06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2526 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg er því samþykkur, að frv. eins og það er núna sje að vissu leyti kák. Að vísu er ekki hægt að setja fullkomin lög um varnir gegn gin- og klaufaveikinni, því vísindin þekkja ekki enn sem komið er til fulls, hvernig hún berst. En þó er rangt að kalla það frv., sem stj. bar fram, kák, því það var bygt á þeim niðurstöðum, sem vísindin hafa getað í tje látið. Aðalatriðið var að banna innflutning þeirra fóðurtegunda, er þær skepnur nota, er fá veikina, og hinsvegar afurðir þeirra.

Jeg skal að vísu játa, að kál fellur ekki undir þetta, og þykir mjer því minna vert um þessa brtt. en þær breytingar, er gerðar voru á frv. við 2. umr. En það ættu læknar einna fyrst að viðurkenna, að er lög eru sett, er banna innflutning vörutegunda vegna smitunarhættu, þá er einungis á það að líta, hve gagnleg þau eru til þess, en ekki á hitt, hvaða vörutegundir eru bannaðar.