24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (2384)

80. mál, uppsögn sambandslagasamningsins

Fyrirspyrjandi (Sigurður Eggerz):

Þegar sambandslögin voru samþykt 1918, þá þótti það hjá meginþorra þjóðarinnar mikil og góð tíðindi, og jeg var einn í þeim hóp, sem leit svo á það mál. Ekki svo að skilja, að mjer væru eigi ljósir ýmsir megingallar, sem voru á sambandslögunum. Má þar telja höfuðgallann, að 6. gr. laganna heimilar Dönum jafnrjetti við oss hjer á Íslandi. — Þetta hefi jeg leyft mjer að kalla ábúðarrjett Dana á Íslandi. Er alveg ónauðsynlegt að skýra það fyrir hinu háa þingi, hve víðtækur rjettur sá er, sem Dönum er veittur hjer. Vjer höfum rjettilega sett hjer mjög stranga fiskiveiðalöggjöf, til þess að vernda oss gegn ágangi erlendra þjóða. Í hvert sinn, sem leitað hefir verið um undanþágu frá þessari fiskiveiðalöggjöf, hefir það mætt harðri mótspyrnu hjá Alþingi. — Er þar skamt að minnast á undanþágu frá lögunum, sem sótt var um fyrir enskan stóreignamann. Vildi hann fá rjett til þess að reka fiskiveiðar með 10 botnvörpungum frá Önundarfirði. Á móti skyldi það koma, að hann vildi koma á fót skipaferðum milli Önundarfjarðar og Englands, er flytti nýjan fisk á markaðinn, og vildi þar með opna möguleika fyrir fisksölu í allverulegum mæli. Vitanlegt var, að Alþingi vildi ekki veita þessa undanþágu, og var það auðvitað rjett. En þessi undanþága, sem enski maðurinn gat ekki fengið, er í sambandslögunum heimiluð sambandsþjóð vorri allri, eða rúmum 3 miljónum manna.

Hjer er auðvitað að ræða um stórfeldasta gallann á sambandslögunum, enda bentu andstæðingar sambandslaganna mjög fast á þennan galla. Vöruðu við hættu þeirri, sem af honum stafaði. Og allir sáu þennan galla. En sannleikurinn var sá, að Danir litu svo á á undan sambandslögunum, að þeir hefðu þennan rjett, og þó að vjer að vísu andmæltum því og neituðum því harðlega og hefðum stuðning ýmsra fræðimanna erlendra um það mál, þá má öllum vera það ljóst, hve miklum örðugleikum það myndi vera bundið að sækja þennan rjett í greipar sambandsþjóðar vorrar. En áður en jeg vík nánar að þessu, þá vil jeg minna á annan höfuðgalla sambandslaganna, hið víðtæka umboð, sem vjer höfum gefið Dönum til þess að fara með utanríkismál vor, í 7. gr. sambandslaganna. Utanríkismálin eru, eins og margoft hefir verið vikið að, ein af allra þýðingarmestu málum hverrar þjóðar. Í raun og veru má því engin þjóð trúa öðrum en sjálfri sjer fyrir þeim málum. Nú er það að vísu svo, að mikill ágreiningur er um hið óskýra ákvæði 7. gr. sambandslaganna, en hvernig sem á þá skýringu verður litið, þá er þó umboðið gefið. — Um þessa grein má auðvitað segja, að Danir hefðu áður mikið víðtækari rjett yfir þessum málum en nú á sjer stað, og þó að vjer andmæltum rjetti þeim og hjeldum skilyrðislaust fram, að vjer værum ríki fyrir okkur, sem mætti auðvitað ráða sínum eigin málum, þá hjeldu Danir alt öðru fram, og í þeirra greipar áttum vjer að sækja rjettinn.

Það voru engan veginn ákvæðin í 6. og 7. gr., sem gerðu sambandslögin girnileg, nema síður en svo, en það var eitt ákvæði í sambandslögunum, sem varð því valdandi, að jeg fyrir mitt leyti gat samþykt þau, og þetta var ákvæðið um rjettinn til að segja samningunum upp, sem stendur í 18. gr. sambandslaganna.

En þar stendur svo, að eftir árslok 1940 geti Ríkisþing og Alþingi hvort fyrir sig, hvenær sem er, krafist, að byrjað verði á samningnum um endurskoðun laga þessara. Og enn stendur svo: Nú er nýr samningur ekki gerður innan 3 ára frá því að krafan kom fram, og getur Ríkisþingið eða Alþingi hvort fyrir sig samþykt, að samningur sá, sem felst í lögum þessum, sje úr gildi feldur. Í þessum ákvæðum felst fyrirheitið um hið alfrjálsa íslenska ríki. Með einni atkvæðagreiðslu getum vjer strokið af oss allar þær veilur, sem eru í sambandslögunum, og þá loksins erum vjer komnir að því marki, sem bestu menn þjóðarinnar hafa stefnt að um ótal ár. — Einmitt það, að málið þannig var lagt í vorar eigin hendur, varð þess valdandi, að jeg fyrir mitt leyti þóttist geta tekið á móti sambandslögunum með öllum þeim göllum, sem á þeim voru. En þó lykillinn að fullu frelsi Íslands felist í þessari grein, þá eru þó einnig í þessari grein ýmsir örðugleikar á ferðum. Til þess að fullgild ályktun verði gerð um uppsögnina þurfa 2/3 þingmanna í sameinuðu þingi að hafa greitt atkvæði með henni. Mjer virðist að vísu, að þessi atkvæðagreiðsla ætti ekki að vera hættuleg fyrir málið. Því skrítið væri innrætið þá orðið á Alþingi, ef örðugt væri að fá 2/3 þingmanna með því í sameinuðu þingi. En síðan á að leggja þessa ályktun sameinaðs þings undir þjóðaratkvæði. Og þurfa ¾ atkvæðisbærra manna að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni, og af þeim greiddu atkv. þurfa ¾ að hafa greitt atkvæði með samningsslitunum. Til skýringar vil jeg leyfa mjer að nefna, að 1927 voru á kjörskrá rúm 45750 atkvæði og þar af greidd 32945 — eða nærri ¾. — Nú er það að vísu bót í máli, að við ráðum sjálfir fyrirkomulagi atkvæðagreiðslunnar og hvort hún er leynileg eða opinber. En ekki síst fyrir það, hve mikil atkvæðagreiðsla er heimtuð, er nauðsynlegt, að þjóðin sje sem best vakandi.

Nú veit jeg, að spurt verður: Hví hreyfir þú þessu máli nú, svo löngum tíma á undan En því svara jeg með annari spurningu, nefnilega þeirri: Eru 12 ár svo langur tími í lífi þjóðarinnar? — En endurskoðunina má heimta eftir 12 ár, og þá er eins gott að vera við öllu búinn.

Önnur spurning kann einnig að vakna: Eru nokkrar sjerstakar ástæður til þess að hefjast nú handa í þessu máli? Og jeg vil skilyrðislaust svara því, að svo er. Í fyrsta lagi hefir því verið haldið fram opinberlega hjer í skrifum, að uppsagnarákvæðið væri skaðræðisgripur. Og þó þessi kenning hafi ef til vill ekki fengið bergmál víða, þá má þó ekki gleyma því, að hún var ekki kveðin niður með þeirri harðneskju, sem æskilegt hefði verið. Þá er ein ástæða enn. Upprennandi flokkur í landinu, eða foringjar hans, virðast líta á ákvæðin í 6. gr. sambandslaganna sem nokkurskonar bróðurkærleikaákvæði, og er þar á sömu skoðun og sambandsþjóðin. Þessi flokkur fær styrk frá dönskum Jafnaðarmönnum til pólitískrar starfsemi og lítur svo á, að honum sje það heimilt eftir alþjóðareglum um samband Jafnaðarmanna heiminum. Hjer eru tilfærðar þeirra eigin kenningar. Er það ljóst, að slík samvinna, er jeg nefndi, gæti aukið fylgi þessa flokks, en það gæti verið hættulegt fyrir úrslit atkvæðagreiðslunnar. Hjer er ný hætta á ferðum, sem engan dreymdi um. En ef til vill kemur nú frá þeim yfirlýsing í þá átt, að ekki þurfi að hræðast þetta.

Þá er það ein höfuðástæða, að mikill áhugi er vaknaður hjá sambandsþjóðinni á því að nota sjer rjett þann, sem henni er áskilinn í sambandslögunum. sjest þetta ljóst í bók þeirri, er nýlega hefir verið útbýtt hjer í hv. deild og heitir „Et Stort Havfiskeri. Et större Danmark“ eftir M. L. Yde. — Jeg vil tilfæra nokkuð af efninu úr þessari bók.

Á bls. 6 er talað um persónusambandið milli Íslands og Danmerkur, og segir höf., að ef fiskveiðar í stórum stíl hefðu verið settar á stofn í Danmörku fyrir 25 árum, þá hefði fjárhagsleg samvinna getað orðið svo náin milli Íslendinga og Dana, að hún hefði einnig getað borið uppi hið þrengra pólitíska samband á milli landanna. Segir hann, að Danmörk hafi haft fjeð og tökin á versluninni, en Ísland hefði getað lagt til menn (Menneskemateriale) og hin fiskauðgu höf.

Á bls. 13 segir hann, að þó Danir hafi enn ekki gert sjer mat úr fiskveiðunum, þá sje það ekki af því, að tækifærið hafi vantað, því lega Danmerkur og aðstaðan til Íslands sje þeim stórhagstæð í þessu efni.

Á bls. 15 segir hann, að á Jótlandi hafi menn komið auga á höfin við Ísland og Færeyjar. Vill hann ýta undir þá starfsþrá, sem lýsir sjer hjá Jótum. Enn segir hann, að ekkert ríki hafi önnur eins skilyrði til þess að reka fiskveiðar eins og Danmörk, vegna legu sinnar hjá auðugustu fiskistöðvum Evrópu og vegna sambandsins við Ísland, Grænland og Færeyjar, og þá einnig fyrir það, hvað landið liggur nálægt markaðinum. Hann segir, að verkefnið sje risavaxið.

Á bls. 21 talar hann um auðæfi, sem megi draga úr hafinu. Á sömu bls. talar hann um, hvað aðstaða Dana sje betri en annara þjóða, þar sem Danir geti lagt fiskinn á land á Íslandi og sent hann svo til þurkunar til Danmerkur.

Á bls. 24 talar hann um, að byrja mætti í smærri stíl, með 10 skipum o. s. frv.

Á bls. 39 er gert ráð fyrir, að til stuðnings fiskiveiðunum verði settar upp margskonar verksmiðjur, niðursuðuverksmiðjur, söltunarstöðvar, reykingarhús; enn er gert ráð fyrir ötulum fiskikaupmönnum.

Á bls. 40 segir hann, að bók þessari sje tekið með svo stórfenglegri samúð, að á því megi sjá, hvað mál þetta eigi djúpar rætur í hjörtum þjóðarinnar.

Á bls. 43 er skýrt frá tillögu, sem 50 fiskimenn í Esbjerg hafi samþykt og sent höfundinum, um að fiskiveiðar með dönskum skipum og dönskum sjómönnum hljóti að borga sig.

Á sömu bls. segir hann, að Tulinius hafi kvartað undan því, hvað Danir hafi gert lítið til að færa út kvíarnar hingað.

Á bls. 46 segir höfundurinn, að frá ómunatíð sjeu Danir vanir að skoða höfin milli Færeyja, Íslands og Grænlands sem heimahöf. Hverja mannsæfina á fætur annari hafi dönsku höfin beðið eftir dönsku framtaki.

Í þessari bók, sem rituð er af merkum manni, sjest hinn brennandi áhugi Dana á því að vilja notfæra sjer rjett þann, er þeir eiga samkvæmt sambandslögunum. Nú er það vitanlegt, að Danir hafa til skamms tíma lítið notfært sjer þennan rjett, en nú er þjóðarvakning orðin í Danmörku, sem beinist að því að reyna að notfæra sjer þau auðæfi, sem hjer eru við strendur landsins.

Hið fjárhagslega tjón, er vjer bíðum við það, ef Danir færu að hagnýta sjer ábýlisrjettinn, verður ekki metið í miljónum. — Enginn getur sagt, að hjer sje verið að deila um form. En stundum var það notað gegn oss sem slagorð í hinni fyrri sjálfstæðisbaráttu.

Hjer er verið að ræða um stórvægilegasta fjárhagsatriði þjóðarinnar. Og á því mati, sem rithöfundurinn leggur á þessi fjárhagsatriði, má sjá, hvílík eftirsókn Dönum hlýtur að vera í því að halda áfram ábúðarrjettinum á landinu, og hve sívakandi vjer verðum að vera yfir þessum auðæfum vorum.

Nú eru 10 ár síðan sambandslögin voru samþykt, en 12 ár eru eftir þangað til fyrst má byrja á endurskoðuninni. Öllum hlýtur því að vera ljóst, að tími er kominn til þess að athuga þetta mál rækilega, sem hefir svo örlagaþrungna þýðingu fyrir alla framtíð þjóðarinnar. — Getur nokkur neitað því að það sje þýðingarmikið, að vjer eignumst vort eigið land kvaðalaust. Mundi jafnmikið spursmál eins og þetta nokkursstaðar hafa legið í eins miklu þagnargildi eins og hjer hefir átt sjer stað. En til þess að skýra þetta er rjett að taka fram þær sálfræðilegu ástæður, sem liggja að því, að þjóðin hefir legið svo lengi í svefnmókinu án þess að rumska. Þegar atkvæðagreiðslan fór fram um sambandslögin, þá var að vísu lítil, en hörð andstaða gegn sambandslögunum. Utan þings var það einn af skörpustu lögfræðingum landsins, Magnús Arnbjarnarson cand. jur., er stóð fyrir andstöðunni. Skrifaði hann mjög harðorðan ritling um sambandslögin og taldi þau rjettindaafsal. Innan þings var það núv. hæstv. forseti þessarar hv. deildar (BSv), sem barðist harðast gegn þeim, og sömuleiðis forseti sameinaðs þings, Magnús Torfason. Þeir, er með sambandslögunum stóðu og trúðu á vinning þann, sem í þeim fólst, lögðu vitanlega fyrir þetta enn þá meiri áherslu á sigurinn, sem unninn var, í deilunum um málið. –Og þjóðin, sem var orðin þreytt á að berjast, tók fegins hendi sambandslagasigrinum. — Vingjarnleg ummæli fóru milli Íslendinga og Dana eftir sigurinn, og sumir vildu heldur þakka Dönum sigurinn heldur en Íslendingum. Og út frá því steig smátt og smátt lofgerð upp í hjörtum þeirra manna, sem breiddu huliðsblæju yfir gallana, sem á sambandslögunum voru, og földu fyrirheitin, sem voru falin í lögunum. Alt þetta hefir gert, að ýmsir voru farnir að gleyma og voru farnir að trúa því, að vjer værum komnir að markinu. En hve langt erum vjer frá markinu, ef sambandslögin væru skoðuð sem seinasta sporið? Og hve stutt er ekki að markinu, ef vjer gerum skyldu vora og notum fyrirheit Sambandslaganna?

En því á að hreyfa málinu nú? Liggur nokkuð á því fyr en nær dregur þeim degi, sem úrslitin liggja undir atkvæði voru? — Jeg spyr þá aftur: Er þetta mál ekki svo mikils virði, að einsætt sje, að það verður að tryggja undirstöðu málsins þannig, að víst sje, að vjer fáum eignarrjett yfir landinu í vorar hendur? Eru til nokkrir þeir Íslendingar, sem þyrðu að standa upp og segja, að þeir vildu ekki eiga landið einir, en þeir vildu eiga það með Dönum? En hitt er vitanlegt, að til skamms tíma eru fáir, sem hafa viljað segja það hreint og ótvírætt, að þeir vildu segja sambandslögunum upp. — Og í þessu felst hin mikla hætta. — Þetta er eitt af því, sem fyllir mig geig, að Íslendingar skuli vera dulir á að segja, að þeir vilji segja sambandslagasamningnum upp. Því ef sá beygur grípur ýmsa bestu menn þjóðarinnar nú . — hvernig verður þá, þegar nær dregur 1943?

Mjer er það með öllu ljóst, að ef yfirlýsing fengist bæði frá stjórnarflokknum og öðrum flokkum um, að þeir teldu sjálfsagt að segja sambandslagasamningnum upp á sínum tíma, þá er sigurinn unninn. — En ef engin yfirlýsing fæst um þetta, þá virðist mjer, að vjer sjeum í voða staddir. Auðvitað mundum vjer, sem vitum, að þetta er þjóðarinnar stærsta mál, reyna að vekja trú þjóðarinnar á sjálfri sjer Því ef þjóðin vanrækir svo skyldu sína í þessu efni, þá er hún að svíkja sjálfa sig.

Ein af ástæðum þeim, sem færðar hafa verið gegn uppsögninni, er að svo mikill kostnaður mundi fylgja því, ef vjer tækjum utanríkismálin í vorar hendur. Jeg hefi í fyrirspurninni lagt áherslu á það, að hæstv. stjórn vildi sem fyrst láta íhuga, hvernig þessum málum yrði komið fyrir, bæði á tryggan hátt og þó jafnframt með sem minstum kostnaði fyrir oss. Það liggur nú í hlutarins eðli, að þegar um fyrirkomulag og undirbúning svo stórra mála er að ræða, sem vjer þar að auki höfum fremur litla sjerþekkingu á, er ekki ráð nema í tíma sje tekið. En auk þess þarf með þessari íhugun fyrirfram að kveða niður þá grýlu, sem áreiðanlega verður notuð í þessu máli, að vjer kostnaðarins vegna getum ekki tekið þessi mál í vorar hendur. Sú grýla mun óspart verða notuð í þessu máli. Jeg held, að rannsóknin muni sýna, að sá kostnaður, sem af þessu leiðir, sje smáræði í samanburði við það, sem í aðra hönd kemur, er vjer megum sjálfir ráða þessum málum.

Auðvitað mundi ekki þurfa að fjölga ráðherrum vegna utanríkismálanna. Og með hagsýni mætti væntanlega komast af með þann starfsmannafjölda, sem nú er í stjórnarráðinu. En auðvitað þyrfti sú breyting að verða á, að menn með sjerþekkingu á utanríkismálum yrðu að komast inn í stjórnarráðið, en á þeim er þörf hvort sem er nú þegar.

Erlendis dettur mjer í hug, að ekki þurfi að bæta við sendiherra, nema einum í London. Sendiherrann í Höfn ætti að geta verið fyrir Norðurlönd öll og Þýskaland. Á Spáni geri jeg ráð fyrir, að fiskierindrekinn, sem nú er, fengi „diplomatiskt“ erindisbrjef, og þyrfti þá engum að bæta við þar. — Auðvitað mundum vjer hafa staðarræðismenn, sem ekkert mundu kosta landið, og mætti með góðu vali skapa þar hring af velviljuðum erlendum mönnum um hagsmuni þjóðarinnar.

Auðvitað eru þessar íhuganir aðeins settar fram til bráðabirgða, án þess að jeg hafi getað bygt þær á þeirri rannsókn, sem fara verður fram sem fyrst um þessi mál.

Í Norðurlandi eru til klettar, sem Hljóðaklettar eru kallaðir. Er mikil unun að heyra bergmálið inni í klettunum. — Þegar jeg, sem stend hjer einn í flokki, ber þetta mál fram, þá er það ekki af því, að jeg trúi svo á mátt minn og megin, að jeg ætli, að jeg ráði nokkru á þessu háa Alþingi, en hitt er jeg að vona, að á fulltrúaþingi þjóðarinnar sjeu pólitískir hljóðaklettar, sem bergmála þær raddir, sem í einlægni koma fram til þess að vekja hug þjóðarinnar á því, að vernda sig frá öllu illu.

Í einlægni játa jeg, að mjer finst jeg vera of lítill til að bera svona stórt mál fram hjer í hinu háa Alþingi. Ef Alþingi ber giftu til að taka þetta mál einhuga, þá yrði þessi dagur mikill dagur í sögu þjóðarinnar.

Þetta mál er í sannleika mál málanna. Það ætti að gnæfa hjer yfir öll önnur mál. Meiri hlutar skapast í þinginu og verða aftur að minni hlutum. Nýir meiri hlutar koma í staðinn. — Þetta mál ætti ekki að vera háð slíkum straumskiftum í stjórnmálum vorum. Allir flokkar ættu að strengja þess heit að lyfta því upp yfir allar flokkadeilur. Þá væri sigurinn vís. — Sigurinn á að vera vís. Hvergi erlendis eða innanlands ætti að leika vafi á því, hvað þjóðin gerði, er hinn mikli dagur atkvæðagreiðslunnar rennur upp. Vjer vitum allir, að jafnan hefir það verið giftuvottur, þegar þjóðerniseldurinn hefir brunnið skærast á altari þjóðarinnar.

Í bjarmanum frá þeim eldi hafa oft skapast stærri mál og stærri menn. Svo hefir það verið hjer. Svo hefir það verið annarsstaðar. Svo verður það alstaðar.

Þegar jeg lít úr minni pólitísku einveru hjer á Alþingi yfir stjórnmálasviðið, þá finst mjer, að aldrei hafi ef til vill verið meiri þörf á því en nú, að ýmislegt mætti stækka. Og trú mín er það, að ef hugsjónin um að eignast landið verður nógu rík í hugum manna. þá muni alt stækka.

Hæstv. stjórn getur unnið mikið verk með því að segja nú hið rjetta orð. Hið rjetta orð mundi vekja þjóðina. Og þá er sigurinn vís.