08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (2323)

65. mál, embættisfærsla í Barðastrandarsýslu

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það er nú lítið eftir af fundartímanum, enda skal jeg ekki verða langorður. Málið, sem jeg spyr um, heyrir undir tvo ráðherra, hæstv. fjmrh. og hæstv. dómsmrh.

Það hefir oft leikið orð á því, að slælegt eftirlit væri með embættismönnum landsins. Oft hefir verið um það talað, að misfellur mundu eiga sjer stað hjer og þar. En það hefir verið litið svo á, að stjórninni bæri skylda til að halda uppi svo góðu eftirliti, að embættismenn yrðu að standa sæmilega í stöðum sínum. En það, að önnur eins atvik hafa geta borið að hendi og nú í Barðastrandarsýslu, sýnir, að eftirlitið hefir ekki verið eins gott og skyldi. En sje nú svo, að eftirlitinu hafi verið mjög ábótavant, minkar sök embættismannanna. Þeim er fremur vorkunn, þótt ekki hafi alt farið hjá þeim sem skyldi, ef lítið hefir verið eftir því gengið. En sje svo, verður þetta að breytast.

Mjer þykir eðlilegt, að hæstv. stjórn þurfi að hafa nokkurn tíma fyrir sjer, áður en hún getur gefið fullar upplýsingar um málið. Hún getur það líka því fremur, sem till. mín er í þál.-formi, en ekki fyrirspurnarformi. Vildi jeg því leyfa mjer að skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki fallast á, að málinu yrði frestað og það athugað í nefnd. Tíminn er hvort eð er alt of skammur til þess, að hægt sje að ræða það nú til nokkurrar hlítar.

Að þessu sinni mun jeg ekki segja fleira. Hæstv. ráðherrar ráða því, hvort þeir vilja svara nú eða síðar, hvort þeir vilja gefa skýringar sínar í umræðunum um till. eða eftir að búið er að samþykkja hana, ef hún nær fram að ganga. — Jeg skal þó geta þess, að jeg er við því búinn, að umr. sje haldið áfram nú.