09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (2343)

73. mál, bréfaskifti milli stjórna Spánar og Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg verð að segja, að lögskýring hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) sje harla undarleg. Það er nú svo, að aumingja Ísland hefir með sambandslögunum frá 1918 afsalað sjer rjetti sínum til þess að fara með utanríkismál sín, í hendur annarar þjóðar. Er því óhugsandi, að með slíkt mál sem spönsku samningana hafi farið aðrir en útlendir menn, sumir danskir og sumir spanskir. Og það er einmitt, hvað farið hefir á milli þessara manna, sem goodtemplarar vilja fá að vita, og þetta er beint tekið fram í tillögunni og það með skýrum orðum. Jeg er því alveg hissa, að hv. þm. Seyðf. skuli reyna að halda því fram, að till. beri ekki með sjer það, sem einmitt er átt við með henni.