14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla aðeins að beina fáeinum orðum til hæstv. atvmrh., því að hann var ekki viðstaddur, þegar jeg talaði síðast. Mjer virtist hann tala eins og það hrygði hann, að hann þyrfti að beygja sig í þessu máli, og vera sammála meiri hl. landbn. um það, að best væri, að frv. yrði samþ. óbreytt.

Hvað er það, sem gerir það, að hann þarf að beygja sig, og hvað knýr hann eiginlega til þess að gera það, svo óljúft sem það hlýtur að vera honum samkvæmt fyrri afstöðu hans til þessa máls? Jeg verð að segja það, að jeg kem ekki auga á það. Því að jeg get ekki gert ráð fyrir því, að stuðningsmenn hæstv. ráðh. drepi frv. að honum sárnauðugum. Það hefir ekki komið fyrir áður á þessu þingi, og þar sem hæstv. ráðh. hefir flutt þetta mál og það hefir verið honum svo hjartfólgið áður, þá get jeg ekki skilið það, að það verði eina stjfrv., sem stútað verði á þessu þingi. Og þótt minni hl. stuðningsmanna stj., sem sje sósíalistar, gangi á móti frv. af öllu sínu afli og sínum brennandi áhuga á því að koma málinu fyrir kattarnef, þá hygg jeg, sem sagt, að hægt væri að fá styrk annarsstaðar frá til þess að vega upp á móti því, svo að hægt væri fyrir hæstv. ráðh. að komast hjá því að teyga þennan beiska kaleik. Og þegar hann er að tala um, að starfsbræður hans, hinir ráðherrarnir, muni greiða atkv. gegn frv., þá er mjer það alveg óskiljanlegt.

Jeg hafði búist við því, að við hæstv. atvmrh. hefðum barist hjer hlið við hlið fyrir framgangi þessa máls, og því er mjer lítil huggun í því, að hæstv. ráðh. sje nú að þakka mjer og öðrum, sem áður hafa staðið með honum í þessu máli. Það er, að því er mjer finst, harla ógeðslegt og óviðfeldið, þegar þeir, sem brugðist hafa málefni og samherjum og svikist hafa undan merkjum, fara að þakka fyrverandi samherjum forna samvinnu. Því jeg kvika ekkert frá því, að þær ástæður, sem hjer hafa verið bornar fram fyrir því, að nauðsynlegt sje að afgreiða málið eins og það liggur fyrir, eru einskis virði. Því að jeg vil ekki gera ráð fyrir því, sem þó hefir komið fram hjer í umr., að hæstv. forsrh. og flokkur hans hafi orðið að lægja seglin í þessu máli vegna áhrifa frá sósíalistum. Jeg vil ekki gera ráð fyrir því, að svo sje, og þær ástæður, sem hjer eru bornar fram fyrir því að afgreiða málið eins og það liggur fyrir, eru yfirskinsástæður einar og ekkert annað. En þegar leitað er að hinum raunverulegu ástæðum og útilokað virðist, að um annað sje að ræða, þá finst mjer ekki undarlegt, þótt mönnum hvarfli það í hug, að þessi sje ástæðan, þar sem og fordæmin eru til fyrir því svo mörg á þessu þingi.

Jeg vona samt enn, að hv. deild muni samþ. frv. með þeim breytingum, sem hjer er um að ræða, og á jeg þar fyrst og fremst við brtt. okkar fimmmenninga, en þá brtt. landbn., ef hinar falla. Því að þótt jeg álíti okkar till. enn öruggari, þá álít jeg þó skárra en ekki, að brtt. nefndarinnar verði samþ. Þó undanþáguheimildin, sem í þeim felst, dragi vitanlega úr örygginu, þá er þó ekki örvænt um, að láta mætti stj. hafa svo hitann í haldinu, að hún yrði ekki alt of ör á að veita undanþágur. — Auk þess mundi dýralæknirinn ófús að veita samþykki til undanþágu á hættulegum vörum, ef hann reynist samkvæmur sjálfum sjer.