22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Hjeðinn Valdimarsson:

Háttv. þm. Borgf. las upp aðalinnihald pjesa, sem útbýtt hefir verið í deildinni og er eftir Hannes Jónsson dýralækni. Það leit út fyrir, að hann hjeldi, að enginn hefði sjeð pjesann, því að svo mikla áherslu lagði þm. á að sýna hvað í pjesanum stendur. Bæði er það nú, að hv. þm. virðist hafa misskilið það, sem í bæklingnum stendur, og í öðru lagi hafði hann mikinn hluta fróðleiks síns úr dönskum prófessor, sem Jensen heitir, sem jeg hefi þegar vitnað í til að sanna hið gagnstæða. Og því er rjett að athuga, hvor okkar hefir rjett eftir Jensen um þær vörur, sem hv. þm. vill banna. Jeg hefi hjer með höndum brjef frá prófessornum, sem liggur fyrir landbn. ( PO: Jeg hefi ekki sjeð það; er það eitthvert leyniskjal?). Það er sök hv. þm. að kynna sjer ekki gögn þau, sem fyrir nefnd hans liggja. Þar er það tekið greinilega fram, að mjólkurafurðir, svo sem mjólk, ostur og egg, hafi enga hættu í för með sjer. (PO: Þessu brjefi hefir verið haldið leyndu fyrir þinginu. Er það prívat?). Hv. þm. Borgf. getur fengið að sjá það. Jeg hefi það liggjandi á borðinu fyrir framan mig. Sömuleiðis er þar tekið fram, að í nágrannalöndunum sje innflutningur á þessum vörum ekki bannaður, hvorki í Englandi nje Noregi, svo að ef þetta verður samþ., verðum við Íslendingar eina þjóðin. (PO: Og þá líka eina þjóðin, sem sleppur við veikina). Það er ekki þar með sagt. Hv. 2. þm. Rang. talaði um, að hann hefði sjálfur sjeð erlendis, hvílíkur vágestur gin- og klaufaveikin væri og hvernig smitaðir nautgripir gangi um í kálgörðunum þar. Því hefir nú áður verið lýst, að lítil hætta stafar þó af kartöfluinnflutningi, en hinsvegar er viðurkent, að stórhætta stafar af smitun frá allskonar pröngurum og öðrum mönnum, sem koma frá smituðu svæðunum og geta borið með sjer sýkla gin- og klaufaveiki. Er því á engan hátt útilokað, að hv. 2. þm. Rang. hafi borið með sjer slíka sýkla til landsins, og vissulega hefði verið meiri ástæða til að banna aðflutning hans aftur til landsins, eða að minsta kosti kaffæra hann í sóttvarnarbaði, heldur en að banna aðflutning á hættulausum vörum. Hv. þm. Borgf. hjelt því fram, að smitunarhætta gæti stafað af húsdýraáburði og þar af leiðandi af öllum jarðargróðri. En nú vill svo til, að bændur geta verið án mjólkur og kartaflna, en ekki án rúgs og annars slíks fóðurs, og svo á að takmarka innflutninginn við þeirra þarfir, og er hættan við gin- og klaufaveikina þá að verða nokkuð teygjanleg. Jeg gæti bent á það, að háttv. þm. Borgf. fór ekki sem samviskusamlegast með það, sem í pjesa Hannesar dýralæknis stendur. En þó nenni jeg ekki að fara langt út í það, en skal aðeins benda á það, að Hannes segir í pjesanum, næstsíðustu blaðsíðu (bls. 183): „það eru einungis fáar vörutegundir, sem hægt er að álíta, að nokkur veruleg hætta stafi af“. Telur hann þar til hey og hálm og „máske“ rófur og annað hraðvaxið grænmeti, en fullyrðir þó ekkert um það. Lærisveinninn, hv. þm. Borgf., rangfærir því illa kenningar meistarans. Þær dönsku stofnanir, sem hafa yfirstjórn heilbrigðismála í Færeyjum, hafa ekki álitið, að eins langt þyrfti að ganga og landbn. og hv. þm. Borgf. vilja fara (PO: Maður þekkir nú umhyggju Dana fyrir Færeyingum), og hefir þó veikin aldrei komist til Færeyja. Hv. þm. Borgf. sagði, að það væru engin norðurtakmörk fyrir veikinni. Jeg skal ekki deila um það, en vil aðeins benda á það, að hún þekkist ekki í norðurhjeruðum Noregs, Svíþjóðar og Skotlands, þó að aldrei hafi þar verið gerðar þessar varúðarráðstafanir, sem hv. fimmmenningar og nefndin vill nú gera, og í norðurhluta Danmerkur er hún minni en sunnan til, og hverfur þar ætíð fyr. Það er því engin sjerstök ástæða til að búast við veikinni hjer, — síður en svo.

Jeg hygg, að það, sem hv. 1. þm. Reykv. og jeg höfum tekið fram, nægi til að sýna, að það er engin ástæða til að ganga lengra en hv. Ed. gerði, ella liggur næst að hugsa, að verið sje að berjast fyrir verndartollum og svíkjast með þá að þjóðinni undir grímu heilbrigðisráðstafana.

Jeg vil svo spyrja hæstv. forsrh., hvernig hann mundi haga sjer, hvort heldur sem frv. yrði samþ. óbreytt eins og það kom frá háttv. Ed., eða breytt með till. landbn.; hvort hann mundi veita þær undanþágur, sem samkv. frv. eins og það kom frá hv. Ed. er hægt að gera fyrir landbúnaðinn, eða hvort hann mundi gera þær skilyrðisbundnu undantekningar, sem till. landbn. heimila. Það væri fróðlegt að heyra um það, áður en atkvgr. fer fram, til þess að varpa enn skýrara ljósi yfir málið.