22.03.1928
Neðri deild: 54. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Jóhann Jósefsson:

* Háttv. 2. þm. Reykv. hefir tekið af mjer ómakið. Mig langaði til að beina svipaðri fyrirspurn til hæstv. forsrh. og hann gerði. Annars bjóst jeg við, að hæstv. ráðh. gæfi yfirlýsingu í þessu efni eftir ræðu hv. þm. Borgf.

Jeg get ekki látið hjá líða að segja það, að mjer þykir kenna allmikils fors og ofstækis hjá þeim þm., sem vilja jafnvíðtækar ráðstafanir og hjer er farið fram á. Og það er ekki aðeins ónærgætni, heldur lítilsvirðing á þeim landslýð, sem fer á mis við hinar bönnuðu vörutegundir. Jeg veit, að það á að gilda sem afsökun þessi hætta á klaufaveikinni, sem hv. þm. Borgf. útmálaði svo hræðilega fyrir deildinni og vitnaði í þennan nýja spámann, Hannes Jónsson dýralækni. Þegar það er athugað, sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) sagði, lítur málið töluvert alvarlega út, því að þá er aldrei mögulegt að ljetta þessu innflutningsbanni af. Hann talaði um, að veikin væri ekki í Noregi, en þó væri engin vissa fyrir því, vegna þess að veikin gæti legið niðri og gosið svo alt í einu upp. Er þetta ekki rjett? (JörB: Jú). Þetta virðist því ekki vera stundarbann, heldur stöðugt og varandi um alla tíma. Það verður aldrei hægt að fá það upphafið, því að það þýðir ekkert að benda á það, þó að veikin sje ekki í Noregi, Englandi og Danmörku, vegna þess, að hún getur legið þar niðri og altaf gosið upp. En nú stendur svo á, að við þurfum að fá hey, mjólkurafurðir, egg, kartöflur o. fl. frá þessum löndum, svo að þetta er ekki aðeins alvarlegt hvað vöruverðið snertir, heldur einnig fyrir þann hluta landalýðsins, sem þarf á þeim vörum að halda, sem hjer á að banna, og sá hluti er ekki smár. Að vísu eru það ekki margir, sem þurfa á heyi að halda, en aðstæðurnar eru þó sumstaðar þannig, að það verður að fá hey erlendis frá; svo er það t. d. í mínu kjördæmi og víðar.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að jeg bæri kartöflurnar fyrir brjósti. Þetta er rjett. Þær eru næringarmiklar og ilt að hindra menn með lögum í að neyta þeirra. Og þegar litið er á kartöfluframleiðsluna undanfarin ár, sjest, að það vantar mikið á, að það sje framleitt nóg af kartöflum í landinu sjálfu. Jeg hefi engan heyrt halda því fram að of mikið væri borðað af kartöflum, og mjer er nær að halda., að það sje of lítið etið af þeim. Árið 1922 eru flutt inn 2332165 kg. af kartöflum, en framleiðslan nemur 21758 tn. á 100 kg. Það er því flutt inn meira af kartöflum en framleiðslunni nemur, auk þess sem þá eru flutt inn 129540 kg. af öðru grænmeti, sem þm. vilja banna og ekki er fáanlegt, a. m. k. ekki til almennrar notkunar. Jeg veit, að það er oft fyrirskipað af lækni, að fólk neyti grænmetis, og þetta á svo að fara að banna. Árið 1923 er flutt inn af kartöflum 1871890 kg., en framleiðslan nemur 27446 tn. á 100 kg. Þetta er meira en árið áður, en samt vantar mikið á, að neysluþörfinni sje fullnægt. Árið 1924 er framleiðsla kartaflna 25400 tn. á 100 kg. og innflutningurinn 2013848 kg. Þetta eru lauslegar tölur, en sýna þó, að aðeins helmingur þeirra kartaflna, sem neytt er í landinu, er framleitt í því sjálfu. Nú má auðvitað svara, að auka megi kartöfluræktina, og það er rjett, en þó ekki svo, að hún tvöfaldist á stuttum tíma. Bæði þessi ár, 1923 og 1924, er flutt inn svipað grænmeti og árið 1922, og sýnir það, að þörfin er áþekk.

Jeg vona, að hæstv. forsrh. láti það uppi, hvernig hann ætlar að haga sjer samkv. frv. með undanþágur að því er snertir innflutning á þessum vörum. Jeg held, að það sje ekki hægt að komast hjá því að veita undanþágur, sjerstaklega hvað kaupstaðina snertir, ef landsfólkinu eru ekki gerð bein óþægindi og jafnvel óhollusta. Ef banna á innflutning á eggjum og mjólkurafurðum, verður það svo dýrt, að ekki verða nema fáir, sem geta veitt sjer það. Sama er að segja um kartöflurnar, nema undanþága fáist, eins og innflutningsskýrslurnar sýna, að þörfin hefir verið á undanförnum árum.

Hv. 1. þm. Árn., sem altaf tekur djúpt í árinni, vill eins og háttv. þm. Borgf., að einskis sje svifist og gengið lengra en hægt er. Hann sagði, að Alþingi mætti ekki veita undanþágu, nema þegar það væri hættulaust. Jeg veit ekki, hvenær þetta er hættulaust, því að eftir hans röksemdaleiðslu verður að halda banninu til eilífðar, eftir að það er komið á. En á því tel jeg svo mikla annmarka fyrir landsbúa, að það er óhugsandi. Jeg vil taka undir með hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykv., að mjer finst, að deildin geti sætt sig við frv. eins og það kom frá Ed., sjerstaklega vegna heimildarinnar í 3. gr.

Það er sjálfsagt að viðurkenna, að málið var flutt af meiri hófsemi hjá hv. frsm. en þeim hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn. Hann leit með sanngirni á þá, sem verða fyrir barðinu á þessum lögum, en þeir ekki.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)