23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (2372)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Jeg þyrfti í raun og veru ekki að fylgja þessu máli úr hlaði með mörgum orðum, því að fyrirspurnin rúmar í sjer það, sem jeg þarf að segja til að byrja með. En þó vil jeg fylgja þingvenju um það að segja fáein orð.

Jeg vil þá fyrst þakka hæstv. forsrh. (TrÞ) fyrir það, hve vel hann vjekst við að svara fyrirspurn minni. Ekki af því, að það sje í sjálfu sjer neitt þakkarvert að svara þinglega fram borinni fyrirspurn um mál, sem snertir alþjóð. Í raun og veru ættu fyrirspurnir að vera notaðar miklu meir en gert er hjer á þingi, til að upplýsa hin og þessi atriði. En bæði er fyrirspurnaformið nokkuð þunglamalegt eftir þingsköpum, og auk þess hefir sú venja komist hjer á, að undir fyrirspurnunum býr byrjun að eldhúsdagsumræðum. Þess vegna er þetta form ekki notað eins mikið og vert væri. — Jeg álít auðvitað sjálfsagt, að stjórnin víkist vel við svona fyrirspurnum. En jeg þakka hæstv. forsrh. vegna þess, að annar ráðh., hæstv. dómsmrh. (JJ), hafði látið orð falla í Sþ. um það, að fyrirspurnum mínum yrði ekki svarað. Mjer þykir því vænt um, að stjórnarformaðurinn hefir þarna látið að sjer kveða og hefir ekki látið embættisbróður sinn taka svo hatramlega af sjer völdin, að hann, sem alls ekki var spurður, rjeði, hvort svarað yrði. Þetta mál heyrir eðlilega undir stjórnarformanninn, þótt gott sje, að hinir ráðherrarnir svari einnig fyrir sig.

Út af þessu sama er ástæða til að koma nú þegar í veg fyrir einn misskilning. Um leið og hæstv. dómsmrh. lýsti yfir því í Sþ., að hann ætlaði ekki að svara fyrirspurnum mínum, þá svaraði hann þeim að nokkru leyti. Hann svaraði þannig í Sþ. máli, sem fram var borið í Nd. og var á engan hátt til umr.

Þar á ofan lagði hann alt annað inn í fyrirspurnina heldur en hún hljóðar um. Hann þóttist halda, að jeg væri að amast við því, að ráðherrarnir hefðu aukatekjur, enda mun tilgangurinn hafa verið sá, að ná í mig í svarinu. Jeg átti sem sje að hafa þessar óskaplegu aukatekjur. Nei, jeg átti ekki við þetta. Mjer dettur ekki í hug, að ekki eigi að borga fulla borgun fyrir þau störf, sem unnin eru í þágu hins opinbera, og það jafnt hvort sem það eru ráðherrar eða aðrir, sem taka þau að sjer. Opinber störf eiga að borgast og það þannig, að ekki þurfi að vera að hnotabitast út af þeim. Eins og embættismennirnir fá laun og daglaunamennirnir fá kaup, verða þeir að fá sanngjarna þóknun, sem taka að sjer störf eða snúninga í þágu hins opinbera, sem oft eru illa þokkuð og vandasöm. Ef ráðherrarnir geta unnið aukastörf án þess að það brjóti bág við embætti þeirra, þá eiga þeir fult kaup fyrir. Jeg viðurkenni ekki þann eignarrjett ríkisins á starfsmönnum sínum, að þeir megi ekki alment ráða því, hvað þeir gera í frístundum sínum. — Það, sem jeg á við með fyrirspurninni; er ekki að seilast í ráðherrana fyrir bitlingasýki, heldur aðeins að fá að vita með vissu, hvaða aukastörf ráðherrarnir hafa með höndum. Um sum vita menn með áreiðanlegri vissu, en um önnur ganga ýmsar sögur, sem ekki verða hentar reiður á. Þá vil jeg og einkum spyrja um eitt: Hafa ráðherrarnir tíma til að gegna þessum aukastörfum, og eru þau samrýmanleg ráðherrastöðum þeirra? Ef þeir hafa tíma til þessa, er þá nauðsyn að hafa ráðherrana svona marga? Jeg segi þetta ekki af því, að jeg ætli að ámæla þeim fyrir að vera þrír. Jeg held, að störf þeirra sjeu svo umfangsmikil, að þeir megi ekki færri vera. En ef þeir hafa ærið nóg að starfa, þá virðist mjer háskasamlegt, að þeir gefi sig til muna við öðru.

Síðari liður fyrirspurnarinnar er um það, hvort ráðherrarnir ætli að halda áfram þessum aukastörfum, og er fram borinn m. a. fyrir þá sök, að jeg heyrði á einum ráðherranum, að hann teldi eitt aukastarfanna. aðeins bráðabirgðastarf. Mjer fanst það nú ekkert merkilegt. Það er vel skiljanlegt, þegar athugað er, hvernig stjórnin er mynduð, að ráðherrarnir vildu ekki þegar í stað sleppa öllum öðrum störfum. Hæstv. stjórn er mynduð milli þinga, og hennar eigin flokkur er ekki meiri hluti í þinginu, heldur verður hún að styðjast við náð annars flokks, sem ekki er hægt að segja um, hve tryggur er. Jeg get vel skilið það um ráðherra, sem mega búast við að velta úr sessi þá og þegar, að þeir vilji ekki sleppa algerlega tangarhaldi af þeim störfum, er þeir höfðu áður með höndum. En þegar Alþingi er komið saman og stjórnin er búin að siða heimilisfólkið, þá ætti hún ekki að þurfa langan tíma til að gera upp við sig, hvort hún ætlar að halda áfram aukastörfunum eða ekki. Að svo stöddu þarf ekki að fjölyrða frekar um þetta.

Hefði þessi fyrirspurn komist fyr á dagskrá, ætlaði jeg að spyrja hæstv. forsrh. (TrÞ), hvort hann vildi ekki líka svara annari fyrirspurn, sem hæstv. dómsmrh. (JJ) hefir neitað að gefa svar við. Á jeg þar við fyrirspurn mína um gagnfræðaskólann á Akureyri. Frá því hefir nefnilega verið skýrt, að breyting skólans í mentaskóla hafi verið ákveðin á ráðherrafundi, og stendur hæstv. forsrh. þá nærri til fyrirsvars. Ef hann hefði viljað svara þessari fyrirspurn, hefði jeg í raun rjettri getað tekið aftur þá þáltill. um sama efni, sem hjer er á dagskrá í dag. En þar sem svo lengi hefir dregist að taka málið til umræðu og þáltill. er auk þess komin á dagskrá, þá held jeg, að jeg verði að halda fast við hana.