09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (2331)

73. mál, bréfaskifti milli stjórna Spánar og Íslands

Jón Þorláksson:

Mjer þykir á vanta, að utanríkisráðherrann (TrÞ) kemur ekki fram, þegar rætt er um mál þetta, heldur aðeins dómsmrh. (JJ). Jeg álít þetta svo stórt mál og vandasamt, að það eigi kröfu til þess, að hæstv. utan ríkisráðherra sje a. m. k. viðstaddur, þegar rætt er um það. Tillaga þessi fer fram á að skipa þriggja manna nefnd til að athuga brjefaskifti milli stjórna Spánar og Íslands út af Spánarsamningnum. En jeg efast um, að nokkur brjef hafi farið milli þessara stjórna áður en samningurinn var gerður. Og þótt hugtakið „stjórn Íslands“ sje teygt svo langt, að það sje látið ná til utanríkisráðuneytisins danska í Kaupmannahöfn, þá efast jeg um, að nokkuð verulegt sje til af brjefum um þetta mál á milli þess og stjórnar Spánar. Svona mál fara fram með alt öðrum hætti. Brjef og skeyti eru send milli stjórnarinnar og trúnaðarmanna hennar á Spáni, sem síðan semja við hlutaðeigandi stjórnarvöld þar.

Jeg sje mjer ekki fært að taka þátt í atkvgr. um þetta mál, bæði af því að jeg tel fyrirsjáanlegt, að enginn árangur verði af starfi nefndarinnar, ef hún á að binda sig við það verkefni, sem henni er fengið í till., og svo hinu, að mjer þykir rjett, að núverandi landsstjórn og hennar flokkur beri einsömul veg og vanda af meðferð sinni á því utanríkismáli, sem Spánarsamningamálið óneitanlega er.