06.03.1928
Efri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Jeg býst við, að það þýði ekki mikið að ræða þetta mál úr þessu. En mig furðaði satt að segja á ræðu hv. þm. Snæf., svo að jeg get ekki orða bundist. Hann heldur því fram, að allar tilraunir til þess að verjast þessari veiki, og þá sennilega líka öðrum aðkomnum alidýrasjúkdómum, væru kák eitt, og telur jafnvel best og heppilegast að gera ekki neitt til varnar þeim. Jeg skal fúslega viðurkenna, að við erum ekki óhultir, þótt þetta frv. verði samþ.

En jeg álít það ekki rjett, allra síst af lækni, að halda því fram, að ekkert eigi að gera. Það er efasamt, hvort það er heillavænlegt að slá slíku fram. Verið getur, að menn fyrir slíkar staðhæfingar missi trúna á ýmsum þeim ráðstöfunum, sem annars geta komið að haldi.

Því fleira sem tínt er út úr frv. af einstökum vörutegundum, því minna gagn gera lögin vitanlega. Jeg er á því, að frv. hafi verið spilt á þann veg við 2. umr., og því skal engan furða á því, að jeg leggist á móti, að því verði nú spilt enn meira, þótt í litlu sje.

Hv. 3. landsk. hefir sem öðrum legið opin sú leið að koma með brtt. við frv. og gera á þann hátt sitt til þess að koma því í það horf, er hann telur betur fara. Jeg tel að vísu enga nauðsyn bera til þeirrar breytingar, er hann æskir. En það eru allar líkur til þess, að hann hefði getað komið sínu máli fram, hefði hann gert tilraun til þess, því að atkvgr. við 2. umr. sýnir, að hans stefna hefir meiri byr hjer í þessari hv. deild. Hann á því sjálfur fullkomlega sinn þátt í því, ef frv. er nú að hans dómi að einhverju leyti óviðeigandi.