14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2468)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Jeg hefi orðið þess fullkomlega var við 2. umr. þessa máls, að nokkrir þeirra manna, sem allfast hafa haldið á því að undanförnu að gera öruggar ráðstafanir til þess, að gin- og klaufaveiki bærist ekki til landsins, væru nú farnir að slaka allmjög til á þessu máli. En jeg verð þó að segja það, að mjer þótti skörin heldur færast upp í bekkinn, þegar kemur yfirlýsing um það frá meirihl. landbn., sem flutt hefir hjer brtt. í deildinni, sem eru þó, ef vel væri á haldið, til allmikilla bóta á frv. frá því, sem það var afgr. í hv. Ed., að hún ætli nú að taka þessar brtt. sínar aftur og samþykkja frv. óbreytt eins og það gekk í gegnum Ed. Jeg segi það satt, að jeg var alveg undrandi yfir þessu, og svo yfir þeirri ástæðu, sem var færð fram fyrir því, því að hún var, hreinskilnislega sagt, einskis virði. Það var sá argasti kattarþvottur, sem verið hefir á nokkru máli, því að þótt málið verði afgreitt hjer í dag, þá getur það komist til umræðu og afgreiðslu í Ed., og það meira að segja afbrigðalaust. Og eftir því, sem jeg hefi aflað mjer upplýsinga um Ed., þá mun hafa orðið nokkur breyting á afstöðu manna til málsins, svo að ekkert þarf að óttast um afgreiðslu þess þar. Þetta er aðeins grýla, sem verið er að nota hjer á þingmenn deildarinnar, alveg eins og önnur grýla hefir stundum verið notuð til að hræða óþekka krakka með. Eins nær það heldur engri átt, að hv. Ed. taki þá ábyrgð á sig að fella málið á þessu stigi, svo að jeg vænti þess og veit það, að þetta er eitthvert fljótræði, sem hjer er á ferðum, og jeg vænti þess, að við nánari athugun þessa máls muni hv. frsm. meiri hl. (BSt) bera sig saman við meðnefndarmenn sína og taka þessa yfirlýsingu aftur og halda fast við sínar brtt.

Jeg ætla svo að tala nokkuð alment um þetta mál. Eins og þetta mál hefir legið fyrir hjer á undanförnum þingum, þá hafa verið, eins og nú, nokkuð skiftar skoðanir um það. Þannig er það, að eiginlega flestir bændur þingsins, og nokkrir menn þar fyrir utan, hafa haldið fram nauðsyn þess að gera öflugar varnir í þessu máli. Hinsvegar hefir fulltrúum kaupstaðanna þótt bændurnir ganga of langt í sínum tillögum um þessar varnir og hafa verið að kveinka sjer yfir því, að þessar varúðarráðstafanir kæmu ef til vildi of hart niður á kaupstaðabúum. En nú hefir þriðji aðilinn skotið upp höfðinu í þessu máli, og það er sá maður, sem á að gæta hagsmuna danska ríkisins hjer á landi. Það liggur hjer fyrir framan mig heill bunki af mótmælaskjölum frá dönsku stjórninni gegn þessum ráðagerðum og það er alla vega fram fært af hennar hálfu og allar upphugsanlegar leiðir farnar, bæði opinber brjef, og auk þess er yfirdýralæknirinn danski látinn skrifa mönnum hjer „prívat“brjef, og svo eru send eftirrit af þeim, bæði sem „prívat“-brjef og opinber brjef. Það, sem tilfært er í þessum brjefum, er það, að þau mótmæla algerlega þessum ráðstöfunum og telja þær ýmist óþarfar eða þá að aðaláherslan er lögð á það, að með þessu sje gengið í berhögg við danska hagsmuni, ekki aðeins þannig, að Danir tapi viðskiftum hjer á landi, heldur muni þetta og leiða til þess, að aðrar þjóðir, sem þeir skifta við, muni taka upp slíkar ráðstafanir, og þar sem sambandsland Danmerkur grípi til slíkra ráðstafana, megi nærri geta, hvað önnur lönd, sem ekki sjeu í neinum tengdum við Dani, muni gera.

Jeg mintist á „prívat“-brjef áðan. Jeg hefi náð í eitt af þeim, þótt mörg kunni að vera, og af því að það bregður upp ljósi yfir það. hvernig farið er að í þessu máli, þá hefi jeg gert útdrátt úr því, sem jeg ætla að lofa þingheimi að heyra, svo að það komist í þingtíðindin.

Þetta brjef er frá dýralækni próf. Jensen, sem mönnum er nokkuð kunnur hjer á landi, til Hannesar Jónssonar dýralæknis, enda hefir áður verið vitnað í það. Prófessorinn byrjar með því að óska þessum starfsbróður sínum gleðilegs nýárs, því að brjefið er skrifað í janúar síðastl., og óskar þess mjög innilega, að honum megi hepnast að vinna landi sínu mikið gagn og mikinn sóma. Svo fer hann að brýna það fyrir starfsbróður sínum, að erfitt sje að hafa á hendi tillögur um opinberar framkvæmdir, sjerstaklega þegar það varði viðskifti við önnur lönd. og þó einkum þegar svo standi á eins og nú með Danmörku og Ísland, og ef til vill fleiri lönd. Hann segist viðurkenna að nauðsyn beri til að standa á móti því að gin- og klaufaveikin berist til Íslands.

Kveðst hann viðurkenna, að nauðsyn sje á varúðarráðstöfunum gegn veikinni í Noregi, Færeyjum og á Íslandi, en þó beri nauðsyn til að standa á móti ráðstöfunum, sem sjeu ónauðsynlegar, og því fremur, þar sem Danir setji ekki slík höft á innflutning frá löndum, sem þeir selja vörur.

Þessi síðustu ummæli prófessorsins eru næsta eftirtektarverð. Þótt Danmörk sje gersmituð af veikinni, en við lausir við hana, telur hann ekki ástæðu til, að við förum aðrar leiðir en Danir til að verjast henni.

Þá segist prófessorinn hafa orðið alveg undrandi yfir banninu gegn innflutningi á smjöri, osti og eggjum, þar sem gin- og klaufaveikifaraldurinn, sem geisað hafði í tvö ár, hafi þá verið um garð genginn. Þetta er skrifað 5. jan., en í febrúar gýs veikin upp aftur, svo að sjá má af því, hve innflutningur á slíkum vörum hefir þá verið orðinn hættulaus. — Prófessorinn segir því næst, að þessar ráðstafanir sjeu sprottnar af óþarfa varfærni. Þó færir hann Hannesi Jónssyni það til málsbóta, að þar sem hann sje nýr í ráðunautsstarfinu, muni hann ekki hafa haft næga festu eða þrek til að standa á móti þessum aðgerðum stjórnarinnar, sem ekki verði staðfestar af dýrafræðilegri reynslu. — Þetta getur nú kallast föðurleg áminning. — Síðan segir próf. Jensen, að að vísu hafi þessar ráðstafanir ekki stórvægilega þýðingu fyrir Dani að því er viðskiftin við Íslendinga snertir, en þær geti valdið og hafi þegar valdið óþægindum fyrir Danmörku í viðskiftum við önnur ríki, sem líta á bannið sem vantraust til Dana og nota bannið Dönum til óhagræðis.

Þessu næst vill prófessorinn leiða athygli að því, hve gerilsneyðingin sje örugg sóttvarnarráðstöfun. Segir hann, að Englendingar hafi ekkert gert til að hindra innflutning á dönskum landbúnaðarafurðum og Norðmenn hafi heldur ekki bannað innflutning á smjöri, enda þótt þeir hafi að sínum dómi lagt á ósanngjörn innflutningsbönn á grænmeti o. fl.

Hjer kemur hið sama fram og áður hjá prófessornum, að ekki sje fremur ástæða til að viðhafa ráðstafanir þar, sem veikin er ekki, heldur en þar, sem hún er og hefir geisað um langan tíma.

Um ostinn segir hann, að þótt draflinn innihaldi eitthvað af sýklum, þá drepist þeir brátt við gerðina í ostinum, eða áður en osturinn fer á markaðinn. Auk þess hljóti jafnan að vera að ræða um mjög hverfandi magn af sýktri mjólk til mjólkurbúanna, þar sem ekki er tekið á móti mjólk frá sýktum heimilum. Verði því að álykta, að ekki sje hætta á, að veikin berist með osti frá Danmörku til Íslands.

Að því er egg snertir, þykir honum ekkert athugavert við það, þótt egg sjeu flutt frá Danmörku til Íslands á þeim tímabilum, sem veikin geisar ekki í Danmörku, ef búið er um eggin í trjemjöli, eins og gert er, þegar egg eru flutt út þaðan.

Um aðrar vörur, sem bannaður er innflutningur á, segir hann, að þær hafi minni þýðingu (fyrir danska hagsmuni auðvitað), og því skifti þær sig minna.

Því næst segir prófessorinn eitthvað á þessa leið:

„Um leið og jeg leyfi mjer að senda yður þetta langa brjef, legg jeg mikla áherslu á, að þjer gerið, við nýja athugun út af málaleitun dönsku stjórnarinnar til hinnar íslensku, þegar Alþingi kemur saman í janúar, tilraun til að slá niður þeirri óþörfu hræðslu við að gin- og klaufaveikin berist til landsins, sem felst í þessum ráðstöfunum, sem jeg ætla, að sjeu uppvaktar fyrir ummæli norskra blaða“.

Svo bendir hann á, að eins standi á um Færeyjar og Ísland, að veikin sje ekki enn komin þangað, og ætti því Íslendingum ekki að vera vandara um en Færeyingum.

Um þetta atriði segir hann:

„Þótt bæði danska landbúnaðarráðuneytið og yfirstjórn dýralækninganna í Danmörku finni til ábyrgðarinnar gagnvart Færeyjum, hefir þó verið talið verjandi — og jafnvel þegar gin- og klaufaveikin geisaði mest hjer í landi — að takmarka svo bannið, að það næði eingöngu til lifandi og slátraðra alidýra, heys, hálms og notaðra fóðursekkja“.

Þó, segir hann, hefðu Færeyingar ekki orðið síður hart úti en Íslendingar hlutfallslega, ef veikin hefði borist þangað.

Út af þeirri ábyrgð, sem próf. Jensen segir, að danska stjórnin finni til gagnvart Færeyjum, get jeg ekki stilt mig um að minna á, að á stríðsárunum urðu Færeyingar að bjargast upp á eigin spýtur, eins og við, og nutu einskis góðs af sambandinu við Dani. Til þess að verða ekki hungurmorða, sigldu þeir þá skútum sínum hingað til Íslands til að sækja sjer matföng. Af góðum vilja en lítilli getu var þeim miðlað nokkru af nauðsynjum. En Færeyingar urðu að sigla skipum sínum yfir ófriðarsvæðið, svo að Englendingar tóku þau og fóru með þau til Kirkwall til rannsóknar þar. Fóru Færeyingar fram á, að danska stjórnin gengist í það við Englendinga, að þeir fengju að sigla skipum sínum óhindrað milli Íslands og Færeyja. Danska stjórnin veitti þeim enga áheyrn, og urðu þeir því að útvega sjer leyfið sjálfir. En það var ekki nóg með, að danskir embættismenn neituðu Færeyingum allri aðstoð sinni í þessum málum, heldur var skipuð rannsóknarnefnd, sem sat í nokkur ár, til að rannsaka þetta ódæði Færeyinga. Var þess krafist, að lögþingsmenn þeir, er gengust fyrir því að ná samkomulagi við Breta um siglingarnar, mættu fyrir rjetti í Danmörku. Þeir neituðu að fara, og þar með fjell málið niður. — Þetta nægir til að sýna, til hve mikillar ábyrgðar Danir finna gagnvart Færeyingum, þegar þeim liggur mest á.

Þá segir próf. Jensen, að því hafi verið haldið fram gagnvart danska sendiráðinu á Íslandi, að vísindin vissu ekki upp nje niður um gang og smithættu gin- og klaufaveiki, en þetta sje með öllu rangt. — Það er rjett, að menn vita nokkuð um veikina og hvernig hún hagar sjer, en þó ekki nóg, þar sem bakterían er enn ófundin. Prófessorinn segir, að slíkar staðleysur byggist á „ábyrgðarlausum blaðaskrifum“. Ekkert dularfult sje við gang veikinnar. „Það er því örugt að fara eftir staðreyndum, í stað þess að fara að gera víðtækar ráðstafanir, sem bygðar eru á ímynduðum möguleika“.

Þannig endar þetta merkilega brjef. Jeg hefi rakið þau atriði þess, sem mestu máli skifta. Vænti jeg, að menn finni andann í því og kannist við hann, a. m. k. þeir, sem sögufróðir eru. Í þessu brjefi er því haldið fram, að gerilsneyðingin sje svo örugg, að ekki sje hætta á, að smjör og ostur beri veikina. En fróðlegt er að sjá, hvaða trú prófessor Jensen hefir á gerilsneyðingunni, þegar hann er að gefa Dönum, löndum sínum, ráðleggingar. Virðist þar skjóta allskökku við það, sem hann prjedikar fyrir Íslendingum í þessu brjefi sínu. Mun jeg, með leyfi hæstv. forseta, vitna nokkuð í fyrirlestur þann eftir próf. Jensen, sem Hannes Jónsson dýralæknir þýðir kafla úr í ritgerð sinni um gin- og klaufaveikina. Eins og gefur að skilja, verður hr. Hannes Jónsson að ábyrgjast þýðinguna.

Jeg vil þá fyrst benda á þessi ummæli prófessorsins í þeim fyrirlestri: „Í sjerhverjum gin- og klaufaveikisfaraldri, hvort heldur hann er stór eða lítill, taka menn iðulega eftir tilfellum, sem meðal annars einkenna sig við það, að þveröfugt við það, sem venjulegast á sjer stað, brýst nú sýkin út á kálfunum og svínunum og ennfremur breiðir hún sig út á örstuttum tíma, eingöngu eða aðallega á þeim bæjum, sem senda mjólk til sama mjólkurbús. Smitunin orsakast af því, að mjólk úr veikum kúm er send til mjólkurbúsins og gerilsneyðingin er ófullkomin (hitinn á að vera 90° á C.), eða þá af því, að brugðið er út af fyrirmælum um flutning og meðferð mjólkurinnar í mjólkurbúunum“.

Þá nefnir hann þess dæmi, að brugðið hafi verið út af settum reglum um meðferð mjólkur:

„Á einu af okkar allra stærstu mjólkurbúum braust gin- og klaufaveikin út meðal 5 viðskiftamanna á 1–2 dögum og byrjaði hjá þeim öllum í kálfunum og svínunum. Ónóg gerilsneyðing hafði það í för með sjer á einni af okkar minni eyjum, að sýkin braust út hjá hjer um bil helmingnum af viðskiftamönnunum á örfáum dögum, og hjá allflestum þeirra byrjaði veikin í kálfunum og svínunum. Á einu af mjólkurbúunum á Jótlandi bilaði vjelin, og af því leiddi, að þann dag var ekki hægt að gerilsneyða nema nokkurn hluta mjólkurinnar. Formaður mjólkurbúsins límdi þá miða á föturnar og skýrði mönnum frá því, að sjóða þyrfti mjólkina. Flestir viðskiftamennirnir gerðu það ekki, og afleiðingin varð sú, að 27–28 heimili fengu veikina. Maður nokkur tók fyrst eftir miðanum, þegar hann var búinn að gefa einum kálfinum af mjólkinni, en sauð hana svo, áður en hann gaf hinum skepnunum hana. Eftir fáeina daga fjekk kálfurinn gin- og klaufaveiki og smitaði svo hinar skepnurnar. — Eitt einasta tilfelli af veikinni, sem kom fyrir á Skáni síðastl. sumar, gerði það að verkum, að sýkin breiddist út frá mjólkurbúinu og var búin að smita rúmlega 20 býli, áður en menn áttuðu sig á, að gin- og klaufaveiki væri komin til Svíþjóðar.“

Svona reynist þá gerilsneyðingin, sem próf. Jensen leggur mest upp úr í brjefi sínu. Og hann segir ennfremur í fyrirlestri sínum:

„Hættan af smitdreifingu frá mjólkurbúunum er ákaflega mikil, jafnvel þótt sýnd sje árvekni skilningur og aðgæsla af öllum hlutaðeigendum. En auðvitað margfaldast hættan, ef skilning vantar og trassaskapur er ráðandi“. Því næst segir próf. Jensen:

„Fyrir yfirvöldin er það þess vegna mjög alvarlegt að gefa leyfi til að flytja mjólk úr sýktum kúm til mjólkurbúanna, til að spara fje ríkissjóðs. Jafnvel þótt fullkomlega mætti treysta atbeina mjólkurbúanna, myndi ómögulegt að hindra smitdreifingu að svo vöxnu máli, en því miður sýnir reynslan, að fjöldi mjólkurbúa rækir ekki skyldur sínar, en reynir eins og mögulegt er, í þetta skifti á einu sviði, í annað skifti á öðrum sviðum, að komast framhjá fyrirmælum yfirvaldanna“.

Hjer bendir próf. Jensen til þess, að danska stjórnin kveinki sjer við að leggja fram fje til að efla sóttvarnarráðstafanir.

Þetta, sem hjer hefir verið tilfært, er þýðing á kafla úr fyrirlestri eftir próf. Jensen, og má af því sjá, hvaða trú hann hefir í raun og veru á gerilsneyðingunni, þar sem hann vill ráða löndum sínum heilt.

Þá kemur enn fleira til greina í þessu sambandi, sem jeg held, að sje ekki úr vegi að rifja upp aftur, úr hví að hugir manna eru enn á reiki um það, hvort forða skuli búpeningi landsmanna frá gin- og klaufaveikidauða eða ekki. Þótt veikin sje um garð gengin, getur smithætta verið mikil eigi að síður. Þótt dýrin sjeu heilbrigð orðin, geta þau verið smitberar. Gin- og klaufaveikisýklar geta lifað lengi utan dýranna.

Það er því rjett að víkja nokkuð að því, sem Hannes Jónsson segir um næmi veikinnar í bæklingi þeim, er jeg held á. Því hefir verið haldið fram, að þótt sýklar væru utan á eggjum, dræpust þeir bráðlega, af því að sýklarnir lifðu ekki á þurrum stað. Um þetta atriði segir Hannes dýralæknir:

„Oft virðist smitiefnið þola illa þurk eða uppþornun; þó er mótstöðukraftur þess mjög mismunandi og fer það öðrum þræði eftir efninu, sem uppþurkað er, en að hinum eftir því, hve hröð uppþornunin er og hve mikil. Stundum eyðilegst smitiefnið mjög fljótt við þurkun, en í öðrum tilfellum er það lifandi og smithæft mánuðum saman. Tilraunir með hálm og hey hafa leitt í ljós, að smitiefnið getur haldið sjer lifandi og sýkingarfæru í þeim í 5 mánuði eða lengur. — — — — Kulda þolir þetta sýkiefni, eins og mörg önner sýkiefni, ágætlega og getur lifað mjög lengi í frosnu ástandi“.

Jeg bið menn að athuga þessi ummæli dýralæknisins vandlega. Enn er ein alveg ný ástæða til að sýna meiri varkárni og beita strangari varúðarráðstöfunum en áður, og það eru hinar beinu ferðir milli Íslands og Þýskalands, því að eftir því sem sunnar dregur verður veikin magnaðri og hættulegri. Um þetta segir Hannes dýralæknir:

„Jeg vil þá fyrst minna á og undirstrika, að síðustu áratugina hefir hjer í álfu altaf liðið styttra og styttra á milli gin- og klaufaveikifaraldranna, að sýkin er sem stendur orðin landlæg í mestallri Mið-Evrópu, að Danir, Svíar og Englendingar hafa enn ekki getað útrýmt henni. Óhætt er að líta svo á, að smithættan aukist að sama skapi sem sunnar og austar dregur í álfuna. Í sambandi við þetta vil jeg benda á, að við höfum fengið örar og beinar ferðir til og frá Þýskalandi og að samgöngur okkar við nágrannaþjóðirnar hafa stórum aukist. Örar, beinar og hraðar ferðir hafa flutt sjúkdóminn miklu nær okkur en nokkru sinni áður, auk þess sem smithættan er nú jafnmikil og hún hefir verið mest, þar sem sum ríkin eru að gefast upp við sóttvarnarráðstafanir gegn sýkinni“.

Á dýralæknirinn hjer einkum við Þýskaland. Því næst segir hann — og vil jeg enn brýna fyrir mönnum að taka vel eftir:

„Kem jeg þá að því, hvað við getum og eigum að banna. Rökrjett hugsun finnur brátt ákveðna merkilínu í þessu máli. Heilbrigð skynsemi hlýtur strax að viðurkenna, að þær vörur, sem beinlínis eru afurðir þeirra dýra, sem næm eru fyrir sýkinni, og þær vörur eða hlutir, sem þráfalt eru í beinni snertingu við alidýr eða affall frá alidýrum, hljóta að vera langsamlega hættulegastar“.

Af þessu leiðir, að þær vörur, sem brtt. gera ráð fyrir að banna, eins og stjórnin gerði á síðastl. hausti, hljóta allar að vera stórhættulegar. Þótt jeg muni síðar minnast á ummæli ýmsra hv. þm. um þessar brtt., þykir mjer rjett að geta þess nú þegar, að hv. 2. þm. Reykv. þóttist lesa út úr bæklingi Hannesar dýralæknis, að egg væru óskaðleg. Þetta hefir hann víst þótst finna á bls. 183, þar sem upp er talið hey, hálmur, rófur, kartöflur og annað hraðvaxið grænmeti og svo afurðir þeirra dýra, sem móttæk eru fyrir veikina, t. d. nýjar sláturafurðir, ull, hár, fiður o. s. frv.

Nú eru hænsni á meðal þeirra dýra, sem móttæk eru fyrir veikina. Vil jeg og í þessu sambandi benda á það, sem sagt er um eggin í greinargerðinni fyrir þessu frv. Það er fróðlegt að bera það saman við það, sem próf. Jensen segir í brjefi sínu, þar sem hann er að prókúrera fyrir dönskum hagsmunum, um það, að veikin berist ekki með eggjum. Í greinargerðinni segir svo um eggin:

„Egg er sú vara, sem ekki er hægt að sótthreinsa nema með suðu, ef aðeins eru taldar þær leiðir, sem kleifar eru kostnaðar vegna“.

Eftir þessu er ekki örugt að flytja inn egg, nema soðin, og þó því aðeins, að gin- og klaufaveikibakterían hafi ekki að þeim komist eftir suðuna. Þetta og margt fleira má færa því til sönnunar, að þessi vara er hættuleg og að innflutningur á henni geti haft í för með sjer, að búpeningur landsmanna, sem árið 1925 var metinn á 40 miljónir kr., verði lagður í rústir. Þegar farið er fram á meiri og strangari varnir hjer en annarsstaðar, er rjett að benda á það, að þar sem þessum vörnum hefir ekki verið beitt, hefir afleiðingin orðið sú að gin- og klaufaveikin hefir borist þangað. Jeg held, að þetta, sem jeg hefi tilfært, sje nóg til þess að sýna fram á, að það er ekki rjett, sem hæstv. forsrh. sagði, að við stæðum á grundvelli staðreyndanna og vísindanna, þó að við gæfum undanþágur. Vitanlega verða þær ekki veittar nema í því skyni að þær eigi að nota. Nei, þá fyrst stöndum við á grundvelli vísindanna og staðreyndanna, ef við bönnum innflutning á öllum þessum vörum.

Jeg skal ekki fara mikið út í það að drepa á þær umr., sem urðu um þetta mál við 2. umr. Þá varð það að samkomulagi að láta allar umr. falla niður til 3. umr. Fjellu þó mörg orð þá er ástæða hefði verið til að hrekja.

En með því, er jeg hefi nú sagt, þykist jeg hafa slegið niður þær ástæður, er bornar hafa verið fram gegn því að gera varnirnar svona strangar. — Tvent er það, sem nokkrir þm. hafa aðallega borið fram gegn þessum vörnum, og hafa þeir látið heita svo, sem þeir bæru þar hag kaupstaðanna fyrir brjósti. Í fyrsta lagi, segja þeir, er kaupstöðum neitað um of mikið af vörum, ef þetta bann kemst á, og í öðru lagi mundu þær vörur, er fáanlegar yrðu, hækka alt of mikið í verði. Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að síðan algerlega var bannaður innflutningur á nokkrum vörum, sem einnig eru framleiddar hjer, hafa þær lækkað í verði. T. d. hefir smjör lækkað um kr. 1,50 pr. kg. Þetta held jeg sje nægilegt til þess að sýna, að fullyrðingar þeirra, er standa á móti þessu banni af þessum sökum, eru ekki á neinum rökum bygðar. Þetta er bara fyrirsláttur hjá þeim og því slegið fram beinlínis á móti betri vitund. Einn hv. þm., jeg man nú ekki, hver það var, sagði hjer um daginn við 2. umr., að ef bannaður yrði innflutningur á eggjum, þá mundi það hafa þær afleiðingar, að næstu 2–3 árin yrðum við að láta öll hænsni, sem munu vera um 30 þús. í landinu, unga út öllum eggjum, sem til fjellu, til þess að nægur hænsnastofn fengist handa landinu. Jeg hefi nú að gamni mínu athugað þetta, til þess að geta sýnt fram á, hvaða vitleysur og fjarstæður menn fara með í þessum efnum. Niðurstaða mín af þessari athugun hefir orðið sú, að þó hænsnin væru ekki látin unga út nema í 2 ár, og hefi jeg þó gert ríflega ráð fyrir vanhöldum, þá væri hægt að framleiða á 3. árinu um 600 milj. eggja. Nú munu vera flutt inn árlega 300–400 þús. egg, svo af þessu sjest berlega, hvaða fjarstæðu menn leyfa sjer að fara með í þessum efnum og hvaða hugmyndir reynt er að breiða út um afleiðingarnar, sem þetta bann mundi hafa í för með sjer. Jeg held, að jeg fari nú samt ekki frekar út í það, sem sagt var við 2. umr. þessa máls. Ef málið verður rætt áfram, þá verður hægt að gera það, og það ef til vill rækilegar; en eins og nú standa sakir sje jeg ekki ástæðu til þess. Aðeins vildi jeg drepa á nokkur atriði í ræðu hv. þm. Vestm., — já, hann er nú því miður ekki viðstaddur. Er það og, svo um fleiri þá hv. þm., er fastast stóðu á móti þessu máli við 2. umr., að þeir láta nú ekki sjá sig. Finst þeim líklega, að það sje nú svo örugt orðið, að vilji þeirra verði ofan á um það, að ekki verði samþ. alt of strangar ráðstafanir, að nærvera þeirra við umr. sje ekki nauðsynleg. Þykjast þeir nú víst hafa fengið vind í seglin og ætla sjer nú að sigla þessum gagnslausu ráðstöfunum, sem eru í frv. eins og það er nú, fullum seglum gegnum þingið.

Hv. þm. Vestm. (JJós) vildi halda því fram, að ekki væri unt að fá nægilegt hey hjer nema með því móti að sækja það austur yfir Íslands ála til Noregs. Er þetta allundarleg skoðun, því vitanlegt er, að hjer á landi er víða framleitt og ennþá víðar hægt að framleiða meira hey en notað er í þeim bygðarlögum og nóg hey á boðstólum. Það kemur greinilega fram í þessu sá leiðinlegi og skaðlegi hugsunarháttur — jeg vil segja uppskafningshugsunarháttur — að vilja endilega kaupa alt eða sem mest frá útlöndum, og það þó hægt sje að fá þessar nauðsynjar betri og ódýrari framleiddar í landinu sjálfu. Út af því, sem þessi sami þm. sagði um kartöflurnar, er það að segja, að það stafar aðeins af sleifarlagi á þjóðarbúskapnum, að nokkuð skuli þurfa að flytja inn af kartöflum, því aðstæður eru hjer víða ágætar til þess að rækta þær. Samt álít jeg þó ekki gerlegt að banna alveg innflutning á kartöflum nú, enda mun síður ástæða til þess að ætla, að jafnmikil hætta stafi af þeim eins og t. d. af mjólkurafurðum og eggjum, sem geta verið afurðir sýktra dýra. En ef innflutningsbann á kartöflum gæti orðið til þess, að lögð væri meiri stund á að rækta þær, fæ jeg ekki sjeð, að það væri neinn þjóðarskaði skeður, þó slíkt væri gert. Á jeg þar ekki sjerstaklega við þá, er hafa kartöflurækt að atvinnugrein, heldur og þá, er rækta þær til eigin afnota. Hjer er því ekki hægt að tala um, að verndartollapólitík liggi að baki þessu. Hefir því þó óspart verið haldið á lofti, að þessar innflutningshindranir væru ekkert annað en grímuklæddir verndartollar. En vitanlega nær það engri átt. Hætta sú, er búin er bústofni landsmanna, ef gin- og klaufasýkin berst hingað, er svo geigvænleg, að hún rjettlætir það fyllilega, þó slíkar ráðstafanir sjeu gerðar.

Jeg sagði í upphafi máls míns, að hingað til hefðu aðallega komið fram tveir aðiljar í þessu máli, en nú væri þriðji aðilinn kominn til sögunnar, sem er umboðsmaður dönsku stjórnarinnar hjer. Og er það sýnilegt af öllum veðurmerkjum, að fast er fylgt á eftir úr þeirri átt. En jeg verð að segja það, að jeg vonast eftir, að það verði ekki hlutskifti Alþingis, að hægt verði að segja um það, að það skríði undir klæðafald danskra hagsmuna. Að lokum skal jeg endurtaka það, sem jeg sagði í upphafi, að ástæða sú, er hv. frsm. landbn. færði fyrir hringsnúningi meiri hl. nefndarinnar í þessu máli og fyrir því að hún tók aftur brtt. sínar, er engin ástæða. Þingi verður hvort sem er ekki slitið fyr en á miðvikudag, svo nægur tími hefði verið til þess að ganga frá málinu, þótt það færi til Ed. Og jeg lít svo á og geng út frá því sem sjálfsögðum hlut, að ekki ríki þvílíkt ábyrgðarleysi í Ed. um hag þjóðarinnar, að hún hefði látið sjer sæma að fella frv., þótt þessar brtt. hefðu verið samþ. hjer og frv. því orðið að fara aftur til Ed. Auk þess er það vitanlegt, að nokkur breyting hefir orðið á aðstöðu sumra hv. þm. í Ed. til þessa máls.

Jeg skal svo bæta því við, að jeg geri ráð fyrir því, að þær brtt. hv. landbn., sem teknar voru aftur, verði teknar upp, ef brtt. okkar fimmmenninganna finna ekki náð fyrir augum þessarar hv. deildar. En jeg vona nú, að á þeirri alvörustund, er gengið verður til atkvæða um þetta mál, þá nái þær till. fram að ganga, er lengst ganga í þá átt að vernda þjóðina fyrir þeim voðalega vágesti, gin- og klaufasýkinni, sem á skömmum tíma gæti lagt landbúnað þessa lands í rústir.