03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Jeg þykist þurfa að gera grein fyrir afstöðu minni til frv. Hún er alveg sú sama og á síðasta þingi, nefnilega sú, að jeg álít málið best komið í höndum stjórnarinnar. Jeg held satt að segja, að aldrei verði samin svo lög um það efni, sem frv. fjallar um, að ekki verði á þeim nægilega stór göt til þess, að eins smáir sýklar og hjer er um að ræða komist í gegnum þau. Það mun því affarasælast, að stj. ráði og breyti eftir bestu vitund. f þessu máli geta komið fyrir svo mörg tilfelli, að óhugsandi er, að þau verði öll tekin fram í lögum. Mundi því heppilegast, að stjórn, sem hefir áhuga á málinu og góðan vilja til framkvæmda, skæri úr í hvert sinn, hversu fara skyldi að.

Við stjfrv. sjálft hefi jeg margt að athuga. Þar er t. d. gert ráð fyrir undanþágu um innflutning dýra. Þetta er að mínum dómi ákaflega varhugavert. Eins og dýralæknir segir, getur veikin legið niðri jafnvel heilt ár og dýr gengið með hana allan þann tíma án þess að þess verði vart. Gæti t. d. svo farið, að dýr hefði sýkst nokkrum dögum áður en það var flutt hingað, en veikin brytist ekki fram fyr en eftir missiri eða heilt ár. Þá er þess að gæta, að dýr geta, eins og menn, verið sýkilberar. Með taugaveiki og mænusótt geta menn t. d. gengið árum saman án þess að þeir sjeu veikir sjálfir. En aðra geta þeir sýkt. Klaufaveikinni er að öllum líkindum eins farið og þessum sjúkdómum, og geta menn af því sjeð, hvílík voðahætta getur stafað af innflutningi dýra. Um þetta atriði var Magnús heitinn Einarson dýralæknir strangastur, og mun hann eiga mestar þakkir fyrir það, að veikin er ekki enn hingað komin. Í frv. er gert ráð fyrir, að stjórnin ráðfæri sig við dýralækni. Það ákvæði mun ekki hafa verið í frv. í fyrra; þá þótti það óþarft, eða jafnvel varhugavert.

Þá þykir mjer einkennilegt, að í frv. er talinn fjöldi vara, sem eingöngu eru notaðar til manneldis. Mjer virðist aðallega bannaður innflutningur þeirra vörutegunda, sem menn eiga að eta, en síður þeirra, sem dýrum er ætlað til fóðurs. Það er rjett eins og menn sjeu orðnir að kúm, en kýrnar að mönnum. T. d. er ekki bannað að flytja inn þá vöru, sem einna mest hætta getur stafað af, fóðurkökur. Þær geta þó verið komnar frá Póllandi og Rússlandi, og dæmi eru til, að borist hafi með fóðurkökum miltisbrandur þaðan að austan. Aftur á móti er ýmislegt bannað, sem vjer Íslendingar getum ekki með nokkru móti verið án, t. d. kálmeti og kartöflur. (Forsrh. TrÞ: Kartöflur eru ekki bannaðar í stjfrv.). Jæja, það hefði nú samt verið ástæða til að banna innflutning þeirra t. d. frá Póllandi, en aftur á móti síður frá Danmörku. Danir eru svo „civiliseruð“ þjóð, að minni hætta stafar af vörum þeirra en margra annara þjóða, vegna þess að þeir verjast eftir megni útbreiðslu veikinnar og viðhafa alla mögulega varúð. Þá er þess að gæta, að innflutningsbannið veldur nágrannaþjóðunum tjóni. Er ekki ástæða að baka Sambandsþjóð vorri tjón að raunalausu. Þarf því vel að athuga, frá hvaða stöðum þarf að banna innflutning og hvaðan má leyfa hann. Þetta getur verið nokkuð breytilegt, og ætti stjórnin að skera úr því í hvert sinn.

Að vísu heimilar frv. stjórninni að gera ýmsar undanþágur. En því fylgir minni ábyrgð en ef hún ætti að hafa varnirnar algerlega í sinni hendi. Og stjórnin þarf umfram alt að finna greinilega til þeirrar ábyrgðar, sem á henni hvílir í þessu máli. Annars getur hún sagt, ef veikin berst til landsins: „Mjer er ekki um að kenna; jeg hlýddi lögunum“. En hún þarf að hafa miklu meiri skyldur í þessu efni en að hlýða afmörkuðum lagaákvæðum. Ef lög ættu að koma að haldi í þessu máli, þyrftu þau að ná yfir öll möguleg tilfelli. En það gera þau aldrei. Og því á stjórnin að geta gert það, sem hún álítur best og hagkvæmast til þess að verjast veikinni. Eins og jeg tók fram í upphafi, hefir aðstaða mín ekkert breytst síðan í fyrra, enda fæ jeg ekki sjeð, að neitt nýtt hafi fram komið, sem gæfi ástæðu til þess. Vona jeg, að mjer hafi tekist að tala svo ljóst, að hv. þdm. hafi skilið aðstöðu mína og andstöðu gegn frv.