvað það kostar að byggja hús, og þau hús, sem eru orðin gömul, hafa flest skift um eigendur. Þau munu nú heldur fá orðin, sem ekki hafa skift um eigendur, og að því er þau snertir, er vitanlega ómögulegt að komast hjá því, að leigan verði of há, í samanburði við, hvað þau hafa kostað á sínum tíma. Það þýðir ekkert að segja við menn: Hjer er gamalt hús, sem ekki hefir kostað eigandann nema þetta og þetta. Þetta hús á því að leigja svo og svo ódýrt. Það verður bara til þess, að húsið verður selt og fær þá það verð, sem annars er hjer á húsum.

Það eru vitanlega tvær ástæður, sem valda miklu um leigu á húsum. Í fyrsta lagi byggingarkostnaðurinn og svo hitt, hve mikið er bygt. Það veldur líka mjög miklu. Þegar þetta nú er athugað, þá er auðsætt, að öll húsaleigulög hljóta að verka þveröfugt við tilgang sinn. Menn myndu hætta að byggja hús til að leigja út, ef þeir vissu, að von væri á slíkri löggjöf. Sem bendingu um það þarf ekki annað en minna á hið mikla kapphlaup í byggingum, sem hjer hófst, þegar menn vissu, að húsaleigulögin myndu verða afnumin.

Það er svo um þetta, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) benti rjettilega á, að þessi vandræði, sem hjer er um að ræða, verða ekki leyst nema með auknu húsnæði. Jeg er því á móti þessari till., með því að mjer sýnist sá bragur á henni, að engar líkur sjeu til, að hún geti í framkvæmdinni orðið til blessunar fyrir bæinn. En getur á hinn bóginn verkað í þveröfuga átt við það, sem henni er ætlað.