14.04.1928
Neðri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

17. mál, gin- og klaufaveiki

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að segja það, að í ræðu hv. 3. þm. Reykv. kom fram mikill misskilningur. Hann talar um, að stj. sje mikill stuðningur í þessum umr. En má ekki sýna stj. stuðning nema í umr.? En hann ætti að athuga, hverja breytingu samþykt frv. gerir á gildandi lögum. Með henni er kipt burt reglugerð stj. frá síðastl. hausti. Það er allur stuðningurinn. M. ö. o., það er kipt burtu innflutningsbanni á þeim vörutegundum, sem hættulegastar eru. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að þræta fyrir, að nefndinni hafi snúist hugur; hún hefir alveg kúvent og brugðist trausti þeirra manna allra, sem er alvara með, að nokkrum vörnum sje haldið uppi.

Þá var eins og komið væri við opið sár hjá hæstv. forsrh., þegar jeg gat mjer til um ástæðuna fyrir undanhaldi hans í þessu máli. Það dregur ekki úr grun mínum, að jeg hafi getið rjett til um ástæðuna. Því jeg segi það enn, að mjer virðist óskiljanlegt, að stuðningsmenn hæstv. ráðherra, og þar á meðal starfsbræður hans í stj., færu að fella þetta frv. hans, sem hefir líka verið eitt af hans helgustu áhugamálum, ef honum væri nú orðið nokkur alvara með að koma því fram. Jeg geri ekki ráð fyrir slíku fyrirbrigði, og ef það kæmi í ljós, sýndi það hörmulegt ástand innan stjórnarflokksins.