14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2628 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg þarf fremur litlu að svara hv. þm. Borgf., af því að bæði hafa þeir hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Rang. tekið fram margt af því, sem jeg hafði ætlað að segja, þegar jeg kvaddi mjer hljóðs, og í öðru lagi var það ekki nema lítill hluti af ræðu hv. þm. Borgf., sem hann beindi sjerstaklega að mjer og landbn. Hann deildi þó nokkuð á meiri hl. nefndarinnar fyrir það, að hann vildi ekki lengur halda till. sínum á þskj. 514 til streitu. Hann sagði um þetta atriði, að sjer fyndist skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar nefndin þannig fjelli frá sínum eigin till., kallaði þetta hringsnúning hjá nefndinni o. s. frv. Jeg vil nú mótmæla því algerlega, að hjer sje um nokkurn hringsnúning að ræða. Nefndin er algerlega sömu skoðunar og áður um það, að mesta nauðsyn sje á öruggari ráðstöfunum gegn gin- og klaufaveikinni, og vill enn halda fram, að till. nefndarinnar hafi verið á fullum rökum bygðar. Þess vegna hefir hún ekki að neinu leyti skift um skoðun. En hún hefir sannfærst um það, að það er ekki hægt að koma þessari till. í gegnum þingið, og þess vegna er ekki til neins að halda henni til streita. Og þá vill nefndin falla frá till. fremur en að stofna málinu í hættu. Því að það verður nefndin að halda fast við, að með frv. eins og það liggur nú fyrir sje mikið unnið í þessu efni, þó að ekki sje það eins mikið og nefndin hefði viljað kjósa. Jeg skal benda á, að það er skilyrðislaust bann á öllum þeim vörum, sem taldar eru í a-lið 2. gr. frv. (PO: Það er líka skilyrðislaust bann á þeim í núverandi löggjöf). Nei, það er ekki skilyrðislaust. Ennfremur miðar heimild fyrir atvmrh. í 3. gr. að því að banna yfirleitt innflutning á öllum þeim vörum, sem eru taldar hættulegar. (PO: Það er líka í núverandi löggjöf). Það er ekki til neitt skilyrðislaust bann á þessum vörum í núverandi löggjöf. Þess vegna álítur nefndin það þá allra óforsvaranlegustu afgreiðslu þessa máls, að láta það daga uppi eða falla.

Ástæðurnar, sem jeg nefndi í fyrri ræðu minni fyrir því, að nefndin tekur till. sínar aftur, nefnilega afstaða hv. Ed. til málsins, þótti hv. þm. Borgf. ekki annað en kattarþvottur. Hann sagði í því sambandi, að jeg reyndi að hræða hv. þd. eins og menn hefðu hrætt börn með grýlu í gamla daga o. s. frv., og sagði um leið, að hann hefði fengið nýjar upplýsingar um afstöðu nokkurra þingmanna í Ed. Jeg verð að segja það, að þetta getur náttúrlega breytt viðhorfinu töluvert. En jeg vil þá benda honum á, að það verða nokkuð margir þm. í hv. Ed. að hafa breytt afstöðu sinni til málsins, ef þessari till. á að vera óhætt, því að eftir því, sem jeg veit best, voru það ekki nema tveir menn í hv. Ed., sem höfðu svipaða skoðun á málinu, þegar frv. var þar til meðferðar, eins og hv. þm. Borgf. og landbn. Svo að það þyrftu þá að vera a. m. k. sex menn í Ed., sem hefðu breytt afstöðu sinni til málsins síðan. Nú stendur það heima, að flokksbræður hv. þm. í Ed. eru einmitt sex; og ef hann vill fyrir þeirra hönd lýsa yfir því og taka ábyrgð á því, að þeir muni fallast á þessa till., sem hann flytur hjer, þá mun það breyta viðhorfinu afarmikið. (PO: Veit þingmaðurinn fyrir víst, að enginn hinna hefir breytt afstöðu?). Jeg hefi sterkan grun um það, og ekki nokkra minstu ástæðu til að ímynda mjer, að nokkur þeirra hafi gert það. (PO: Heldur þingmaðurinn að ráðherrar fari að fella stjórnarfrv.?) Ed. kynni að hafa aðra leið heldur en að fella frv.

Sem sagt, ef hv. þm. Borgf. gefur þessa yfirlýsingu, þá veit jeg, að það hefir mikil áhrif á úrslit málsins í deildinni. En annars sje jeg ekki til neins að vera að berja höfðinu við steininn í þessu máli, þegar komið er að þingslitum. Hitt er annað mál, að það er náttúrlega hart fyrir fjölmennari deild þingsins að verða hvað eftir annað að beygja sig fyrir hinni; og slíkt getur vakið hjá mönnum ýmsar hugsanir um það, hvort ekki væri rjett að taka til nýrrar athugunar, hvernig störfum er háttað á þinginu og hvernig þinginu er fyrir komið. En eins og nú standa sakir verð jeg að líta svo á, að við þessu sje ekkert að gera í þessu máli. Og það er ekki lengra síðan en í gær, að hv. þm. Borgf. ásamt öllum öðrum hv. þdm. samþ. óbreytt lagafrv., sem kom frá Ed., þó að hann ljeti í ljós afarmikla óánægju um frágang hv. Ed. á því. Og var nokkurnveginn eins mikil óánægja með það mál eins og þetta. En sá var munurinn, að það gat ekki dagað uppi, því að slíkt getur aldrei komið fyrir með fjárlög. Að þingsköpunum og stjórnarskránni óbreyttri getur það oft komið fyrir, að deildirnar verði að beygja sig hvor fyrir annari.

Að ennþá sje nógur tími til að koma máli þessu fram á þinginu, þó að því verði breytt nú, eins og háttv. þm. Borgf. vildi halda fram, nær engri átt, því að jeg hefi sjeð útbýtt þingfararkaupsreikningum hv. þm., og jafnframt sjeð þá útfylta með það fyrir augum, að þingslit verði 18. þ. m., eða næstkomandi miðvikudag.

Þá var háttv. þm. Borgf. að tala um, og lagði mikla áherslu á það, að nýr aðili væri kominn í málið, og skildist mjer helst, að hann eiga þar við dönsk stjórnarvöld. Jeg veit alls ekki, hvað slík ummæli sem þessi eiga að þýða í sambandi við umræður um þetta mál, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að háttv. þm. vilji halda því fram, að landbn. hafi í þessu tilfelli látið undan síga vegna áhrifa frá dönskum stjórnarvöldum, eða t. d. að danski sendiherrann hafi haft áhrif á hana. Alt tal í þessa átt er hreinasta fjarstæða. Fyrir nefndinni vakir ekkert annað en að bjarga málinu gegnum þingið, og þess vegna vill hún ekki halda till. sínum til streitu. Annars verð jeg að segja, að jeg skil hálfilla gremju háttv. þm. yfir því, að till. nefndarinnar skuli ekki hafa verið fylgt fram, þar sem hann ásamt öðrum háttv. þm. hefir komið fram með brtt. eftir að till. nefndarinnar komu fram. Lítur því út fyrir, að þeim háttv. þm. hafi ekki þótt mikið til þeirra koma.