22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Einar Jónsson:

* Jeg þarf ekki neinu að bæta við það frá nefndarinnar hálfu, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði.

En það var eitt atriði, sem mjer þótti vissara að benda hv. þdm. á, sökum þess, að jeg er ekki viss um, að þeir hafi gert sjer það nægilega ljóst, hvaða mismunur er á brtt. nefndarinnar og brtt. á þskj. 528. Aðalmunurinn liggur í því, að með brtt. á þskj. 528 eru sumar vörutegundirnar, sem í till. nefndarinnar eru taldar undir staflið d, þar sem undanþága er heimil, færðar undir staflið a, þar sem engin undanþága er heimiluð. Það getur vel verið, að hv. frsm. hafi skýrt frá þessum mun, þó að jeg hafi ekki orðið heyrnarvottur að orðum hans.

Jeg er því mjög hlyntur, að hjer verði farin sú öruggasta leið, sem fyrir hendi er. Um það hefi jeg sömu skoðanir og á síðasta þingi. Jeg átti þá sæti í landbn. Ed., og henni þótti nóg að fela stjórninni að banna innflutning vara, eftir því sem hún teldi nauðsynlegt. Og jeg held í raun og veru, að við getum ekki gengið framar eða gert betra fyrir þetta mál en að reiða okkur á núverandi stjórn. Lögin geta ómögulega orðið tæmandi, og stjórnin getur því altaf þurft að taka til sinna ráða. Mjer dettur í hug það, sem sumir menn segja, að farfuglar geti borið sýkina. Ja, það ætla jeg, að erfitt verði að hefta för þeirra. Við þyrftum að komast að samningi við almættið sjálft um að stemma stigu fyrir þeim. Jeg er líka alveg sannfærður um, að hætta getur stafað af kornvörum, pokum o. s. frv. En þrátt fyrir það skal jeg nú leggja mitt lið til þess, að svo

framarlega verði gengið um varnirnar sem unt er.

Það er ekki víst, að hv. þdm. heyri það, að hv. þm. Vestm. (JJós) er altaf að taka fram í fyrir mjer. Jeg veit ósköp vel, að hann er altaf að ala á því, sem honum liggur þyngst á hjarta, en það eru kartöflurnar. En þessi hv. þm. þarf ekkert að vera hræddur um, að ekki sje hægt að láta hann hafa nógar kartöflur. Hann getur fengið þær austan úr Fljótshlíð og ofan af Rangárvöllum og sjálfsagt víðar að. Jeg skal gjarnan sjá fyrir því, ef hann vill. En hitt væri mjög æskilegt, að hann gæti haft hemil á þeim farfuglum, sem leggja leið sína um Vestmannaeyjar, svo að ekki bæru þeir munn- og klaufaveikina upp í sveitirnar til okkar.

Jeg er samþ. hv. frsm. um, að nefndin hafi enga sjerþekkingu á málinu, og hana hefi jeg ekki heldur. Vil jeg því helst fela hæstv. stjórn framkvæmdirnar, hvað sem kartöflunum og hv. þm. Vestm. líður.

Jeg vil gjarnan þakka, hv. þm. Borgf. sína eindregnu og skýru ræðu. Þó get jeg ekki fallist á orð hans um, að hann vissi, hvaðan mótstaðan gegn þessu frv. væri runnin. Jeg get ekki sjeð, að hjer sje um neina metstöðu að ræða. Hv. þm. virðast allir hafa bestu viðleitni til að gera það, sem þeim finst sanngjarnast og rjettast.

Þó að jeg hafi hingað til unnið með nefndinni, býst jeg við að fylgja brtt. á þskj. 528. Vona jeg, að það verði ekki talin brigðmælgi af minni hálfu við nefndina. Mjer virðist, að í þeim sje ríkari áhersla lögð á varnirnar en í till. nefndarinnar, og því mun jeg að þeim hallast, hver sem árangurinn kann að verða. En orð mín vil jeg enda með því, að traust þingsins verður að vera í stjórnarinnar höndum. Og jeg ætla, að hv. þdm. sje óhætt að reiða sig á það, að hæstv. núv. stjórn muni fara hina rjettustu og bestu leið í þessu máli.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)