23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (2374)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Mjer þykir ekki undarlegt, þó að einhver kunni að verða fyrir vonbrigðum hvað þessar umræður snertir, hafi verið búist við því, að þær yrðu sjerlega fjörugar og skemtilegar. Til þess að þær gætu orðið það hefir ekkert tilefni gefist. Ræða hv. fyrirspyrjanda var mjög kurteis og gaf ekki tilefni til neinna hnútukasta. Mikill hluti hennar var þakkargerð til hæstv. forsrh. fyrir það, að hann skyldi vilja svara þessari fyrirspurn. Jeg veit nú satt að segja ekki, hvort það er svo mjög þakkarvert. En vel má vera, að tilefnið til þessa þakkalestrar hv. fyrirspyrjanda hafi verið það, að hann hafi ekki búist við, að fyrirspurn hans yrði virt svars, því að hann var að tala um, að hæstv. dómsmrh. hefði einhvern tíma tekið hálfönuglega í að svara henni. Þetta held jeg að sje ekki rjétt hjá fyrirspyrjanda. Jeg minnist þess ekki, að hæstv. dómsmrh. hafi látið nein orð falla í þá átt, að hann vildi ekki svara fyrirspurninni. En vel má vera, að hann hafi talið það óþarfa, því að þetta, sem að er spurt, er kunnugt öllum þingmönnum út í æsar.

Þá talaði hv. fyrirspyrjandi (MJ) um það, að varast þyrfti allar óþarfa málalengingar, bæði í þessu máli og öðrum. Þarna er jeg alveg á sömu skoðun. Og ef hann vildi gera það að lífsvenju sinni framvegis, þá teldi jeg það vel farið, því að „batnandi manni er best að lifa“.

Þá taldi hv. fyrirspyrjandi það ekkert aðalatriði fyrir sjer, þó að ráðherrarnir tækju þóknun fyrir aukastörf, sem þeir hefðu með höndum. Þetta er vel mælt hjá hv. þm. En hvað mig snertir, þá er svo ástatt, að jeg hefi ekki aðstöðu til að vinna fyrir nema mjög litlum aukalaunum, eins og jeg mun víkja að síðar. Þá komu langar hugleiðingar um það, hvort núverandi stjórn væri svo nauðulega stödd, að hún gæti ekki tekið ákvarðanir um nokkur mál án þess að bera það fyrst undir flokk Jafnaðarmanna. Þetta mun alls ekki hafa verið í alvöru talað, heldur sagt til þess að nota tækifærið til þess að japla enn þá einu sinni á sömu tuggunni, sem Íhaldsmenn og blöð þeirra eru altaf að tönlast á, að stjórnin eigi alt líf sitt undir Jafnaðarmönnum.

Hvað snertir stuðning Jafnaðarmanna, þá hygg jeg, að okkur sje í þessu efni ekkert vandara en öðrum þjóðum. Í nágrannalöndunum er t. d. enginn flokkur svo sterkur, að hann einn geti myndað stjórn. styðjast stjórnir þeirra landa því við tvo eða fleiri flokka. Þetta er því ekkert einsdæmi hjer.

Þá kem jeg að aðalefninu, og það eru aukastörf mín. Eins og kunnugt er, hefi jeg veitt Landsversluninni forstöðu í 10 ár. En nú hefir þessi hv. þm. og flokksmenn hans gengið svo milli bols og höfuðs á henni, að hún var lögð niður við síðustu áramót. Og eins og gefur að skilja, þá er ekki hægt að gera jafnyfirgripsmikla reikninga upp undir eins. Til þess þarf töluverðan tíma. Þar sem nú jeg veitti fyrirtæki þessu forstöðu allan þennan tíma, þá taldi jeg nauðsynlegt að hafa yfirumsjón með „uppgjörinu“, þar til því verður að fullu lokið. En jeg skal taka það fram, að jeg ætlast ekki til neinnar borgunar fyrir það starf. Jeg bæti því á mig og vinn það í eftirvinnu, og vil fá að vera óátalinn fyrir það, því að við, sem eldri erum, tökum það ekki næmi okkur, þó að við þurfum að vinna 12–14 st. á dag.

Annars er það rjett hjá hv. fyrirspyrjanda, að störf ráðherranna eru svo mikil, að ekki gæti komið til mála, að þeir gætu haft aukastörf með höndum. ef aðeins væri gengið út frá 5–6 st. vinnutíma á dag.

Þá er hitt aukastarfið, sem jeg hefi með höndum. Á síðasta þingi var jeg valinn í bankaráð Íslandsbanka, og það hálfvegis að mjer óvörum, og satt að segja án þess að mjer væri það beinlínis ljúft. Þó gerði jeg það fyrir flokksmenn mína að taka við kosningunni. En síðan hefi jeg sannfærst um, að þetta hafi verið vel ráðið, því að án þess að jeg sje að hæla mjer, þá hefir þó koma mín í bankaráðið m. a. orðið til þess, að nú heldur það einn fund í mánuði, í stað þess að áður var ekki haldinn nema einn fundur á ári. Og til þess að finna þessum orðum mínum frekari stað, þá skal jeg geta þess, að fyrir mitt tilstilli hafa launakjör við banka þennan verið sett nokkuð samsvarandi við getu hans og sömuleiðis í hlutfalli við störf þau, sem int eru af hendi. Þessa sparnaðar var bankanum full þörf.

Á veltuárunum, þegar kaup bankaráðsmannanna var miðað við ágóðahluta, þótti mjög óeðlilegt hlutfallið á milli launanna, sem þeir fengu, og starfsins, sem þeir intu af hendi. Það var von, að mönnum blöskraði, þegar þeir fengu 10 þús. kr. fyrir að sitja á einum fundi á ári. Nú er þetta sem betur fer breytt, því að nú má segja, að í staðinn fyrir 10 þús. kr. laun sje komið 2 þús., en að starfið hafi tólffaldast. Þess vegna held jeg, að starfið sje ekki orðið eftirsóknarvert frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Nú hefi jeg gert grein fyrir þeim aukastörfum, sem jeg hefi á hendi, og eins og jeg hefi tekið fram, þá er annað þeirra bráðum úr sögunni. En hversu lengi jeg hefi hitt á hendi, er engu hægt að spá um. Það fer eftir því, hvort mjer endist aldur og heilsa alt kjörtímabilið, sem jeg á að hafa það á hendi.

Jeg vænti nú, að hv. fyrirspyrjandi geti látið sjer þessi svör nægja og sannfærist jafnframt um, að við þetta sje ekkert að athuga.

Læt jeg svo útrætt um þetta mál að svo komnu, og það fer alt eftir því, hvernig umræðurnar falla, hvort jeg finn ástæðu til að taka til máls frekar.