31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af till. hv. fjvn. vildi jeg segja fáein orð, fyrst beina því til nefndarinnar, hvort hún geti ekki sjeð sjer fært að taka aftur til 3. umr. tvær litlar till., aðra um lækkun rekstrarkostnaðar húsmæðradeildar skólans á Staðarfelli og húsmæðradeildarinnar á Ísafirði. Jeg vildi aðeins að þessu sinni benda á, að mjer fyndist þurfa að athuga það, hvort það er sanngjarnt að gera þessa lækkun, einkum ef litið er til annara sambærilegra skóla. Jeg vænti þess, að nefndin athugi þetta áður en kemur til atkvgr.

Þá sje jeg, að nefndin hefir felt niður litla upphæð til manns, sem heitir Kristján Jónsson og hefir fylgt mönnum í heilar mannsaldur yfir Markarfljót. Það er því miður ekki hægt að verðlauna alla þá góða vatnamenn, sem til eru á landinu, en mjer finst, að þetta væri vel við eigandi sem hlýlegt handtak til þessa manns sem hefir lagt á sig erfiði til að hjálpa. mönnum í svo langa stund. Jeg vona, að nefndin sjái ekki ástæðu til að halda þessari till. til streitu.

Út af brtt. nefndarinnar um að hækka styrk til dr. Helga Pjeturss vil jeg aðeins segja mína skoðun án þess að rökstyðja. Jeg hefi fyr verið með því að hækka laun þessa manns, þannig að hann mætti hafa sæmilegt lífsviðurværi; og jeg hefi ekki breytt skoðun, hvorki um hans meðfæddu góðu hæfileika nje hans góða vilja. En jeg sje ekki, að hann sje á nokkurn hátt betur settur, þó að laun hans sjeu nú hækkuð. Hann skoðar sig sem höfund nýrra trúarbragða, og jeg býst ekki við, að slíkum forgöngumönnum sje talið nauðsynlegt að hafi nokkurt óhóf af veraldargæðum.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 642. Mín fyrsta till. er um það, að bætt verði aths. við greinina um meðferð utanríkismálanna, að fjeð sje greitt í dönskum krónum. Það hefir verið siður að greiða t. d. kostnað við sendiherraskrifstofuna og kaup sambandslaganefndarinnar í erlendri mynt án þess að taka það fram í fjárlögum. Er ætlast til, að þessi atkvgr. skeri úr um það, hvað þingið álítur um þetta. Það er óneitanlega fjarstæða í sjálfu sjer að hafa part af fjárlögunum í erlendri mynt og part í íslenskri án þess að tiltaka það nánar. Kostnaður við sendiherraskrifstofuna í Kaupmannahöfn er 20 þús. danskar krónur, húsaleiga 5 þús., líka danskar krónur, annar kostnaður. — mest risna — 20 þús. kr., og skrifstofuhald 17 þús. kr. Ef till. þessi verður samþykt, að kostnaður utanríkismála greiðist í dönskum krónum, þá liggur í því, að hina liðina á að borga í íslenskum krónum; við það lækka þeir allir hlutfallslega eins og gengið segir til.

Jeg mun máske við 3. umr. og í öðru tilefni koma að því, að jeg held, að þetta sje alveg forsvaranlegt. Mjer dettur ekki í hug að neita, að sá maður, sem nú er sendiherra, standi vel í stöðu sinni, en jeg neita því, að við getum búist við að geta haldið slíka menn okkar á allan hátt til jafns við ríkustu þjóðir. Það getur stundum verið leiðinlegra að vera smáþjóð, en það verðum við að sætta okkur við. Og jeg leyfi mjer að halda því fram, að 20. þús. kr. laun og 20 þús. kr. í risnu, þótt þær sjeu íslenskar, sje alveg nægilegt í Kaupmannahöfn, því að það er ekki dýrara að lifa þar heldur en í Reykjavík.

Þá er næsta till. mín um að auka skrifstofufje sýslumanna og bæjarfógeta um 5 þús. krónur, upp í 100 þús. kr. Þetta er ekki gert með ákveðin embætti fyrir augum, heldur vegna þess, að störf þessara manna fara vaxandi með ári hverju, og jeg býst ekki við, að hjá því verði komist á sumum stöðum að auka, að einhverju leyti þeirra skrifstofnkostnað. Þótt lítið sje, tel jeg það fremur vott um það, að þingið vilji ekki alveg gleyma, að aukinn kostnað leiðir af auknum kröfum.

Jeg hefi gleymt að minnast á kostnað við sambandslaganefndina. Hjer er sá kostnaður gerður 6 þús. kr., og er beinlínis átt við íslenskar krónur. Er ætlast til, að það árið sem nefndin fer til Danmerkur, fái hver maður 1500 kr. fastan styrk, hvorki meira, eða minna, í stað þess að hingað til hefir það verið 50 kr. danskar á dag frá því maðurinn fór heiman að og þangað til hann kom aftur. Þetta sýnist mjer ekki þörf; það er nokkurnveginn hægt að komast til Kaupmannahafnar og búa þar sómasamlega hálfan mánuð til þrjár vikur fyrir 1500 krónur. Sje litið á það, að kostnaður þessi hefir orðið 3500 kr. og upp í 5 þús. kr. á mann sum árin undanfarin, þá er hjer um nokkurn sparnað að ræða.

Jeg sje, að á þskj. 642 er brtt. frá hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) um framlag til vegarins yfir Fjarðarheiði. Þetta er gamall kunningi hjer frá í fyrra; þá var jeg einn af þeim, sem vildu láta rannsaka vegarstæði yfir heiðina. Nú hefir það komið í ljós við rannsókn, að vegur þessi verður dýr, um 400 þús. kr. Þetta er sjálfsagt mjög sönn áætlun, því að vegarstæðið er erfitt og liggur yfir hátt fjall og talsvert langt. Jeg álít að vísu, að vegurinn eigi að koma, en að undirbúningur sje ekki nægilegur enn. Þessi vegur hefir ekki sömu þýðingu nú eins og t. d. Fagradalsvegurinn, sem er lífæð milli Hjeraðsins og sjávar. Þessi vegur liggur miklu hærra. Að vísu notast hann Hjeraðsbúum nokkuð yfir sumarið, en sjerstaklega verður hann fyrir Seyðisfjörð: það má segja, að hann sje Seyðisfjarðar mál í hæsta máta. Þess vegna vil jeg ekki lá hv. þm. kjördæmisins, þó að hann berjist fyrir þessum vegi, en af hví hvernig ástatt er, þá verða Seyðfirðingar að gæta þess, að áður en þeir geta átt von á, að landið leggi fram fje það, sem krafist er, eiga þeir að sýna, að þeim sje virkilega alvara. Jeg talaði um þetta við sýslumann Seyðfirðinga; hann skildi vel, að þingið gæti ómögulega lagt út í þetta nema því aðeins, að Seyðisfjörður sýndi áhuga í verkinu. Stakk jeg upp á því, hvort Seyðisfjörður vildi leggja á sig ákveðna vinnu, máske þegnskylduvinnu á hverju ári, með því móti að landið legði fram eitthvað á móti. Þegar jeg sje hv. þm. Seyðf. kominn inn í hv. deild, vil jeg árjetta það, að það er líkt ástatt um þennan veg fyrir Seyðfirðinga eins og Kristneshælið fyrir Eyfirðinga. Þeir lögðu fram geysifje með samskotum og vinnu, og aðeins þess vegna tókst að hrinda þessu mannvirki áfram á skömmum tíma. Ef Seyðfirðingar sýna, að þeim sje eftir sinni getu eins mikil alvara að brjóta þennan múr milli sín og Hjeraðsins eins og Eyfirðingum var með hælið, þá álít jeg, að þeir muni á sínum tíma ekki fara bónleiðir til búðar. En enn sem komið er vantar þennan undirbúning.

Þá er hjer mál eitt, sem jeg vildi sjerstaklega segja nokkur orð um það er till. um að leggja fram í einu herbergi í alþjóðastúdentagarði í París, fyrsta greiðsla af fjórum, 2500 kr. Þessu máli er svo háttað, að það hefir nú nokkur undanfarin ár verið bygð stúdentaborg í útjaðri Parísar, þar sem nálega öll ríki heimsins leggja eitthvað til. Frakkar gangast fyrir þessu og leggja mikið til af því að þeir vilja gera sitt til þess, að París haldi áfram að vera sú mikla miðstöð í andlegum efnum, sem hún hefir lengi verið. Aðrar þjóðir viðurkenna gildi franskrar menningar greinilega með því að leggja stúdentum sínum til herbergi í þessum stúdentagarði. — Nú hefir ræðismaður Frakka snúið sjer til stjórnarinnar og stungið upp á, að við legðum fram 10 þús. kr. í eitt herbergi; það mátti borga það alt í einu eða þá á fjórum árum. Jeg ljet hv. mentmn. Nd. fá skjalið og fleiri gögn um málið, og svo var um talað, að nefndin kæmi með till. um það í Nd., en svo varð þó ekki. Jeg held því að vísu ekki fram, að hjer sje um lífsnauðsyn að ræða. En menn mega ekki láta fæla sig, þó að talið sje, að einstakra manna herbergi í okkar væntanlega stúdentagarði komi ekki til þess að kosta nema 5 þús. krónur, því að raunverulega kostar eitt slíkt herbergi 10 þús. kr., þegar þess er gætt, hve mikið ríkissjóði er ætlað að leggja fram. Með brtt. minni er því um fult samræmi að ræða, og við jafnt lifandi eða dauðir fyrir því, þó að við leggjum þennan kostnað á okkur á 4 árum, en gæti jafnvel hugsast að yrði okkur til mikils góðs síðar meir. Með því að ríkið legði þessa litlu upphæð til, ætti það nokkurn veginn að vera trygt, að einn íslenskur námsmaður að minsta kosti gæti stöðugt verið við nám í París. Og þar sem því hefir nú verið lýst yfir, að við munum innan stundar taka utanríkismálin í okkar hendur, þá er það augljóst, að okkur er nauðsynlegt, að nokkuð margir af áhrifamönnum þjóðarinnar kunni frönsku; hún er milliríkjamálið. En sem stendur höfum við fáum á að skipa, er hafi nægilega kunnáttu í þessari tungu og sjeu færir um að taka þátt í starfsemi „diplomata“. Þessi málakunnátta er ekki altaf nauðsynleg fyrir frægustu fulltrúa Stórveldanna, eins og t. d. Lloyd George; slíkir menn geta komist af án þess að kunna frönsku, en við getum það ekki, og þess vegna álít jeg það meira en ómaksins vert að sinna þessari litlu brtt.

Þá er það 2. liður brtt. undir XI. tölulið. Þar er farið fram á námsstyrk til Björns Gunnlaugssonar læknis, sem er mjög efnilegur maður, ættaður úr Borgarfirði. Hann hefir verið um tveggja ára skeið í Hamborg, meðfram til þess að geta búið sig undir það að verða hjer spítalalæknir. Þessi maður hefir rækt nám sitt ágætlega, farið vel með fje og tíma og er því líklegur að verða til gagns og sóma, þá er stundir líða, endist honum líf og heilsa.

Þá er 3. liður þessarar sömu brtt., um styrk til Axels Guðmundssonar, til þess að fullkomna sig í söngkenslu. Þetta er sami maðurinn, sem hv. þm. Ak. (EF) hefir borið fram í IV. brtt. á sama þskj. En af því að þar er farið fram á hærri upphæð, skoða jeg mína till. sem varatill., er komi því aðeins til atkv., að aðaltill. frá hv. þm. Ak. falli. Þessi maður er liðlega tvítugur, mjög söngvinn og hefir fallega rödd. En hann varð fyrir því óhappi að veikjast mjög hastarlega af mænusótt, og þó honum hafi batnað talsvert, fær hann þó tæplega þá heilsu að geta unnið stritvinnu, en hefir von um að geta ef til vill unnið sjer brauð með söngkenslu. Nú hefir hann hug á að hverfa til Danmerkur og leggja þar stund á söngnám með það fyrir augum að geta orðið kennari t. d. við alþýðuskóla. Hefði þessi maður verið hraustur og heill heilsu, var honum engin vorkunn að standa straum af þessum námskostnaði. En það er sjerstaklega með tilliti til þess, að hann er svona fatlaður, að þörf er á að styrkja hann í þessu skyni.

Þá á jeg næst XVI. brtt. í röðinni. Með þeirri brtt. er lagt til, að styrkur til þess að gefa út kenslubækur handa mentaskólanum falli niður, en svo hefi jeg síðar — það er XXI. brtt. í röðinni — lagt til, að upp væri tekin jafnhá upphæð (2500 kr.), sem varið yrði til þess að gefa út kenslubækur handa skólum yfirleitt. Samskonar brtt. fjell í hv. Nd., og veit jeg ekki af hverju, en mjer finst fara betur á að styrkur þessi sje miðaður við kenslubókaþörf allra skóla á landinu. Jeg skal taka það fram, af því að jeg hefi núna undanfarið lagt dálitla stund á að semja kenslubækur og gefa þær út, að jeg mun alls ekki hugsa um að njóta neins styrks af þessu fje til þeirra bóka, er jeg hefi sjálfur samið. En mjer er kunnugt um, að einn kennari Akureyrarskólans hefir í smíðum kenslubók í eðlisfræði, og færi þá vel á, að hann nyti styrks af þessu fje, því að slík kenslubók kemur fleirum skólum að gagni.

Þá hefi jeg borið fram brtt. — það er sú XIX. í röðinni — um styrk til þess að reisa unglingaskóla í kaupstöðum, 2/5 kostnaðar, alt að 10 þús. kr. Fyrir mjer vakir, að þetta sje upphaf af föstum lið, sem jafnan standi í fjárlögum, eins og það hefir tíðkast, að föst upphæð stæði þar til þess að koma upp unglingaskólum í sveitum. Eins og kunnugt er, hafa margir kaup- staðir verið að basla við að halda uppi unglingaskólum, og er því sanngjarnt að slík upphæð sje í fjárlögum, sem hægt sje að grípa til. Skal jeg aðeins taka fram, að þessi munur, sem hjer er gerður, 2/5 til kaupstaða móti ½ kostnaðar í sveitum, held jeg að sje nokkurnveginn jafnrjetti, vegna þess að sveitirnar hafa heimavistir við skólana.

Þá kem jeg að síðustu brtt. minni, sem er sú XXXIV. í röðinni á þessu sama þskj. og er við 22. gr. Þar er lagt til, að Bjarna Runólfssyni á Hólmi í Landbroti verði veitt lán til þess að koma upp verkstæði vegna raflýsingar sveitabæja. Í brtt. er lánsupphæðin 20 þús. kr., sem stafar af misritun í handriti, því að jeg ætlaði ekki að fara fram á nema 5 þús. kr., og beini því til hæstv. forseta, að hann beri till. þannig upp, að lánið sje aðeins 5 þús. krónur. Verði þetta lán veitt, efast jeg ekki um, að það muni koma að góðum notum. Þessi maður er nú orðinn víðþektur; hann er bóndi austur á Síðu, mesti völundur, en varð fyrst kunnur úti um land eftir að Sigurður próf. Nordal hafði skrifað um hann tímaritsgrein. Hann hefir verið mjög heppinn í smíðum sínum, þótt ekki sje hann skólagenginn í raffræðum. Hann hefir komið upp mörgum rafstöðvum á sveitabæjum, bæði austur þar og víðar, og er nú ráðinn hjá Búnaðarfjelagi Íslands til þess að leiðbeina bændum um raflýsingu sveitabæja.

Mjer er kunnugt um, að nú í vor á að reisa 6–7 rafstöðvar í nánd við Akureyri, og víðar mun vakinn allmikill áhugi manna á meðal um raflýsingu sveitabæja. Verður því ekki skortur á verkefni fyrir slíkan mann sem Bjarna. Annars er það merkilegast um Bjarna á Hólmi, að hann smíðar heima að búi sínu í Vestur-Skaftafellssýslu ýmsa hluti til rafstöðvanna, og suma þá allra dýrustu. Sjerstaklega eru það þó „túrbínur“, sem hann smíðar og gerir það fyrir einn fimtung verðs af því, sem þær kosta í Reykjavík, og þó eru þær taldar jafngóðar. Að Bjarna hefir tekist þetta, er fyrst og fremst því að þakka, að hann er hugvitsmaður og þjóðhagasmiður, en svo hafa og skipströndin austur þar átt sinn þátt í því. Þar kaupir Bjarni kopar og aðra málma við góðu verði, og svo smíðar hann dýra hluti í rafmagnsvjelar úr þessu efni. Nú hefir Bjarni komið sjer upp dálitlu verkstæði, en á þó erfitt með að fullkomna það sem skyldi, vegna þess að hann er fátækur og svo sanngjarn í öllum viðskiftum, að hann tekur oft ekki hærra kaup, þegar hann vinnur frá heimili sínu, en vanir verkamenn hafa.

Það er áreiðanlega góðra gjalda vert að styrkja slíkan mann og Bjarna á Hólmi, því eflaust á hann eftir að veita ljósi og yl um margar sveitir þessa lands og gera þær vistlegri. Vænti jeg því fastlega, að hv. deild geti fallist á brtt. þessa.

Jeg hefi þá talað fyrir brtt. mínum og býst ekki við, að jeg sjái ástæðu til að taka oftar til máls, nema ef frekari skýringa yrði óskað.