31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er ekki tilgangur minn að halda langa ræðu, því að bæði er það, að jeg á ekki atkv. í þessari hv. deild og að bekkir eru heldur fáskipaðir, eins og oft vill verða.

Það hefir undanfarið reynst svo, að þessi hv. deild hefir sýnt meiri varfærni við samþ. fjárlaganna um nýjar fjárveitingar, og vil jeg bera fram þá ósk, að svo verði einnig að þessu sinni. Hv. fjvn. hefir verið jafnvarfærin, og á hún þakkir skilið fyrir. Um leið vil jeg leyfa mjer að þakka hv. fjvn. fyrir till., er hún nú hefir borið fram, um styrk til fornritaútgáfunnar. Var það af tilviljun, að ekki var hægt að leggja þá beiðni fyr fyrir þingið. Jeg vænti þess, að hv. deild taki máli þessu eins vel og hv. fjvn. og æðsti valdsmaður þessa lands hefir gert, enda þori jeg að fullyrða, að fornritaútgáfan verður einhver sú merkasta framkvæmd hjer á næstu árum. Og þar eð einstakir menn hafa safnað svo hárri fjárhæð með frjálsum samskotum og orðin er, má ætla, að ríkið vilji leggja fram nokkurn skerf til útgáfunnar.

Jeg sje ekkert á móti því að fella niður styrkinn til búnaðarfjelaganna og sameina hann þeim styrk, sem veittur er samkv. jarðræktarlögum. Hygg jeg þó, að fjárhæðin verði of lág. einkum þegar þar við bætist, að af þeirri upphæð (260000 kr.) eru veittar 20000 kr. til verkfærakaupasjóðs, en að sjálfsögðu má líta á þetta sem áætlunarupphæð, sem stjórnin er ekki bundin við.

Þá hygg jeg, að mjög vel sje ráðið af nefndinni að bera fram till. um tillag til Alþjóðahjálparsambandsins. Höfðu borist boð frá stjórn sambandins, og hygg jeg, að þarna sje völ á ódýrri slysatryggingu fyrir landið, einkum þar sem þesskonar slys eru mjög tíð hjer. Með þessu litla fjárframlagi getum við trygt okkur verulegar fjárhæðir frá þessu alþjóðafjelagi, ef slys bæri að höndum.

Jeg skal ekki ræða um till. einstakra þm., en það eru tvær brtt., sem jeg á þátt í, að fram eru komnar, og vil jeg gera nokkra grein fyrir þeim. Þessar brtt. eru XXXIII. og XXXV. á þskj. 642, sem jeg hefi borið fram ásamt hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) . Þær hljóða um það, á hvern hátt ríkið geti stuðlað að uppkomu osta- og smjörbúa í landinu. Við höfum í fyrri till. lagt það til, að smjörbúin verði rekin á samvinnugrundvelli eins og þingið 1926 ætlaðist til um rjómabúin í sambandi við Flóaáveituna. Það er enginn vafi á því, að það er mjög áríðandi að styðja bændur til þess að koma mjólkinni í peninga. Nú hefir verið skipuð nefnd til þess að taka það til athugunar, á hvern hátt hægt sje að veita hinum stóru og frjósömu hjeruðum austan fjalls aðstoð til þess að koma þessu í framkvæmd. Þar að auki hefir verið sett á stofn í Eyjafirði hið stærsta smjörbú og ostabú hjer á landi, og er það nýbúið að senda afurðir sínar á markaðinn hingað suður.

Síðari brtt. gengur í þá átt, að ríkissjóði heimilist að veita styrk til þess að koma á stofn osta- og smjörbúum, sem nemi alt að ¼ stofnkostnaðar, í eitt skifti fyrir öll, og hinsvegar til að styrkja þau með ódýrum lánum úr viðlagasjóði. Það er sett sem skilyrði, að búin sjeu rekin á samvinnugrundvelli og reist á þeim stað, er Búnaðarfjelag Íslands telur heppilegastan fyrir viðkomandi hjerað. Jeg geri ráð fyrir því, að sumir muni líta svo á, að nú þegar sje fullsett á viðlagasjóð, og jeg játa, að engin von sje til þess, að viðlagasjóður geti risið undir öllum þeim hlutverkum, sem honum eru ætluð. Hinsvegar álít jeg, að hjer sje aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða og að stjórnin muni geta fundið einhverja leið til þess að afla fjár til viðlagasjóðs. Jeg vona einnig, að á næsta þingi verði stofnaður sá banki fyrir landbúnaðinn, sem geti látið í tje lán til þessara fyrirtækja og annars, er landbúnaðurinn þarfnast.

Jeg vænti þess, vegna þeirra smjörbúa, sem þegar eru stofnuð og á nú að stofna í Eyjafirði, Flóanum og víðar, að deildin líti svo á, að stjórnin eigi að hafa heimild til þess að styrkja þessi fyrirtæki.

Þetta er nýmæli í sambandi við fjárlagafrv. En heimild fyrir þessu er gefin í Flóaáveitulögunum, og jeg vona, að hv. deild styðji að því, að þessi regla verði upp tekin alment og styrki þá nytjastarfsemi, sem hjer er um að ræða.