09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Jeg hafði sannast að segja búist við, að hæstv. atvmrh. hefði látið nokkur orð fylgja þessu frv. hjer, eftir þá limlestingu, sem það hefir hlotið í Ed. Jeg held það sje ekki of djúpt tekið í árinni að segja, að þetta frv. hafi orðið fyrir allharkalegri meðferð þar, þar sem kipt hefir verið út úr frv. einmitt þeim vörutegundum, sem almest hætta stafar af, að gin- og klaufaveiki geti borist með. Auk þess er svo háttað um þessar vörutegundir, að enginn nauður rekur til þess að flytja slíkar vörur inn í landið. Jeg verð að segja, að þær vörur eiga ekkert erindi inn í landið annað en það að flytja hingað gin- og klaufaveiki.

Þegar svona stendur á, er jeg undrandi yfir því, að hæstv. atvmrh., sem mjer er kunnugt um, að hefir haft talsverðan áhuga á þessum málum, skuli nú sitja hljóður hjá og ekki bera fram nokkur varnarorð til heppilegri afgreiðslu þessa máls.

Jeg ætla ekki nú að þessu sinni að fara langt út í þetta mál, en vildi aðeins gefa dálitla bendingu þeirri nefnd, sem fær mál þetta til meðferðar, að hjer verður einhverju um að þoka, ef það er nokkur alvara að verja þetta land fyrir þeim ógurlega vágesti, sem mundi geta lagt landbúnaðinn — og þar með þann grundvöll, sem öryggi þjóðarinnar byggist á — algerlega í rústir. Jeg vil vænta þess, að þessi hv. deild beri gæfu til þess að taka upp í frv. aftur þær vörutegundir, sem hafa verið feldar niður, og auk þess taka til mjög alvarlegrar íhugunar, hvort ekki sje ástæða til að gera ennþá víðtækari ráðstafanir til þess að verjast þessum vágesti heldur en nokkurn tíma fólst í þessu frv. upphaflega. Við vitum það um þessa veiki, að hún geisar ákaft í löndunum kringum okkur, og það seinast nú 28. febr. kom upp mjög alvarlegt tilfelli í Danmörku. Og hitt er einnig kunnugt, að veikin hefir nú á síðustu tímum geisað mjög á Englandi. Þessi veiki hefir að vísu legið niðri í Noregi nú um nokkurt skeið, en þar með er engin sönnun fyrir, að hún sje ekki enn við lýði í Noregi; því að eðli veikinnar er það, að liggja niðri um alllangt skeið og blossa svo upp, oft og tíðum í mörgum stöðum í einu. Við erum því eiginlega umgirtir af þessum háska. Og að hugsa sjer þá ljettúð og það ábyrgðarleysi, sem felst í því að vera að fella niður úr þessu frv. ráðstafanir til þess að berjast gegn þessum voða. Nei, mjer finst fullkomin ástæða til að taka á þessu máli með fullkominni ábyrgðartilfinningu og alvöru, þeirri alvöru, sem stendur dálítið í samræmi við þá hættu, sem hjer er um að ræða af þeim voðalega vágesti, sem á okkur getur herjað þá og þegar.