14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg ætla ekki að fara að deila við hv. þm. Borgf. um þetta mál, því að efnislega ber okkur ekkert á milli. En hv. þm. veit meira en hann þykist vita um afstöðu þessa máls í Ed. Jeg get ekki treyst því, að jeg fái meiri hl. míns flokks með frv. með þeim breytingum, sem hjer eru á ferðinni, ekki heldur brtt. landbn.

Hv. þm. segir, að það, sem við muni þurfa til þess að frv. nái samþ. í Ed., muni vera hægt að fá frá andstöðuflokki stj. Jeg hefi átt tal við hv. þm. um þetta, og hann hefir aðeins nefnt eitt nafn. Og það er maður, sem margir segja, að muni meira að segja greiða atkvæði gegn frv. eins og það liggur fyrir, maðurinn, sem talaði gegn öllum ráðstöfunum til varnar og bar fram tillögu um að vísa málinu frá. Jeg get ekki lagt trúnað á þessi ummæli, er jeg veit svo mikið, sem bendir í öfuga átt.

Það er bert, að hv. þm. Borgf. talar um hug sjer, þegar hann ber mjer á brýn óstöðuglyndi í þessu máli. Hann talar móti betri vitund. Sá fyrsti, sem talaði móti frv. á þessu þingi, var formaður Íhaldsflokksins, og sá, sem næstur talaði á móti frv., var frsm. íhaldsmanna í landbn. Og frá hverjum hefir andað kalt til málsins í þessari hv. deild? Frá einum jafnaðarmanni og tveim íhaldsmönnum.

Af því að hv. þm. vitnaði í Hannes Jónsson dýralækni og skoðanir hans, skal jeg taka það fram, að eftir hans ráðum mun jeg fyrst og fremst fara í ráðstöfunum mínum framvegis.