08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (2324)

65. mál, embættisfærsla í Barðastrandarsýslu

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg skal strax taka það fram, að jeg held ekki, að nú sem stendur sje hægt að gefa neina fullnaðarskýrslu um málið. Það er enn ekki fullrannsakað. Talsverðar misfellur hafa komið í ljós, en jeg fer ekki langt út í það að skýra frá þeim, fyr en rannsókn er lokið.

Það hefir verið venja að framkvæma eftirlit hjá öllum embættismönnum þriðja hvert ár, og hefir það verið gert í Barðastrandarsýslu eins og annarsstaðar. Við eftirlitið 1923 komu engar alvarlegar misfellur fram um fjármálin. Ef til vill hafa fundist einhverjir formgallar, en ekki stórkostlegir. Næsta rannsókn fór fram 1926. Var þá ýmislegt sjáanlegt, sem ekki var í góðu lagi. En þó varð ekki annað kunnugt en að nægilegt fje væri fyrir hendi til þess að greiða tekjuhalla þann, sem orðinn vax. En síðasta árið hefir orðið mikil breyting á þessu, svo að nú standa inni hjá fyrv. sýslumanni um 65 þús. kr. af ríkistekjum.

Enn þá er eftir að rannsaka margt, sem að fjárhagshlið málsins lýtur, t. d. meðferð búa. Tel jeg því ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það í bráð. Þó vil jeg taka það fram viðvíkjandi þessari sjóðþurð, að trygging er nú fengin að nokkru leyti fyrir því, að hún verði greidd. Að vísu held jeg ekki, að það sje full trygging.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að fara lengra inn á þetta að svo komnu, nema þess verði sjerstaklega óskað.