23.02.1928
Neðri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (2378)

43. mál, aukastörf ráðherranna

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg var svo óheppinn, að jeg var ekki viðstaddur, þegar hv. fyrirspyrjandi svaraði mjer, þar sem jeg var bundinn við atkvgr. í Ed. En það var kanske hið mesta happ fyrir mig að þurfa ekki að hlýða á alla þá mælgi, sem hv. þm. hefir eflaust talið nauðsynlega. Það má kanske segja, að orðið hafi lán úr óláni. Mjer virðist þessum hv. þm. (MJ) hafa farist líkt og ofdrykkjumanni, sem vaknar að morgni og líður illa. Hann segir við sjálfan sig: Þetta skal jeg aldrei gera oftar. Hv. fyrirspyrjandi gat þess í frumræðu sinni, að hann ætlaði umfram alt að varast eins og heitan eldinn alla óþarfa mælgi. En hvernig fór fyrir honum? Eins og ofdrykkjumanninum. Hann var búinn að gleyma sínum góða ásetningi, þegar hann tók aftur til máls.

Mjer hefir skilist, að það, sem hv. fyrirspyrjanda þyki sjerstaklega athugavert, og það, sem einkum knúði hann til að koma fram með sína fyrirspurn, væri það, að ráðherra gegndi bankaráðsstörfum. Forsætisráðherra er skyldugur til þess lögum samkvæmt, svo að um hann þarf ekki að tala. Jeg verð að halda því fram, að þó að gáfur hv. þm. sjeu að ýmsu leyti liprar, þá er þó þarna í þeim stór glompa. Hv. þm. virðist ekkert skilja í þessu, sem hann er að tala um. Það er einmitt gott og nauðsynlegt, að ráðherra geti fylgst með störfum bankanna. Jeg gerði grein fyrir því atriði í minni fyrri ræðu. Frá mínu sjónarmiði er það svo þýðingarmikið, að það eitt snýr öllum rökum hv. þm. í villu. Í þessu sambandi mætti geta þess, að hv. fyrirspyrjandi fór nokkrum orðum um, hve óviðeigandi það væri, að dómsmrh. sæti í bankaráði Landsbankans, aðallega vegna þess, að hætt væri við, að pólitík rjeði þar gerðum hans. Hv. þm. er sjálfur í sama bankaráðinu og vill þar víst engu um breyta. Hv. þm. er yfirleitt ekki sýnt um að gera rjett upp á milli sinna samherja og sinna andstæðinga.

Jeg þykist þá hafa svarað því eina í síðari ræðu hv. þm., sem þýðingu hafði. En jeg ætla að nota þetta tækifæri til að láta. í ljósi undrun mína yfir því, að úr þessari átt skuli koma slík vandlætingasemi um að reyna að gera það sem tortryggilegast, að ráðherra taki þátt í ýmsum aukastörfum, einkum þeim, er að bönkunum lúta. Jeg álít, að ádeilumennirnir, sem taka sjer vald til þess að finna að því, sem þeim þykir miður fara hjá einstaklingum eða fjelögum og jafnvel þjóðfjelaginu sjálfu, þurfi helst að hafa sýnt það með sínu eigin dagfari, að þeir standi framar öllum fjöldanum. Nú er undirstaðan undir þeim umræðum, sem hjer fara fram, þetta að menn, sem taka laun af opinberu fje, eigi ekki að taka þátt í neinum aukastörfum. Manni verður að athuga, hvort hv. þm. fylgi sjálfur þessari reglu, sem hann er að gefa okkur hinum. Og það kemur í ljós, að hv. þm. ætti einmitt öðrum fremur að álíta, að ósaknæmt væri, þótt menn gegndu slíkum aukastörfum. Hans embætti er þó svo varið, að það samrýmist ekki vel ýmsum veraldlegum aukastörfum, sem hv. þm. hefir á hendi. Jeg vil nú ekki segja, að hv. þm. sje fyrverandi guðsmaður — jeg vona, að hann verði guðsmaður bæði þessa heims og annars — en sumum störfum hans er svo farið, að þau samrýmast ekki betur hans embætti en aukastörf ráðherra ráðherraembættinu. Mjer hefir verið sagt — en jeg veit ekki sönnur á því — að hv. þm. hafi tekið allmikinn þátt í útgerðarstarfsemi. Einnig mun hann hafa fengist við umboðsmensku fyrir erlent fjelag. Þetta hefi jeg í sjálfu sjer ekkert við að athuga, en út frá sjónarmiði hv. þm. ætti það að vera mjög óviðeigandi. Ofan á þetta bætist þingmenskan og bankaráðsstarfsemin, að jeg ekki tali um guðfræðikensluna. Þegar þess er gætt, hversu hv. þm. er störfum hlaðinn, verður að álíta, að hann sje miklu meira en meðalmaður að starfsþreki. Auk alls þessa gefur hv. þm. sjer tíma til að tefja þingið með sínum mörgu og óþörfu margmælgisræðum.

Jeg hefi nú sýnt fram á, að hv. þm. virðist vilja heimta meira af öðrum en sjálfum sjer. Hans næma siðferðistilfinning kemur betur í ljós gagnvart öðrum en honum sjálfum. Jeg vona, að eftir umræðurnar takist hv. þm. að átta sig á, að þessi fyrirspurn hans er alóþörf og hefir alls ekki náð tilgangi sínum, sem virðist ekki hafa verið annar en sá, að kasta rýrð á andstæðingana.

Að endingu ætla jeg að láta þá ósk og von í ljós um þennan hv. þm., sem jeg hefi að öðru leyti ekki ástæðu til að lasta, að hann láti ekki framvegis hafa sig til þess af sjer verri mönnum að koma í sífellu fram með árásir á mótstöðumenn sína að ástæðulausu. Ef hann heldur því fram, býst jeg við, að einhverjum muni detta í hug, að líkt sje ástatt fyrir honum og Þjóstólfi og Hrappi forðum. Þeir voru fengnir til þess að svíkjast að mótstöðumönnum þeirra, er að baki þeim stóðu. En sem sagt ætla jeg að vona, að hv. þm. láti ekki hafa sig til slíks.