14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og hv. þdm. mun í fersku minni, var því hreyft við 1. umr. þessa máls, að Ed. hefði dregið til muna úr þeim öryggisráðstöfunum, sem í frv. fólust eins og það var lagt fyrir þingið. Deildin mun ennfremur minnast þess, að landbn. var mjög óánægð með þetta og flutti brtt. við frv., sem gengu í þá átt að herða aftur á ákvæðunum. Till. meiri hl. eru á þskj. 514, en till. eins nefndarmanns ásamt fleirum hv. þdm. eru á þskj. 528, og ganga þær nokkru lengra en till. meiri hl. nefndarinnar. Þessar till. voru teknar aftur við 2. umr. til 3. umr., til þess að atkvgr. gæti farið fram þá. Þetta skeði nokkru fyrir páska, og sýndist þá nægur tími til að lúka málinu, þó að það þyrfti að fara aftur til Ed., en nú horfir málið öðruvísi við.

Eftir því sem mjer er sagt, mun nú alveg komið að þinglausnum, og því litlar líkur til, að frv., sem þurfa hjer eftir að hrekjast milli deilda, geti orðið að lögum. Það er auk þess vitanlegt, að hv. Ed. er á gagnstæðri skoðun við þessa deild í þessu máli, eða a. m. k. landbúnaðarnefnd hjer, og eru því engar líkur til, að Ed. gangi að þeim brtt., sem hjer liggja fyrir, ef samþ. verða hjer.

Ef við því höldum fast fram þessum brtt. hjer í deildinni, eru ekki líkur til, að málið verði afgr. nema í Sþ., en það er nokkurnveginn víst, að þingi verður slitið áður en sá tími er liðinn, sem til þess þarf.

Meiri hl. landbn. telur því, að ekki sje nema um tvær leiðir að velja. Annaðhvort að samþ. frv. óbreytt nú eins og það kom frá Ed., svo að það geti orðið að lögum nú í dag, eða að stofna málinu í hættu með því að samþ. þessar brtt., og gæti þá afleiðingin orðið sú, að Ed. jafnvel feldi málið alveg.

Þrátt fyrir það, að meiri hluti landbn. er mjög óánægður með frv. í þeirri mynd, sem það nú er, og átelji harðlega meðferð hv. Ed. á því, þá telur hann þó betra að samþ. frv. eins og það er en að fá engin lög um þetta. Af þessum ástæðum læt jeg hæstv. forseta hjer með vita það, að meiri hl. tekur aftur brtt. sínar á þskj. 514. Jafnframt vil jeg taka það fram, að meiri hl. tekur sínar till. aftur í fullu trausti þess, að hæstv. atvmrh. noti þá heimild, sem honum er gefin í 3. gr., til að banna með auglýsingu innflutning á þeim vörum, sem hætta telst á að flytja inn.

Við viljum líta svo á, að hæstv. stj. hafi fengið allmikinn stuðning hjer í deildinni til að framfylgja þessu ákvæði, bæði í heim ámælum, sem hv. Ed. hefir hlotið fyrir meðferð sína á málinu, og öðrum röddum, sem hjer hafa heyrst.

Það virðist alls ekki leika á tveim tungum, að sú skoðun sje ofan á hjer í hv. deild, að frekar beri að herða á en draga úr varúðarráðstöfunum gegn því, að þessi hættulega veiki berist til landsins.