22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2558 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Sem einn flm.brtt. þeim, sem hv. 1. þm. Árn. hefir gert grein fyrir, þarf jeg ekki að tala sjerstaklega, en það er ýmislegt fleira í þessu máli, sem vert er að athuga. Vænti jeg því, að hæstv. forseti taki ekki hart á mjer, þó að jeg tali nokkuð alment um málið nú við 2. umr.

Það er nú svo, að gin- og klaufaveiki hefir geisað í öllum löndum Evrópu, nema Færeyjum og Íslandi. Það er svo með veiki þessa, að hún herjar á löndin með meira og minna millibili, og hvað sem reynt hefir verið, hefir hvergi tekist að kveða þennan vágest niður, þar sem hann hefir komið, og má því telja víst, að veikin sje orðin landlæg á þeim stöðum, sem hún hefir geisað á. Og þó að ekki hafi borið á veiki þessari í Noregi, síðan hún geisaði þar seint á árinu 1926 og fyrri hluta ársins 1927, þá má telja víst, að hún sje þar enn við lýði. En eins og kunnugt er, var hún stöðvuð þar með því að brenna og bræla alt dautt og lifandi þar sem hún kom.

Því hefir verið haldið fram á undanförnum þingum, að veiki þessi ætti svo kölluð „norðurtakmörk, gæti ekki borist norður fyrir vist breiddarstig, en nú hefir verið sannað, eins og sjá má á grein um sýki þessa eftir Hannes Jónsson dýralækni, að sú skoðun er röng. Veikin hefir borist til hjeraða t. d. í Norður-Ameríku, sem hafa mun harðari vetur en jafnaðarlega er á Íslandi. Auk þess hefir veikin, eins og kunnugt er, borist til Noregs, en það var áður talið ólíklegt. Auk þess er sannað, að sýklarnir þola vel kulda, og geta jafnvel lifað í frosnu ástandi um langa hríð. Þeirri ástæðu, að lega landsins sje vernd fyrir okkur í þessu efni, er því með öllu hrundið.

Þá finst mjer rjett í þessu sambandi að draga upp mynd af ástandinu eins og það hefir víða verið og sýna, hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar í löndunum til þess að sporna við útbreiðslu þessarar hættulegu veiki.

Í riti því, sem jeg drap á áður, er rakin saga þessarar veiki og sagt frá ummælum og reynslu merkra manna og vísindalegum staðreyndum, sem ekki er hægt að hrekja, og meðal annars er drepið á ráðstafanir, sem gripið hefir verið til í Englandi, Svíþjóð og Norður-Ameríku. Í Englandi var það þannig, að sýkin braust þar út 1920; var þá sífelt haldið áfram í 3 ár að skera fjenaðinn niður, til þess að hefta útbreiðslu hennar. Og er talið, að það hafi kostað ríkissjóð 140–150 milj. kr. Þó varð árangurinn ekki meiri en það, að aðeins tókst að stöðva veikina í bili. Í Svíþjóð er talið, að skorinn hafi verið niður fjenaður fyrir 20 milj. kr. og í Norður-Ameríku fyrir 40 milj. kr. Og þannig mætti lengi halda áfram að telja, segir dýralæknirinn.

Þetta ætti að vera nægilegt til þess að sýna, hvað í húfi er fyrir þau lönd, sem sýkin berst til. Jeg tek þetta fram af því, að hv. 2. þm. Reykv. vildi setja þá hættu, sem yfir okkur vofir í þessum efnum, skör lægra en óþægindi þau, sem einstaka menn kunna að verða fyrir af því að fá ekki egg, smjör, osta og grænmeti vegna þeirra ráðstafana, sem nauðsynlega þarf að gera til þess að forðast þennan voðavágest. Í einu hjeraði í Hollandi var mestur hluti búpeningsins skorinn niður til þess að losna við sýkina. En þegar svo kaupa varð nýjan bústofn í skarðið, barst veikin inn aftur, og komu því hinar fyrri varnir að engu liði.

Hjer kemur þá næst lýsing á því, hvernig gengið hefir til með veikina í Danmörku, eftir frásögn C. O. Jensens prófessors, sama mannsins, sem hv. 2. þm. Reykv. var að vitna til. Og þó að þessi hv. þm. hafi viljað nota þá lýsing málstað sínum til stuðnings, þá vill nú samt svo til, að sú lýsing skýrir betur en nokkuð annað frá ástandinu í Danmörku og hve erfitt sje að beita þeim sóttvarnarráðstöfunum, sem nauðsynlegar eru og að haldi koma. Eftir að prófessorinn hefir talað um óbeina kostnaðinn, sem af gin- og klaufaveikinni leiðir, bætir hann við:

„Þegar svo hjer við bætist, að gin- og klaufaveikin getur verið svo illkynjuð, að hún drepur helminginn, jafnvel fjóra fimtu hluta af fullorðnu dýrunum, sem sýkjast, og að áhafnir heils landshluta strádrepast á fáeinum vikum, þá er það skiljanlegt, þótt hin ýmsu lönd, þar sem sjúkdómurinn ekki er landlægur, reyni á allan mögulegan hátt að tryggja sig gegn innflutningi hans“.

Jeg vil leyfa mjer að benda hv. 2. þm. Reykv. á þessi ummæli, því að þau eru sjerstaklega eftirtektarverð fyrir okkur.

Næst talar dýralæknirinn um, hvaða dýr sjeu móttækilegust fyrir veikina. Eru það öll venjuleg húsdýr, en næmust eru þó klaufdýrin fyrir veikinni, og á þau legst veikin þyngst. Talið er, að nautgripir sjeu móttækilegastir, þá svín og þar næst sauðfje og geitur. Veikin getur líka brotist út í mismunandi mynd, og fer það eftir tegund og eðli sýkiefnisins, segir dýralæknirinn, og bætir svo við: „Miklu sjaldgæfara er, að hundar, kettir, hestar og hænsni fái veikina, en þó geta öll þessi dýr fengið hana“. Og jeg vil þá sjerstaklega minna hv. þm. á það, sem um hænsnin er sagt, og bið þá að athuga það í sambandi við innflutning eggja. Því það liggur í hlutarins eðli, að egg eða aðrar afurðir sýktra dýra eru eins þrungin af sjúkdómnum og dýrin sjálf. (HjV: Hvað segir prófessor Jensen um það?). Jeg kem að því síðar, hvað hann segir um það.

Þá kemur næst lýsing á gin- og klaufaveikinni, og segir dýralæknirinn, að hún sje ákaflega næmur sjúkdómur og líkist í því efni innflúensu eða spönsku veikinni.

Þá hefir því verið haldið fram, að vísindin stæðu mjög höllum fæti um að gefa upplýsingar um veikina. Það hefir verið svo um skeið, en Hannes dýralæknir segir mjer, að nú sje það breytt orðið, og þó að sýkillinn sje svo smár, að hann sjáist ekki, þá hafi mönnum tekist að rekja feril hans og viti meðal annars nú, með hvaða vörum hann helst berst. Enda hefir í ýmsum löndum verið lagt út í gífurlegan kostnað til vísindarannsókna í þessu efni. Og má þá í því sambandi nefna, að Danir hafa í þessu skyni reist stóra rannsóknarstöð, sem mjer er sagt, að kosti margar milj. kr. (Forsrh. TrÞ: 6 miljónir). En þetta sýnir best, hvað aðrar þjóðir hafa við að stríða í þessu efni og hvað þungt það verður á metunum að kalla það hjegómlega hluti, þegar talað er um það hjer á Alþingi, að kosta eigi kapps um í lengstu lög, að slíkur vágestur berist ekki til landsins. Auk þess er það eitt enn, sem veldur miklum erfiðleikum í baráttunni við veikina. Meðal annars er það sannað, að mjólk getur verið smitandi löngu eftir að búið er að lækna gripina og þeir eru orðnir heilbrigðir. Ætti þetta því að vera fullkomin bending til okkar um að standa á verði, þegar verið er að tala um að flytja inn mjólk og mjólkurafurðir frá þeim löndum, sem veikin er í. Þetta hlýtur því að verða þungt á metunum hjá þeim, sem í alvöru vilja berjast með hnúum og hnefum gegn því, að veikin berist til landsins.

Í öðru lagi er eins um gripina í þessu tilfelli eins og menn; þeir geta verið smitberar og borið veikina með sjer, þó að þeir að öðru leyti kenni sjer einskis meins, eins og t. d. á sjer stað um taugaveiki.

Í þriðja lagi má og geta þess, að sýkillinn eða sýkilefni gin- og klaufaveikinnar getur lifað lengi fyrir utan dýrin og eftir að fullkomlega er sannað, að sýkingarhættu þeirra sjálfra er lokið.

Jeg býst nú við, að til viðbótar því, sem menn hafa alment vitað áður um útbreiðslu veikinnar, ættu þessar upplýsingar fræðimannanna að vera nægileg sönnun þess, hver voði er hjer á ferðum, og því ætlandi, að menn horfi ekki í varnarráðstafanir í því efni, eins og eitthvert smávægilegt atriði, sem enginn gaumur sje gefandi.

Þá segir dýralæknirinn, Hannes Jónsson, þegar hann er búinn að athuga þetta alt og bera saman vísindarannsóknirnar og staðreyndirnar, þá farast honum svo orð efst á 173. bls.:

„Kem jeg þá að því, hvað við getum og eigum að banna. Heilbrigð skynsemi hlýtur strax að viðurkenna, að þær vörur, sem beinlínis eru afurðir þeirra dýra, sem eru næm fyrir veikinni, og þær vörur eða hlutir, sem þráfalt eru í beinni snertingu við alidýr eða af fall frá alidýrum,* hljóta að vera langsamlega hættulegastar“.

Þetta segir nú dýralæknirinn, sem gerst má vita um þessa hluti, þegar hann er búinn að kryfja málið til mergjar, annarsvegar eftir því, sem vísindin hafa leitt í ljós, og hinsvegar með hliðsjón af órækum staðreyndum í mörgum löndum. Og enn hafa ekki verið nefndar í þessu sambandi neinar þær vörur hjer á þingi, er ekki gætu heyrt undir þessar varnarráðstafanir dýralæknisins. T. d. skýrir dýralæknirinn ennfremur frá, að veikin berist langar leiðir milli landa, og mætti í því sambandi minna á það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um innflutning á eggjum. Hann hjelt því fram, að bakterían væri utan á skurninu og mundi annaðhvort skríða í burt eða drepast alveg á svo langri leið. En jeg hefi bent á, að sýkillinn lifði í egginu sjálfu, og vísindamennirnir segja nú, að hann haldi sig í himnu þeirri næst skurninu, sem þeir kalla skjall. Eru því staðhæfingar hv. 2. þm. Reykv. á engum rökum bygðar, er hann heldur, að bakterían deyi á leiðinni hingað til lands. En til frekari sönnunar skal jeg benda á, að Hannes dýralæknir upplýsir einmitt um það í þessari ritgerð sinni, að veikin hafi borist frá Japan yfir Kyrrahafið til Norður-Ameríku í kúabólulymfu, sem notuð var í kálfa, og bætir við, að „mörg dæmi þekkist, sem eru hliðstæð þessu“.

Þá hefir því verið haldið fram, bæði af hv. 2. þm. Reykv. og fleirum, að innflutningur á niðursoðinni mjólk væri alveg hættulaus, af því að mjólkin er gerilsneydd. En Hannes Jónsson dýralæknir lítur öðruvísi á það. Hann tilfærir langt mál eftir prófessor Jensen, þar sem hann talar um útbreiðslu veikinnar í sambandi við mjólkurhirðingu og mjólkursölu, og sem ályktun af orðum prófessorsins bætir dýralæknirinn þessu við:

„Af framanskráðu“ (því, sem hann tilfærir eftir prófessor Jensen) „sjest, að það er langt frá því, að gerilsneyðing mjólkurbúanna sje einhlít til þess að fyrirbyggja smitflutning frá þeim með undanrennunni, sem send er heim og notuð til svína- og kálfaeldis. En það er ekki einungis undanrennan, heldur einnig mjólkurafurðirnar — smjörið og ostarnir —, sem geta verið smitmengaðir“. Og svo bætir dýralæknirinn við: „Fyrir land, sem vill verjast gin- og klaufaveikinni, þýðir þessi möguleiki á smitmengun sama og engin gerilsneyðing“.

Og það er ekki eins og þetta sjeu orð dýralæknisins sjálfs, heldur eru þau bein ályktun af því, sem prófessor Jensen hefir haldið fram í fyrirlestri um útbreiðslu veikinnar.

Það var einhver, sem benti á það við 1. umr., að efnabreyting í smjöri og osti eyðileggi sýkiefnið. Í sambandi við það ætla jeg að lesa áfram það, sem dýralæknirinn segir:

„Reyndar lítur prófessor Jensen svo á, að nokkurn veginn sje óhætt að treysta því, að efnabreytingarnar í smjörinu og ostinum eyðileggi sýkiefnið. En þá er sá möguleiki óneitanlega fyrir hendi, að báðar þessar vörutegundir geti smitast eftir að gerðinni er lokið“. Með öðrum orðum, það getur bara hrúgast utan á þessar vörur fult af samskonar sýkiefni meðan efnabreytingin á sjer stað og eftir að henni er lokið.

Þá vitnar dýralæknirinn í ummæli próf. Jensens viðvíkjandi smitflutningi með heyi, hálmi, rófum og sömuleiðis olíukökum, og virðist það liggja í augum uppi, að banna eigi innflutning á öllu slíku. Um þetta atriði segir dýralæknirinn svo að lokum:

„Það er því skiljanlegt, að hraðvaxnar jarðarafurðir eins og rófur, kartöflur, kál og annað grænmeti, hey og hálmur geti valdið smitun. Gengu Norðmenn langt í því, eftir að gin- og klaufaveikin fluttist til þeirra, að banna innflutning á þessum afurðum“.

Við þessi orð dýralæknisins þarf jeg engu að bæta; þau tala sínu máli.

Þá var hv. 2. þm. Reykv. að vitna í skýrslu, sem birt er í þessari ritgerð Hannesar dýralæknis og sýnir, hvernig veikin hefir dreifst út í Danmörku. Þar sjest m. a., að veikin hefir borist út frá mjólkurbúum, og á 30 stöðum hefir þetta verið orsökin. Svo hefir hún flutst með dýrum, fóðurvörum, smituðu drykkjarvatni og mönnum; þá eru og fuglar ekki heldur hættulausir.

Þá er minst á smitunarorsakir í Bandaríkjunum, og eru þær flestar, eða 44%, taldar stafa af flutningi dýra, og frá mönnum 16%. En mörg tilfelli, eða 25%, eru talin stafa af óþektum orsökum. Við þessa skýrslu er þó aðgætandi, að hún er frá 1914, en síðan hafa orðið stórkostlegar framfarir um rannsóknir á útbreiðslu veikinnar og menn komist að margfalt betri skilningi um, hvernig hún hagar sjer.

Jeg ætla nú ekki að taka fleira til athugunar úr þessari skýrslu dýralæknisins. En þessi ritgerð er hrópandi rödd til íslensku þjóðarinnar og Alþingis um að láta einskis ófreistað um að verja landið fyrir þessum vágesti, og hún sýnir líka, hvílík afhroð þau lönd hafa goldið, sem fengið hafa veikina inn til sín.

Jeg vil geta þess hjer, að jeg hefi gert, mjer og öðrum til athugunar, lauslegt yfirlit um, hvað búpeningur landsmanna sje mikils virði. Og samkvæmt hagskýrslum 1925 hefir mjer reiknast til, að með mjög lágu mati muni allur búpeningur landsins nema fullum 40 milj. kr. Og berist veikin til landsins, getur allur bústofn landsmanna verið í hættu staddur, af því að við erum miklu ómegnugri að leggja eins mikið í sölurnar til þess að hefta útbreiðslu veikinnar eins og stærri og ríkari þjóðir hafa gert. Jeg endurtek það, að ef veikin berst til landsins, þá má búast við, að hún fari fljótt yfir, því að hún er bráðsmitandi, og þá er heill þjóðarinnar, vellíðan hennar og velmegun í veði.

Það er þetta, sem er í húfi, þegar talað er um í alvöru að verja þessum vágesti inngöngu í landið.

Hv. frsm. landbn. tók það einmitt mjög skýrt fram, hvað við ættum miklu verri aðstöðu til þess að sporna móti útbreiðslu veikinnar, bærist hún til landsins. Þess vegna virtist mjer ekki fullkomið samræmi í áliti nefndarinnar, að vilja einskis láta ófreistað um að verjast því, að veikin berist til landsins, en vilja þó ekki fallast á brtt. okkar hv. 1. þm. Árn., um að banna með öllu innflutning á þessum stórhættulegu vörutegundum, sem þar eru taldar upp, enda þó jeg viðurkenni, að það geti verið miklu meiri trygging í frv. með brtt. hv. nefndar en annars mundi vera, eftir þá afskaplegu limlestingu, sem frv. fjekk í hv. Ed.

Jeg hefi þá með þessu öllu svarað hv. 2. þm. Reykv. fullnægjandi, að öðru leyti en því, sem hann var að núa mjer og öðrum bændum um nasir, að við værum í till. okkar í þessu máli haldnir af verndartollasýki. Jeg held nú, að frá sjónarmiði þeirra manna, sem annars geta gert sjer grein fyrir, hvílíkur voði er hjer á ferðinni, þá sje sú hætta svo mikil, að annað þurfi ekki að koma til að gera þær lítilfjörlegu ráðstafanir, sem hjer er farið fram á, að gerðar sjeu. Þar með er slegin niður sú aðdróttun í okkar garð, að það sje verndartollapólitík, sem ráði framkomu okkar í þessu máli.

Þá var háttv. 2. þm. Reykv. að tala um ráðstafanir Englendinga og verndartollastefnu, sem þar bólaði mjög á.

En jeg verð að segja, að Englendingum er nokkur vorkunn, þótt þeir hafi gert slíkar ráðstafanir, þar sem þeir hafa lagt eins mikið í sölurnar vegna veikinnar og jeg hefi áður lýst. (HjV: Þeir hafa þó ekki gengið svona langt). Já, en gin- og klaufaveiki barst líka til Englands. Og það verður að gæta þess, að alt öðru máli er að gegna um viðskifti milli tveggja sýktra landa en þar, sem annað landið er sýkt, en hitt ósýkt.

Þá sagði háttv. þm., að ekki væri ástæða til slíkra ráðstafana, þar sem gin- og klaufaveikin sje nú í rjenun erlendis. Jeg veit ekki, hvert hv. þm. sækir þennan fróðleik; jeg held, að það sje ekki í opinberar skýrslur, heldur sje það aðeins hugboð hans sjálfs. Það er ekki langt síðan Englendingar háðu harða baráttu við veikina, og í Mið-Evrópu liggur hún stöðugt í landi, og má segja, að hún gangi þar í bylgjum. Og þótt hún liggi nú í bili niðri í Noregi, þá má búast við því, að hún logi þar upp áður en varir, því að það virðist vera eðli hennar alstaðar. Það er heldur ekki rjett, að veikin hafi verið miklu óskæðari í Danmörku en í öðrum löndum Evrópu. Veikin hamaðist einna mest á stríðsárunum, og oft síðan, en hafði verið tiltölulega óskæð áður.

Jeg hefi ekki nú við hendina neinar tölur viðvíkjandi veikinni 1926, en jeg hafði þær í fyrra, þegar jeg samdi greinargerð fyrir frv. því um varnir gegn henni, er jeg flutti ásamt hv. 2. þm. Skagf. og fleirum. En jeg get fyrirhafnarlítið náð í þær, ef á þarf að halda.

Jeg þarf ekki að fara fleiri orðum um málið að svo stöddu, en jeg býst við, að tækifæri muni síðar gefast hjer í hv. deild til þess að minnast nánar á málið og segja þá enn nokkur aðvörunar- og alvöruorð um það, og þá má um leið benda á, hverra hagsmunir ráða því, að hjer er verið að tala um þau óþægindi, sem af þessum ráðstöfunum muni stafa, því að jeg veit, hvaðan fastast er þrýst á móti brtt. okkar, og jeg vona, að tækifæri gefist til þess að athuga það síðar.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að engin hætta væri á því, að kartöflur tækju við smitun, nema þar sem sýkt dýr gengju í kartöflugörðunum. En í kartöflugarða er víða borinn húsdýraáburður, og ef hann er úr sýktum dýrum, þá stafar vitanlega hætta af því.

Jeg mun svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, en jeg býst við að tala hjer aftur, og jeg vona, að þá hafi hæstv. atvmrh. gefið einhverja yfirlýsingu um það, hvort hann muni nota undanþáguheimildina, ef svo slysalega vildi til, að brtt. okkar yrði ekki samþ.; en jeg vona, að til þess komi ekki.

(*Leturbreyting höf. H. J.)