31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

1. mál, fjárlög 1929

Erlingur Friðjónsson:

Jeg þykist sjá það, að hv. þdm. ætla að geyma sjer að tala fyrir sínum brtt., þar sem enginn kveður sjer hljóðs. En jeg sje enga ástæðu til að fresta hví, er jeg þarf að segja um þetta frv. til fjárl. Þær till., sem jeg mun byrja á, eru fremur smávægilegar. Hin fyrsta, er kemur til umr. hjá mjer, er brtt. IV. á þskj. 642. Það er styrkur til Axels Guðmundssonar frá Grímshúsum til söngkenslunáms erlendis, 2500 kr. Að sönnu er á þessu sama þskj. till. frá öðrum um lægri styrk til sama manns. — Þessi maður varð fyrir því óláni að veikjast af lömunarveikinni. Er hann síðan ekki fær um að vinna erfiða vinnu. En hann er líklegur til að geta lært og kent söng og hefir góða hæfileika í þá átt. Er því fram á þetta farið, að slíkt nám mundi verða til þess að koma undir hann fótum, svo hann geti rekið söngkenslu sem sjálfstæða atvinnu í framtíðinni og lifað á því, þar sem hann brestur þrótt vegna lömunar að ganga að þeirri vinnu, sem hann hefir lært að vinna.

Þá er næst brtt. XVIII á sama þskj., nýr liður, til Steinþórs Guðmundssonar, utanfararstyrkur til að kynna sjer reynslu annara þjóða um notkun kvikmynda og skuggamynda í þarfir fræðslu og menningar, 2500 kr. Eins og kunnugt er, er þessi maður skólastjóri við barnaskóla Akureyrar. Hefir hann kynt sjer þetta allítarlega, en vill nú kynna sjer það betur. Hann hefir trú á því, að hjer sje um að ræða mikla lyftistöng fyrir barna- og unglingafræðslu. Er því farið fram á, að ríkið styrki hann til þessarar utanfarar og er vonast eftir, að þjóðin njóti góðs af árangri þeirrar ferðar.

Þá er í sömu brtt., 2. lið, lagt til, að styrkurinn til unglingaskóla utan Reykjavíkur verði 50 þús. kr. Í fjárlagafrv. eru 47 þús. kr. veittar til þessara skóla utan Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Akureyrar. Er því hjer um tvöfalda breytingu að ræða. Önnur er sú, að Akureyri og Hafnarfjörður njóti sömu aðstöðu og aðrir staðir utan Reykjavíkur. Hin er sú, að hækka þessa upphæð nokkuð, svo hægt sje að veita fyrgreindum stöðum hlutfallslegan skerf við aðra unglingaskóla utan Reykjavíkur. Jeg flyt þessa brtt. með tilliti til þess, að á næsta hausti mun taka til starfa unglingaskóli á Akureyri, sem ætti þá að fá þessa upphæð til afnota.

Þá er brtt. XXIII, sem jeg á ásamt hv. 2. þm. S.-M. (IP), tekin aftur til 3. umr.

Nú hefi jeg minst lauslega á hinar smærri brtt. Kem jeg þá að XXVIII. brtt. á þskj. 642, til hafnarmannvirkja í Oddeyrarbót á Akureyri, 75000 kr. Það mun nú ekki þykja nema eðlilegt, að fyllri rök sjeu færð fyrir svo hárri beiðni heldur en smástyrkbeiðnum, og skal þá byrja á því. Aðalástæðan til þess, að fram á þetta er farið, er sú, að kostnaður við hafnarmannvirki, sem lokið var á síðasta ári, en hafði verið unnið að 3 undanfarin ár, fór geysimikið fram úr áætlun, af þeirri ástæðu, að uppmoksturinn varð 100 þús. kr. hærri en áætlað hafði verið. Hann var áætlaður 70 þús. kr., en varð 170 þús. kr. Árið 1927 var varið til hafnarmannvirkjanna kr. 334567.54 og árin 1924–'26 kr. 117627.74, eða alls árin 1924–'27 kr. 452125.28. Það mundi nú ekki þykja ástæða til að styrkja einn kaupstað til að koma þar upp hafnarmannvirkjum. En það hefir þó verið gert. Má benda á Vestmannaeyjar, og þó einkum á Ísafjörð. Þar var bryggjubygging styrkt fyrir fáum árum með 50–60 þús. kr. tillagi úr ríkissjóði. Þetta mun nú vera eina dæmið, að bryggjugerð hafi verið styrkt, sem bygð hefir verið af kaupstað. En á Akureyri er ekki einungis um bryggju að ræða, heldur og hafnarkví og uppmokstur á henni og framan við nýju bryggjuna, sem bygð var. En jeg vil þá einnig geta þess, sem er alveg sambærilegt, sem er það, að styrkur hefir verið veittur til lendingarbóta víðsvegar í kauptúnum, og stórfje til hafnargerða í kaupstöðum. t. d. Vestmannaeyjum. Og þegar smærri kaupstaðir og sjóþorp eru tekin með, þá er óhætt að fullyrða, að stórfje er búið að verja úr ríkissjóði til lendingarbóta. Mjer finst þetta alveg hliðstætt, að verja fje til lendingarbóta, bryggjugerðar og hafnarmannvirkja. Þótt ekki sje um útræði að ræða, þá er þó þetta gert fyrir allan almenning. Þar, sem sigling er mikil, þarf að hafa góð hafnarmannvirki, eins og góðar lendingar þar, sem útræði er. Siglingakostnaður skipanna minkar við góðar hafnargerðir, og að ferðamenn geta stigið á land þar, sem skip geta lagst við bryggju, sparar kostnað við flutning í bátum á land frá skipi, sem ekki getur lagst við bryggju, vegna þess að hún er ekki til. Að þessu leyti má því segja, að hafnarmannvirki sjeu gerð fyrir allan almenning og því hægt að rjettlæta styrkveitingu til þeirra úr ríkissjóði.

En þetta er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt, hvað uppmoksturinn varð miklu dýrari en áætlað var, eins og jeg gat um áðan. Þessi áætlun var gerð af vitamálastjóra landsins, og til sönnunar því, að jeg fari hjer með rjett mál, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr brjefum vitamálastjóra:

„Kostnaðinn við þetta hefi jeg gert áætlun um eftir hinu fyrirliggjandi tilboði, og hygg jeg, að hann muni verða um 3 kr. á hvern ten.m., sem mokað er upp, nokkuð mismunandi, eftir því hvernig botninn er og hve langt þarf að flytja uppmokstrið, svo og hve mikið skipið verður notað. Það er að ræða um tvö skip, annað stærra, sem getur mokað 1000–1500 ten.m. á dag, en hitt ca. 500 ten.m. Auðvitað verður hið stærra ódýrara fyrir hvern ten.m., ef nóg verður fyrir það að gera“.

Hjer er skýrt tekið fram, að kostnaður verði um 3 kr. fyrir hvern ten.m., sem mokað er á land, en gert ráð fyrir því, að þyrfti að moka upp um 20 þús. ten.m.

Þetta höfum við ekki getað skilið á annan veg en þann, að byggja megi á áætlun vitamálastjóra, og í svari bæjarstjóra er það líka sett sem skilyrði fyrir því, að skipið verði tekið, að kostnaður við uppmokstur á hverjum ten.m. fari ekki fram úr þrem krónum, eins og í áætluninni segir.

Vil jeg leyfa mjer að lesa upp kafla úr brjefi bæjarstjóra, sem hljóðar svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Sem svar við heiðruðu brjefi yðar, dags. 30. mars þ. á., herra vitamálastjóri, vil jeg staðfesta samtal vort í síma um þátttöku hafnarinnar í að fá leigt skip frá Danmörku til að moka upp hafnir hjer við land næsta sumar. — Hafnarnefndin er yður mjög þakklát fyrir viðleitni yðar í þessu efni, þar sem þörfin er ærið brýn fyrir. Engin þolanleg uppmokunartæki fyrir hendi og hví mannvirki, sem ákveðið hefir verið að ráðast í, lítt framkvæmanleg. Því vill höfnin taka þátt í leigu á hinu umrædda uppmokstursskipi og greiða kostnað við það eftir tíma, sem skipið verður hjer, og eftir því, hve mikið er mokað upp, og að öðru leyti á þeim kostnaðargrundvelli, sem þjer nefnið í hinu heiðraða brjefi yðar, það er um 3 kr. fyrir hvern ten.m.“.

Svarið virðist fullskýrt, enda man jeg, að í hafnarnefnd, þar sem jeg á sæti, og einnig á bæjarstjórnarfundi var samþ. að taka þetta skip með því skilyrði, að kostnaður færi ekki fram úr 3 kr. fyrir hvern ten.m.

Hjer er að vísu ekki um skriflegan samning að ræða, að kostnaður verði ekki meiri, en það var bygt á áætlun vitamálastjóra, sem tók skipið á leigu f. h. ríkisins til þess að annast uppmokstur á höfninni í Vestmannaeyjum og á Akureyri. Þessi samningur var þannig, að skipið hefir öll rjettindi, en ekki aðrar skyldur en að moka eftir því sem það gæti unnið. Veilan í þessu var sú, að vitamálastjóri hafði gefið þær upplýsingar, að skipið gæti unnið 1500 m.3. á dag, en er til reyndanna kom, urðu það stundum ekki nema 200 ten.m. á dag, sem skipið mokaði, og kostaði uppmoksturinn á hverjum ten.m. kr. 6.50, eða meira en helmingi dýrara en áætlað hafði verið. Þó skipið gæti ekki unnið vegna bilunar einn dag eða fleiri, átti það að hafa sama kaup eftir sem áður, eða 100 kr. um klukkutímann í 8 tíma á dag. Skipið teygði sjer þennan samning svo, að það taldi sig eiga rjett á því að fá greitt fult dagkaup á meðan það fór frá Akureyri til Reykjavíkur til viðgerðar og á meðan á henni stóð. Gerði það kröfu til þess að fá 7000 kr. greiddar fyrir þessa ferð. Get jeg þessa til þess að sýna, hve herfilegur þessi samningur var, sem einn starfsmaður ríkisins gerði fyrir hönd ríkisins og sem síðan átti að yfirfæra á Akureyrarbæ. Sannleikurinn er sá, að við Akureyrarbúar höfum verið gintir út í verk, sem er miklu kostnaðarsamara en áætlað var, og eingöngu á þeim pósti, sem lýtur að uppmokstrinum. Verður því ekki sjeð annað en að bæjarstjóra hafi verið gefnar rangar skýrslur um það, hve miklu skipið gæti afkastað, og samningur við skipið þannig úr garði gerður, að ómögulegt var fyrir bæinn að ná rjetti sínum, ef útbúnaður skipsins og vinna reyndist minni eða lakari en gert var ráð fyrir í upphafi.

Við lítum því svo á, að þar sem ríkið átti þann hlut að máli, að það var í gegnum einn starfsmann þess, að bærinn lagði út í þessar framkvæmdir, sem í upphafi voru rangt áætlaðar, sje það ekki nema sanngjarnt, að það taki nokkurn þátt í þeim kostnaði, sem af því leiddi. Auðvitað er okkur það ljóst, að engin ábyrgð hvílir á ríkinu í þessum efnum, en hinsvegar tel jeg það siðferðislega skyldu þess að ljetta undir með bænum, þar sem svona stendur á. Vil jeg benda á tvent í þessu sambandi, sem jeg hygg, að hljóti að verða tekið til greina um ósk okkar að fá 75000 kr. styrk vegna kostnaðar á þessum hafnarmannvirkjum:

1. Þau afskifti, sem starfsmaður ríkisins hefir haft af þessu máli um ráðningu skipsins, eins og jeg hefi talað um, og

2. eru fordæmi fyrir því, að ríkið hefir styrkt aðra kaupstaði (Ísafjörð) til þess að byggja hafnarbryggju án þess að þar væri nokkuð mokað upp, og hinsvegar er hjer um að ræða mannvirki, sem er öllum landsmönnum til mjög mikils gagns, þeim er til Akureyrar þurfa að fara.

Sama máli er að gegna um skip þau, er þangað koma, t. d. skip ríkisins og Eimskipafjelags Íslands, að það er þeim eigi alllítill ljettir, að þar sjeu góð hafnarmannvirki.

Má taka þetta hvorttveggja til greina við þetta mál. Tel jeg því víst, að till. þessi fái góðan byr hjá hv. deild.

Að vísu skal jeg engu um það spá, hvort menn verða sammála um þessa fjárhæð, sem hjer er farið fram á, en hitt tel jeg víst, að Alþingi vilji styrkja Akureyrarbæ nokkuð, sem viðurkenningu fyrir hinar myndarlegu hafnarbætur, er þar hafa verið gerðar á 2–3 síðustu árum, og þó einkum með tilliti til þess, er jeg hefi áður minst á.

Þá á jeg eftir að minnast lítilsháttar á brtt. á þskj. 695,XXVI, þar sem farið er fram á, að ríkið ábyrgist alt að 120000 kr. lán til barnaskólabyggingar Akureyrarkaupstaðar, gegn þeim tryggingum, er stjórnin tekur gildar. Fyrir því eru mörg fordæmi, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir sýslur og hreppa og bæi landsins, þegar líkt stendur á, og jafnvel fyrir fjelög og einstaka menn. Það er heldur ekkert óeðlilegt, þótt ríkið styrki kauptún eða hreppa, að minsta kosti í þeim efnum, sem þeir hafa með höndum til framþróunar, sjerstaklega þegar gera má ráð fyrir því, að sá, sem ábyrgst er fyrir, sje fyllilega fær um að standa straum af þeim framkvæmdum, eins og óhætt er að álíta, að Akureyrarbær sje.

Svo er ráð fyrir gert, að á barnaskólabyggingunni verði byrjað 1930. Nú þegar er búið að safna að jeg hygg einum þriðja þeirrar upphæðar, sem hjer er farið fram á, að ábyrgst verði, eða að minsta kosti 30–40 þús. kr., svo að sú fjárhæð, sem farið er fram á ábyrgð fyrir, er tveir þriðju af öllum byggingarkostnaði barnaskólans. Að sjálfsögðu verður haldið áfram að leggja til hliðar fje til byggingarinnar, svo að þessi ábyrgð þyrfti ekki að hvíla lengi á ríkinu.

Jeg þarf ekki að benda á dæmi til þess að sýna, hve oft ríkið hefir gengið í ábyrgð fyrir bæjarfjelög, sýslur eða fjelög einstakra manna. Til þess eru svo fjölmörg fordæmi. Þó vil jeg minna á 2–3 dæmi, sem sýna það, að þingið hefir ekki verið svo sjerlega varkárt í þessum efnum, ef á að kalla það varkárni að neita um ábyrgð undir slíkum kringumstæðum sem þessum. Á þingi 1921 er samþykt, ríkið gangi í ábyrgð fyrir klæðaverksmiðjuna á Álafossi fyrir 200 þús. kr. Jeg skal ekkert um það segja, hvort áhættuminna er, þessi ábyrgð eða ábyrgðin fyrir Akureyri, sem nú er farið fram á, en þetta sýnir aðeins, að þingið hefir þá ekki sjeð ástæðu til þess að neita um ábyrgð til einstaks manns, en nú er það heilt bæjarfjelag, sem fer fram á ábyrgðina. Á sama þingi er ríkinu heimilað að ganga í ábyrgð fyrir 9 togarafjelög í Reykjavík, sem stóðu í skuldum á Englandi vegna kaupa á 12 togurum. Var ríkinu heimilt að ganga í ábyrgð fyrir 200 þús. kr. fyrir hvert skip, eða alls 2400000 kr. Með öðrum um, ríkið gengur í ábyrgð fyrir meira en 2½ milj. kr. þetta ár á þessum tveim póstum.

Ríkinu hefir ef til vill ekki hlekst neitt sjerstaklega á vegna þessara ábyrgða 1921, en jeg þori að fullyrða, að sú ábyrgð, sem hjer er farið fram á fyrir Akureyrarkaupstað, sje alveg áhættulaus. Vona jeg því, að till. verði vel tekið og að hún nái fram að ganga.