09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Magnús Jónsson:

Mjer þykir veðurstofan senda heldur út stormfregnir í þessu máli, þegar hv. þm. standa upp, allir sammála, og rífast þó. Jeg ætlaði mjer alls ekki að taka til máls, en jeg kæri mig ekki um, að mál þetta fari svo í nefnd, að háttv. nefnd þurfi að halda, að allir sjeu sammála því, sem þessir hv. þm. hafa látið í ljós. Jeg fyrir mitt leyti álít ekki, að það sje meiri ástæða til að svifta hv. Ed. valdi fyrir meðferð þessa máls heldur en þegar einhver stakk upp á að svifta hana valdi vegna meðferðar á rakarafrv. hjerna um árið. Nei, þetta eru alt of smávægileg mál til þess að viðhafa slík stóryrði.

Jeg álít, að þetta frv. í heild sinni sje yfirleitt bygt á svo litlum rannsóknum, að mjög vafasamt sje, hvort hægt sje að rjettlæta allan þann gauragang, sem er orðinn í kringum það. Hv. þm. er það kunnugt, hvernig það er fyrst til komið, — þannig, að nokkrir hv. þm. vildu fá verndartoll á nokkrar vörur, sem þeir vildu geta fengið meira verð fyrir hjá Reykvíkingum. Undir meðferð þess máls kemur alt í einu þessi nýi sannleikur í ljós, að nauðsynlegt sje að gera þetta vegna gin- og klaufaveiki, og úr því hætta allir að tala um verndartolla, en gin- og klaufaveikinni var veifað sí og æ. Enda sýnir það sig, hversu menn verða afarreiðir, þegar kipt var úr þeim vörum, sem þeir vildu fá vernd fyrir. Þegar búið er að kippa burt smjöri og eggjum, finst þeim alveg eins og alt sje farið í hundana. Nú hefi jeg fyrir satt, að vísindarannsóknir hafi leitt í ljós, að sýklarnir lifi ekki í smjöri, að smjörsýran drepi þá innan 2–3 daga, og sömuleiðis að sýkin berist ekki með osti. En jeg skil, hvað það er, sem kemur svo sárt við þessa hv. þm., því að þeir fá samkepni um ,þessar vörur. Og það er mál út af fyrir sig, hvort ætti að vernda innlenda framleiðslu á þessum vörum, en það á ekki að gera það undir þessu yfirskini um gin- og klaufaveiki.

Það er orðið svo framorðið nú, en annars hefði jeg viljað heyra, á hvaða vísindum þessar varnir allar eru reistar. Eins og hv. þingheimi er kunnugt, hefir vörnin undanfarið verið þetta fræga eldsvíti, sem kynt er við suðurenda tjarnarinnar, þar sem hálmi er brent, og hafa bæði kýr og kindur vaðið í honum áður, eftir því sem sagt er. Jeg er að vona, að eitthvað annað hafi hlíft okkur hjer en sú ráðstöfun. En jeg ætla einnig að vona, að þessi hv. deild sýni sömu röggsemi og hv. Ed. í að rannsaka málið, og haldi því einu, sem best er til varna gegn þessari veiki. Mjer finst sitthvað í þessu frv. bera vott um það, að þetta sje hálfgert hjegómamál. Enginn vafi er á því, að það, sem helst getur borið gin- og klaufaveikina til landsins, fyrir utan lifandi skepnur, er einmitt fólkið. Og þetta ákvæði um það, að menn eigi að gefa skýrslu, ef þeir hafa ferðast um hjerað, þar sem er gin- og klaufaveiki, það er nokkuð svona hjáleitt. Ef jeg ferðast t. d. suður um Þýskaland, á jeg þá altaf og alstaðar að spyrja: Er hjer gin- og klaufaveiki? Og ekki er nóg með það. Eftir þessu mega því farþegar, sem koma til landsins, ekki hafa snert á vörum þessum, sem bannaðar eru, og því síður eta, t. d. smjör í útlöndum eða ost, nema þá að sótthreinsa sig utan og innan þegar þeir koma. Mjer finst því vægast sagt, að allar þessar ráðstafanir, sem hjer á að gera, sjeu hjegóminn einn.