09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (2332)

73. mál, bréfaskifti milli stjórna Spánar og Íslands

Flm. (Ingvar Pálmason):

Jeg geri ráð fyrir, að þær upplýsingar, sem hv. 3. landsk. (JÞ) hefir gefið, sjeu rjettar. Jeg dreg ekki í efa, að það sje rjett með farið, að ekki hafi verið brjefaskifti um þetta mál milli stjórna Spánar og Íslands. Hinsvegur upplýsti hv. þm., að undirbúningur málsins lægi í brjefa- og skeytasendingum milli stjórnarinnar og trúnaðarmanna hennar á Spáni. Mjer fanst eiga að skilja orð hv. þm. svo, að till. næði ekki svo langt, að í henni fælist heimild handa nefndinni til að rannsaka þau skilyrði. Um það er jeg honum ekki sammála. Eftir því, sem jeg les till., skilst mjer, að hún eigi að rannsaka alt, sem að málinu lýtur. Jeg verð að líta svo á, að ef eitthvað í undanfara samningsins sanni það, að Spánverjar hafi sett það skilyrði, að útsölustaðir ættu að vera svo og svo margir, þá sje jafngott, að það upplýsist úr þessari átt. En ef ekkert kemur fram annað en það, sem í samningnum stendur, þá held jeg fast við það, að þar er ekkert ákveðið um fjölda útsölustaðanna. Og þá leiðir það af sjálfu sjer, að stjórnin á að ráða fjöldanum á útsölustöðunum, þar sem þetta er verslun, sem stjórnin rekur. Auðvitað skil jeg, að stjórnin má ekki gera neitt til að draga úr gildi samningsins. En eins og ísl. þýðingin er, liggur ekkert fyrir, sem sanni, að skylda sje að hafa útsölur þar t. d., sem tap er á rekstrinum. Hinsvegar hlýt jeg að gera ráð fyrir, að þeir, sem halda hinu gagnstæða fram, hafi eitthvað annað að halda sjer að. Og þá vil jeg fá það fram.

Mjer kom það undarlega fyrir, er hv. 3. landsk. kvaðst ekki ætla að greiða atkv. um þetta mál. Jeg skildi ekki almennilega, á hverju þetta bygðist. Helst var svo að heyra, sem hann áliti, að hjer væri atriði á ferð, sem hættulegt gæti verið fyrir þjóðina út á við, að við væri hróflað. Hv. þm. sagði, að hann teldi hæstv. núv. landsstjórn eiga að bera alla ábyrgð á þessu máli. Nei, því er nú ver, að það gerir hún ekki, hvorki á Spánarsamningnum nje ákvörðununum um útsölustaðina. En jeg sje ekki, að það sje þungur ábyrgðarhluti að bera ábyrgð á því, að þingnefnd rannsaki málið. Ef hv. 3. landsk. væri þess fullviss, að rannsóknin leiddi í ljós, að hans skoðun á málinu væri rjett, þá sje jeg ekki annað en að hann ætti að vera henni fylgjandi. Jeg get ekki skilið, af hverju hann vill skjóta sjer hjá að koma hreinlega fram og segja annaðhvort, að nefndarskipunin sje þýðingarlaus, eða hann sje fús að rannsaka málið.

Jeg held, að ekki hafi verið margt fleira, sem jeg hafði sjerstaklega að athuga við ræðu hv. þm. Þar bar alt að sama brunni. Ef hv. deild snýst eins við málinu og hv. 3. landsk., þá heldur tortrygnin um þetta mál áfram með þjóðinni, og það væri illa farið, að mínu áliti. Í þessu máli á engu að halda leyndu. Þetta snertir bæði siðferðis- og sjálfstæðistilfinningar manna. Það er ekki einungis siðferðismál okkar bannmanna og templara, heldur jafnframt Sjálfstæðismál allrar þjóðarinnar. Ef óskyldar, erlendar þjóðir eiga að geta skipað okkur fyrir um það, hvernig við eigum að haga innanlandsmálum, þá er hætt við, að sjálfstæðið verði lengst af mest á pappírnum. Þeirri hlið má ekki gleyma. Það er álit margra, að við templarar göngum í þessu máli feti framar en góðu hófi gegnir. Þó er þarna ekki aðeins um okkar hagsmuni að ræða, heldur allrar þjóðarinnar. Og jeg tel nokkuð langt gengið á sjálfstæði ríkisins, ef bannað er að hafa siðbætandi áhrif á þjóðina. En á því getur enginn vafi leikið, að svona margir útsölustaðir á Spánarvínum eru siðspillandi.

Þrátt fyrir ummæli og afstöðu hv. 3. landsk. vænti jeg þess, að hv. deild samþ. till. og skipi þessa nefnd, svo að starf hennar megi bera heillaríkan ávöxt fyrir land og lýð.