22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem stendur í nál. landbn. á þskj. 514. Eins og þar er tekið fram, álítur nefndin, að ekkert megi láta ógert, sem í þingsins valdi stendur, til þess að varna því, að gin- og klaufaveiki berist til landsins. Það er kunnugt, að nágrannaþjóðir okkar verja árlega miklu fje til þess að verjast þessari veiki, bæði til varnar því, að hún berist til landsins, eins og Norðmenn gerðu, og eins þar, sem hún er komin, að varna útbreiðslu hennar innanlands. Á þessu sjest, að þessar þjóðir telja veikina svo mikinn vágest, að ekkert megi láta ógert til að verjast henni.

En nú er það vitanlegt, að svo mikil vandræði sem af þessari veiki stafa í nágrannalöndum okkar og víðar, þar sem við til þekkjum, þá er það þó ekkert samanborið við þann skaða, sem veiki þessi mundi valdið geta hjer á landi. Þetta er vegna atvinnuhátta þjóðarinnar og þeirra skilyrða, sem eru hjer á landi. Ef gin- og klaufaveikin bærist á annað borð hingað til Íslands, þá er, eins og hjer hagar til, ekkert annað sýnilegra en að hún myndi vaða um alt landið og valda hinu mesta tjóni, sem hugsast getur. Eins og allir vita, gengur fje úr mörgum hjeruðum saman á afrjettum á sumrin; eru því sem sagt engin takmörk fyrir því, hve mikinn usla þessi veiki gæti gert hjer á landi, ef hún slyppi í land á annað borð. Það er því auðsætt, að hreinn og beinn þjóðarvoði er á ferð, ef ekki er gætt fylstu varúðar í vörnum.

Nú hefir samt sem áður farið svo, að hv. Ed. hefir allmikið dregið úr þeim varúðarráðstöfunum, sem fólust í frv. hæstv. stjórnar eins og það var lagt fyrir Alþingi; og jeg get sagt það fyrir hönd landbn. þessarar hv. deildar, að hún telur þetta mjög óvarlegt. Hefir nefndin því leyft sjer að flytja brtt. við frv. um það, að bætt sje við nokkrum vörutegundum, er bannaður sje innflutningur á. Eru það allskonar mjólkurafurðir, egg, kartöflur, kál og annað grænmeti.

Nefndin hefir átt ítarlegt tal við dýralækni um þetta mál, og hann telur, að sýkingarhætta geti stafað af öllum þessum vörutegundum. Jeg býst við, að hjer á landi hafi ekki aðrir betri þekkingu á þessu máli heldur en einmitt dýralæknir, og hefir nefndin þá í þessu efni notfært sjer þá bestu sjerþekkingu, sem völ er á. Jeg held jeg megi fullyrða fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, að hann telji langöruggast að banna innflutning á þessum vörum skilyrðislaust, en samt sem áður hefir hann ekki sjeð sjer fært að leggja það til. Meiri hlutinn leggur því til, að þessar vörur verði taldar í d-lið 2. greinar og falli því undir þær vörutegundir, sem hægt er að veita undanþágu um í einstökum tilfellum. Það leiðir af sjálfu sjer, að nefndin býst við því, að stjórnin mundi þá í hverju einstöku tilfelli fara mjög varlega í sakirnar með slíkar undanþágur, — ekki veita þær nema hún telji þær nokkurnveginn hættulausar.

Jeg skal geta þess, að einum af nefndarmönnum, hv. 1. þm. Árn., finst þó ekki nógu langt gengið með þessari till. meiri hl., heldur hefir hann flutt brtt. ásamt fjórum öðrum hv. þm. um skilyrðislaust bann á þessum vörutegundum, að undanteknum kartöflum. Jeg ætla ekki að svo stöddu að minnast neitt frekar á þessa brtt. Hv. 1. þm. Árn. gerir sjálfsagt grein fyrir henni.

En áður en jeg lýk máli mínu vil jeg árjetta það, sem jeg sagði í upphafi, að þetta mál er áreiðanlega hið mesta alvörumál. Jeg veit það vel og nefndinni var það ljóst, að þær ráðstafanir, sem felast í frv. og till. nefndarinnar, gera ýmsum óþægindi. En þegar þess er gætt, hvað mikið er í húfi, hver voði er á ferðum fyrir íslensku þjóðina, ef illa tekst til í þessu efni, þá vona jeg nú samt, að flestir — og helst allir — sætti sig við að taka á sig þessi óþægindi. Við 1. umr. þessa máls heyrðist rödd hjer í deildinni í þá átt, að það væri ekki um svo mikla hættu að ræða af þessari veiki, og að þetta, sem hjer væri á ferð, væri verndartollapólitík, en ekki ráðstafanir gegn veikinni. Þessu vil jeg algerlega mótmæla. Mjer finst liggja nokkurnveginn í augum uppi, að af þeim ástæðum hefði engum dottið í hug að setja eins víðtækt aðflutningsbann á vörur eins og felst í frv. og till. meiri hl. Og jeg skil ekki í því, að þeir þingmenn verði margir, sem vilja taka á sig þá ábyrgð að draga til muna úr þeim ráðstöfunum, sem farið er fram á með frv. og till. meiri hl.