03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. landbn. hefir haft þetta mál helst til lengi til meðferðar og átt erfitt með að komast að niðurstöðu í því, því að svo má segja, að hún sje þríklofin. Hinsvegar má játa það, að málið er erfitt viðfangs og því ástæða til að vanda til afgreiðslu þess.

Það er rjett, sem hv. 6. landsk. tók fram, að innflutningsbann varðar ekki eingöngu okkar þjóð, heldur og aðrar þjóðir, sem við höfum verslunarviðskifti við. Gæti það bakað þeim nokkurt óhagræði. Hinsvegar er þetta svo alvarlegt mál, að það er ekkert álitamál að gera allar þær ráðstafanir, sem að haldi mættu koma í baráttunni við hinn mikla vágest, gin- og klaufaveikina. Og jeg sem atvinnumálaráðh., sem fyrst og fremst ber ábyrgð á, hversu fer um þetta efni, mun fyrir mitt leyti telja það mína fyrstu og sjálfsögðustu skyldu að nota til hins ítrasta hverja heimild, sem þingið gefur til þess að stemma stigu fyrir veikinni. Mun jeg þar, sem sjálfsagt er, haga mjer samkv. áliti hinna færustu vísindamanna um útbreiðslu möguleika hennar.

Jeg vil segja það, að brtt. þær, sem hv. 1. þm. Eyf. ber fram á þskj. 314, fari í rjetta átt, enda munu þær vera gerðar með ráði dýralæknisins í Rvík og samkvæmt upplýsingum frá þeim manni, sem rannsakað hefir klaufaveikina meir en nokkur annar maður á Norðurlöndum, C. O. Jensen í Kaupmannahöfn.

Háttv. 5. landsk. vill undanþiggja mjólkurafurðir og egg. Vísindin telja þó alls ekki útilokað, heldur beinlínis sennilegt, að veikin geti borist með þeim vörum. Hinsvegar er talið, að hægt sje að ganga svo vel frá þeim, að girt sje fyrir smitunarhættu. Með tilliti til þess mun ákvæðið í brtt. hv. 1. þm. Eyf., um heimild til að undanþiggja einstök lönd eða landshluta, vera samið.

Jeg vil, sem sá ráðherra, er ábyrgð á að bera á framkv. þessara laga, mæla með því, að brtt. hv. 1. þm. Eyf. verði samþyktar. Þykist jeg, er jeg ber fram þau tilmæli, standa á þeim grundvelli, er vísindin hafa traustastan lagt í þessu máli. En hinsvegar verð jeg alvarlega að mæla á móti brtt. frá hv. 5. landsk.

Hv. frsm. minni hl. leggur til, að frv. verði afgreitt með rökst. dagskrá og málinu vísað til stj. Jeg vil eindregið mælast undan því, að sú dagskrá verði samþykt. Frv. er borið fram í samráði við dýralækni og menn úr Búnaðarfjelagi Íslands. Það er ósk mín, að það nái fram að ganga, því að í frv. eru settar ýmsar nánari reglur en nú eru til að halda sjer að, og yfirleitt tekið miklu fastari tökum á málinu. En jeg tek að vísu með þökkum því trausti, sem hv. 6. landsk. ber til mín um framkvæmd þessa máls.

Þá vjek hv. þm. að 1. gr. frv., um undanþágu við innflutning dýra. Jeg hefi enga tilhneigingu til að halda þessu. Jeg skal geta þess, að nýlega lá fyrir umsókn um innflutning hreindýra. Dýralæknir neitaði ekki algerlega og ekki heldur aðrir, sem um þetta áttu að segja. En jeg neitaði um innflutningsleyfið.

Hv. þm. þótti undarleg sú uppástunga í 2. gr., að sleppa ýmsu, sem skepnur jeta, en halda því, sem menn borða. Það fyrsta, sem nefnt er, er hey. En það var álit dýralæknis og meining frv., að það bæri að vera aðalregla, að banna annarsvegar það, sem hætta væri á, að bærist til skepnanna, og hinsvegar afurðir skepnanna utanlands frá. Þetta kemur greinilega fram í brtt. háttv. 1. þm. Eyf. á þskj. 314.

Háttv. minni hl. landbn. hjelt því fram, að erfitt væri að setja lög um þetta, af því að mismunandi mikil hætta stafaði frá hinum ýmsu löndum. Það er alveg rjett. Frá þeim löndum, þar sem allur landbúnaður er rekinn með „moderne“ sniði, eins og í ýmsum nágrannalöndum okkar, til dæmis á Norðurlöndum og í Hollandi, er áreiðanlega minni ástæða til að hræðast smitun en til dæmis frá Eystrasaltslöndunum. Ríkið heldur þar uppi stöðugri baráttu gegn gin- og klaufaveiki. En mjer finst þetta ekki vera ástæða til að vera á móti brtt. á þskj. 314, því að þar er einmitt gert ráð fyrir heimild til að veita undanþágu fyrir ýms lönd og landshluta. Það nær að vísu aðeins til d-liðs í brtt., en það mætti athuga til 3. umr., hvort ekki má breyta því þannig, að það nái yfir allar þær vörur, sem frv. tiltekur, og þó vil jeg ekki að svo stöddu fallast á það.

Hv. 5. landsk. vitnaði í það, að gin- og klaufaveiki hefði ekki komið hingað enn, og djúpir væru Íslands álar. En því má ekki treysta. Háttv. þm. minnist þess, að fyrir mörg hundruð árum gekk veiki um alla Evrópu, sem strádrap fólkið, og þó liðu tugir ára, áður en hún barst til Íslands. Þá hafa eflaust margir verið farnir að hugsa, að djúpir væru Íslands álar. En eftir 40–50 ár barst þessi veiki hingað og drap hjer fleira fólk en nokkur önnur pest fyr eða síðar. Jeg vil láta þessa getið, til þess að sýna, að hjer er um mikið alvörumál að ræða. Jeg mæli með brtt. hv. 1. þm. Eyf. Hún fer eins langt og við megum fara á grundvelli vísindanna.