03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Það hefir undir umr. verið vakin athygli mín á því, að það kynni að vera, að undanþáguheimild sú, sem gert er ráð fyrir í d-lið brtt. minnar, ætti víð meira en þann lið. Jeg vil lýsa yfir því, að hún á aðeins við d-lið eftir minni skoðun. En ef þetta þætti ekki nógu skýrt, mætti breyta því við 3. umr.

Hv. frsm. minni hl. hafði allmargt við þetta frv. að athuga. En sumt af því, sem hann hafði fram að færa, á í raun og veru við gildandi lög, þar sem hv. þm. var að fordæma það, að hugsanlegt væri að veita undanþágu til þess að flytja lifandi dýr inn í landið. Í gildandi lögum er það ekki útilokað. En af ummælum hv. þm. skildist mjer, að hann væri því alveg mótfallinn, að nokkurntíma yrðu lifandi dýr flutt inn í landið. Nú getur maður ekki hugsað sjer, að í náinni framtíð hverfi ýmsir hættulegir búfjársjúkdómar, sem ganga í nágránnalöndum okkar. Á þá að skilja hv. þm. minni hl. svo, að um aldur og æfi sjeum við útilokaðir frá að flytja lifandi dýr inn í landið? Sú skoðun finst mjer vera alt of einstrengingsleg. Það ætti vel að geta komið til mála, að við flyttum til dæmis inn sauðfje okkur til hagsmuna. Jeg verð að hryggja hv. frsm. minni hl. með því að segja honum, að jeg býst við, að við tækifæri muni jeg flytja tillögu um það. Það er eitt af okkar þýðingarmestu viðfangsefnum, að gera búpening okkar sem arðmestan, en allir vita, að með kynblöndun má gera það. Allar líkur eru til þess, að við getum bætt búpening okkar með því að flytja inn fjenað frá öðrum löndum. Hv. frsm. hafði ennfremur það að athuga við frv., að þar væri talað um að banna innflutning á ýmsum nauðsynlegum mannamat. Jeg verð nú að segja, að flestar þær vörutegundir, sem taldar eru upp í frv., eru ekki líklegar til þess að vera mannamatur.

Hv. þm. Snæf. þótti fráleitt að samþykkja d-lið tillögu minnar, þar sem bannaður er innflutningur á fóðurkökum, rófum, kartöflum, káli og öðru hraðvöxnu grænmeti, mjólkurafurðum og eggjum. Því er þó ekki hægt að neita, að allar þessar vörur geta flutt smitun inn í landið. Hv. þm. Snæf. sagði, að við gætum ekki komist af án þess að flytja inn kartöflur. Fyrst er þó á það að líta, að kartöflur eru mjög hættulegar. Þær vaxa í jarðvegi, sem borinn er á áburður úr veikum skepnum. En það er ekki þetta eitt, sem fyrir mjer vakir, heldur vildi jeg reyna að koma því svo fyrir, að við gætum ráðið því, hvaðan við flytjum inn þessar vörur. Ef við flytjum þær inn frá Danmörku, er hættan ekki nærri því eins mikil eins og t. d. frá Rússlandi og Eystrasaltslöndunum yfirleitt. En ef d-liður er feldur, er alveg eins opið að flytja þær vörur, sem þar eru taldar, frá Rússlandi eins og t. d. frá Danmörku. Jeg hefi enga trú á, að það sje mikill fengur að flytja inn kartöflur frá Rússlandi, því að jeg get hugsað, að þær verði ekki orðnar sjerlega merkilegur varningur, þegar búið er að flytja þær svo langa leið.

Hv. þm. sagði, að ekki væri hægt að fá hjer nóga niðursoðna mjólk. Jeg get ekki fullyrt, hvort það er hægt núna sem stendur eða ekki. En það er víst, að í landinu er framleidd nóg mjólk handa öllum landsbúum. Markaðurinn tekur bara ekki á móti niðursoðinni mjólk, vegna útlendu mjólkurinnar. Það er vitanlegt, að margir Íslendingar fordæma það, sem framleitt er í landinu sjálfu, þó að það sje með öllu ástæðulaust. En það eru hrein vandræði að koma út allri þeirri mjólk, sem hægt er að framleiða. Annars vakir fyrir mjer það sama með mjólkina og kartöflurnar, að jeg vil, að við getum ráðið því sjálfir, hvaðan við flytjum inn þessar vörur. Um eggin vil jeg leyfa mjer að halda því fram, að við gætum vel þrifist, þó að ekki eitt einasta væri flutt inn í landið.

Hv. þm. bað um skýringu á því, hvað jeg meinti með „hraðvöxnu grænmeti“. Það er grænmeti, sem vex upp á stuttum tíma og er þess vegna hættulegra en þær fæðutegundir, sem þurfa langan vaxtartíma. Hv. þm. sagði, að kál væri nauðsynleg sjúkrafæða. Jeg skal ekki neita því, en það er eins um kál og aðrar vörutegundir, sem taldar eru upp í d-lið, að fyrir mjer vakir aðeins það, að við ráðum, hvaðan við fáum það.