03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Hæstv. atvmrh. kvaðst vilja nota sjer vísindin til aðstoðar í þessu máli. En það getur hann eins, þó að málinu verði vísað til stj. eins og þó þetta frv. verði samþ. En jeg hefi bent á það áður, að ef þetta frv. verði að lögum, þá sje hætta á því, að stj. treysti þeim of vel og gæti síður nauðsynlegrar varúðar um, að veikin geti borist til landsins. Í fyrra mátti varla minnast á vísindalega aðstoð um þessi mál, en það er gott, að í því efni er þó breytt til batnaðar. Hæstv. ráðh. mintist á veiki, er hefði lengi verið búin að geisa í nágrannalöndunum áður en hún hefði flutst hingað. Mun hann þar hafa átt við svartadauða. Er það rjett.

En þetta má ekki svæfa stj., einkum þar sem enn er ekki uppgötvað, hvernig veiki þessi berst. Slíkt var einnig óupplýst með svartadauða til skamms tíma, en nú vita menn, að hann berst með dýrum, aðallega með flóm, sem lifa sem sníkjudýr á rottum. Það er út í bláinn, sem hv. frsm. meiri hl. Segir, að hjer sje verið að gera framtíðarskipun á þessum málum. Við vitum, að flestum lögum er sífelt verið að breyta. Þá hjelt sami hv. þm., að minni hætta stafaði af því, sem flutt væri langa leið. En þetta er ekki rjett. Þó vörur væru sendar 2–3 sinnum kringum hnöttinn, þá væri ekki hætta af þeim útilokuð með núverandi samgöngum, þar sem menn vita ekki, hve lengi sóttkveikjan lifir. Aðalatriðið er því, hvaðan vörurnar koma, og þarf að bæta ákvæði um það í frv., svo hægt sje að banna innflutning frá þeim löndum, sem hættan er mest í. Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að hægt væri að lifa góðu lífi hjer á landi, þó heftur væri innflutningur á grænmeti, eggjum o. fl. En satt að segja er fæði mjög fábreytt í kauptúnunum, svo að ef banna ætti kálmeti, kartöflur o. fl., þá væri hætt við, að fólkið fengi ginveiki — skyrbjúg, sem oft hefir borið á, einkum í kauptúnum á Norðurlandi í ísaárum, þegar ekki hefir náðst í grænmeti. — Yfir höfuð hafa engin rök verið færð fyrir því, að þetta væri betur trygt með lögum með undanþágum heldur en ef stj. væri á verði um þetta mál.