07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2662 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg hefi ekki miklu við álit meiri hl. samgmn. að bæta. Samkomulagið í nefndinni náði ekki lengra en það, eins og hv. frsm. minni hl. hefir sagt, að allir voru sammála um, að það fyrirkomulag, sem frv. stjórnarinnar stingur upp á, sje óhafandi. Allir þeir, sem kunnugir eru strandferðum, sjá, að ekkert vit er í að hafa tvö strandferðaskip, annað til fólksflutninga, en hitt til vöruflutninga. Rekstur slíkra skipa yrði svo dýr, í hlutfalli við þau not, sem af þeim yrðu, að slíkt væri hið mesta óráð. Hraðferðir Esju, sem að mestu hafa verið til mannflutninga, sýna, að jafnan hefir orðið mest tap á þeim. Hinsvegar tefja smáflutningar á hafnir kringum landið ekki til neinna muna fyrir skipinu. Ef bæði skipin hafa hinsvegar farþegarými, er meiri von um aukinn fólksflutning.

Mestu vandræðin við byggingu slíks skips og þess, sem hjer um ræðir, er að koma fyrir öllu því, er með þarf, farþegarými, lest til flutninga og kælirúmi. Margir krefjast þess, að ganghraði verði svo mikill, að mikið af rúmi skipsins fer undir vjelar og til kolageymslu. Þannig hefir Esja aðeins kol til tveggja daga í hliðarboxum, og verður því að nota mikið rúm til kolageymslu annarsstaðar í skipinu sem annars hefði verið hægt að nota undir vörur eða kælirúm. Ef þetta nýja skip á að hafa sama ganghraða og Esja og vera með kælirúmi, þá verður lítið um pláss fyrir aðrar vörur. Ef setja ætti kælirúm í Esju nú, yrði að taka til þess alla afturlestina. En yrði það gert, væri erfitt, ef ekki ómögulegt að sigla skipinu. Skipið tekur engar þær vörur, er það fer frá Reykjavík, sem geyma þarf í kælirúmi, en hinsvegar fer skipið með fulla framlest af vörum, og myndi því liggja á nefinu. Þess má og gæta, að ekki skiftir miklu máli um ganghraðann, þegar viðkomustaðir eru margir. Er þá svo dýrt að halda uppi fullum „dampi“ meðan á viðstöðum stendur, að skipin eru yfirleitt ekki látin ganga með fullri ferð. Esja gengur venjulega ekki nema 10 mílur, enda þótt hún geti gengið 12 sjómílur á klukkustund. Hefði vjelin verið miðuð við 10 mílna ganghraða, en ekki 12, hefði mátt spara svo mikið rúm, að sæmilegt kælirúm hefði komist fyrir. Líka verður að haga stærð og byggingarlagi þannig, að skipunum sje kleift að komast inn á hinar minni hafnir.

Þannig á Esja erfitt með að komast inn á Hornafjörð og verður að liggja úti fyrir. Esja er 178 fet á lengd, Hólar og Skálholt voru 151 fet og Austri og Vestri 142 fet, enda áttu þau skip hægara með að komast inn á Hornafjörð og aðrar smærri hafnir heldur en Esja. En það er ekki síst vegna Hornafjarðar og Austfjarða, að þörf er á þessu skipi. Síðan Brúarfoss kom til sögunnar, hefir mjög batnað hagur Norðlendinga í þessu efni. Einnig ber að minnast þess, að ákveðið er að leggja bílveg milli Norðurlands og Suðurlands, frá Borgarnesi og norður í land. Má telja víst, að mannflutningar allir og mikið af vöruflutningum verði með bílum, þegar vegurinn er kominn, á þeim tíma árs, sem vegurinn er bílfær, en það mun að jafnaði verða 6–7 mánuði ársins. Því að landleiðin verður bæði ódýrari og fljótfarnari. Farmgjald undir vörur úr vesturhluta Húnavatnssýslu myndi nema 6 aurum á kg. Myndu flestir kjósa að senda kjöt sitt þá leið, heldur en að flytja það á viðkomustaði kæliskipsins og geta átt á hættu, að nýmetið verði að bíða þar, vegna þess, að skipið verði á eftir áætlun. Það er líka áreiðanlegt, að ef greiða á flutningsgjöld fyrir vörur, sem fluttar eru í kælirúmi, í hlutfalli við raunverulegan tilkostnað og rekstrarkostnað, þá verður farmgjald 8½ eyrir undir kg., en ekki 6 aurar. Finst mjer, að þessum mismun væri betur varið á þann hátt, að styrkja hjeruðin til að flytja afurðir sínar með bílum, heldur en að kosta til byggingar á nýju strandferðaskipi, eins og sakir standa nú.

Í nál. meiri hl. er gerð grein fyrir þeim verklegu framkvæmdum, einkum í samgöngumálum, sem liggja fyrir á næstu árum. Það var ætlun Alþ. 1925, að þessum framkvæmdum yrði lokið fyrir 1932. Sannleikurinn er sá, að mörgum hjeruðum er miklu meiri þörf á símalínum heldur en auknum viðkomum strandferðaskipanna. Jeg hefi sjeð áætlanir landssímastjóra um símalagningar á þessu ári. Eftir því, sem jeg þekki til, — og mjer er óhætt að fullyrða það —, munu öll hjeruð fremur kjósa símann en strandferðaskipið.

Með rekstri þessa nýja skips er ríkissjóði lagt 180–240 þús. kr. árlegt beint rekstrartap á herðar. Þetta verður engin smáræðis upphæð, þegar um mörg ár er að ræða. Og til að koma skipinu upp, verður ríkissjóður að taka lán, 750–800 þús. kr. Framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins hefir skýrt svo frá, að skip, sem er 165 fet á lengd, með litlu kælirúmi og nokkuð annari tilhögun á farþegarými en er á Esju og gengur 9 mílur á klukkustund, muni fást bygt fyrir um 650 þús. kr. Sú breyting, sem þá væri gerð á farþegarýminu, er sú að hafa stærri fjölmennisklefa en nú eru á Esju. Á Austra og Vestra var 2. farrými aðeins tveir fjölmennisklefar, annar fyrir konur, hinn fyrir karla. Á þennan hátt mætti gera skipið töluvert ódýrara en ella.

Eins og sjest af nál. meiri hl., var ætluð 1 miljón króna til samgöngubóta árið 1925, mest til vega, brúa og síma, en lítið eitt til vita og hafnarbóta, þótt þar sje hin mesta þörf umbóta. Til vitabygginga er gert ráð fyrir 60 þús. kr. í næstu fjögur ár. Þetta er alt of lítið, þegar litið er á það, hve bráðnauðsynlegt er að koma upp vitum víðsvegar kringum land. Vil jeg þar nefna Seleyjarvitann, sem vitamálastjóri leggur áherslu á, að bygður sje fyrir 1932, vita á Horni, Tjörnesi, Sljettu, Glettinganesi og víðar. Þá er einnig þörf á að fjölga leiðarljósum, t. d. við Hjörsey á Mýrum, við Ísafjarðardjúp, á Breiðafirði, Húnaflóa og víðar.

Þegar Esja var bygð, voru allmjög skiftar skoðanir um það, hve mikill tekjuhalli myndi verða af rekstri hennar. Lá við, að þeir væru hæddir og hafðir að athlægi, sem hjeldu því fram, að árlegur rekstrarhalli myndi verða um 150 þús. kr. En reynslan hefir orðið sú, að tekjuhallinn hefir orðið 180–230 þús. kr. á ári, og að auki vextir af andvirði skipsins. Raunverulegur halli hefir því orðið um 230– 270 þús. kr. á ári. Framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins telur, að þessi halli muni fremur aukast en minka, ef skinin verða tvö, þannig að rekstrarhalli Esju hækkar og þar ofan á bætist rekstrarhalli hins nýja skins.

Fólksflutningar með Esju hafa orðið minni en búist var við í upphafi og hafa farið minkandi. Fyrsta árið voru 2/3 af tekjum skipsins fyrir farþegaflutning, en nú tæpur helmingur. Þetta er eðlileg afleiðing af því, að samgöngur hafa batnað, beinar ferðir milli Suður- og Norðurlands stóraukist, og fólk kýs fremur að fara með skipum, sem eru fljót í ferðum og hafa fáa viðkomustaði, heldur en strandferðaskipi, sem verður að eltast við hverja smáhöfn.

Jeg get ekki búist við, að nein veruleg breyting verði á þessu, þótt skipin verði tvö. Nú er svo ástatt, að þótt Esja fari með 100–200 farþega af stað úr Reykjavík á leið vestur um land, eru ekki nema 20–30 eftir er hún yfirgefur Breiðafjörð. Þegar bílvegur er kominn á milli Norðurlands og Suðurlands, fækkar efalaust farþegum að miklum mun. Má að vísu segja, að vegur þessi verði ekki fær á öllum tímum árs, en vegamálastjóri telur Holtavörðuheiði færa 6–8 mánuði ársins, og það eru einmitt þeir mánuðir, sem mestar mannaferðir eru, nefnilega frá maí og fram í október.

Jeg er fyrir mitt leyti sannfærður um, að þörf Hornafjarðar og Austfjarða er betur borgið á þann hátt, að hafa lítið en vel útbúið skip, sem annaðist strandferðirnar á þessu svæði. Mjer finst, að mörgum hætti til að gera of mikið úr kæliflutningi matvæla hafna á milli; að vísu mun vera talsvert af laxi, einkum í Húnavatnssýslum, sem hægt væri að selja í Reykjavík, en það má eins vel flytja þessa vöru með bílum innan skams.

Nú sem stendur er aðeins eitthvað lítið til af nautakjöti, sem hægt er að miðla öðrum, til dæmis Reykjavíkurbúum. Víðast hvar eru líka markaðir miklu nær. En úti um land er það sauðfjárræktin, sem borgar sig best, en skipið yrði varla notað til þess að flytja sauðakjöt. Enda er það svo, að austursýslurnar og Borgarfjörður fullnægja alveg þörf Reykjavíkur í því efni. Jeg er sannfærður um, að með bættum samgöngum á milli Reykjavíkur og austursýslnanna eykst nautgriparækt á Suðurlandsundirlendinu, en nautgriparækt er arðvænlegasta kvikfjárræktin þar og ódýrara að framleiða þessa vöru þar en annarsstaðar á landinu.

Það hefir í þessu sambandi jafnan verið minst á lögin frá 1913. Ýms lög hafa verið samþykt á ýmsum tímum, sem ekki hafa komið til framkvæmda, bæði af því, að ekki var fje fyrir hendi, og af því, að seinni tíminn hefir sjeð, að lögin voru ekki hentug. En 1913 var lögleidd heimild fyrir ríkisstjórnina til að leggja 400 þús. kr. í Eimskipafjelag Íslands, gegn því, að fjelagið skaffaði landsmönnum tvö strandferðaskip og hjeldi þeim úti. En fjelagið vildi þetta. ekki, og samningar fórust fyrir. Jeg hygg, að allir hv. dm. mundu fúslega vilja ganga að því að láta Eimskipafjelagið nú fá 300 þús. kr., ef það vildi byggja nýtt skip. Og jeg held, að allir, sem til þekkja, vildu hreint og beint gefa fjelaginu Esju.

Nú sem stendur eru svo margar og miklar framkvæmdir, sem bíða úrlausnar, að ekki er sýnilegt, að við getum lagt fram úr ríkissjóði nokkurt fje næstu árin, en jafnvel þó að við tækjum lán, sem yrði að vera, ef í byggingu væri ráðist, þá gerir hinn gífurlegi árlegi rekstrarhalli það ekki fýsilegt, meðan bráðnauðsynlegustu framkvæmdir bíða úrlausnar.

Þeir, sem búa við Húnaflóa og Skagafjörð, munu fremur kjósa bættar samgöngur á landi, til dæmis bílveg, en nýtt strandferðaskip, enda sagði hv. frsm. minni hl., að hann mundi ekki leggja kapp á, að úr þessu yrði á þessu ári, og jafnvel ekki næsta ári heldur. Jeg verð að segja, að jeg sje ekki, hvaða nauðsyn knýr það fram nú, að heimta heimild handa stjórninni til framkvæmda í þessu efni. Það er vitanlegt, að við getum ekki, svo neinu nemi, dregið úr flóabátastyrknum, þrátt fyrir þessa viðbót strandferða. Það mætti kannske taka 5–7 þús. kr. af Hornafirði, eða það, sem hefir verið varið síðustu árin til flutningaferða milli Hornafjarðar og Austfjarða. En það þyrfti eftir sem áður að borga innanhjeraðsferðir í Öræfi, Lón og Borgarhöfn. Um Eyfirðinga er það að segja, að þeir vilja alveg leggja niður viðkomur Esju á Eyjafirði. — Þeir segja, að þær sjeu til einskis gagns, en aftur á móti óska þeir eftir flóabátum. Um Ísafjörð, Borgarnes og Skaftafellssýslur ætla jeg ekki að tala. Til þeirra báta fara nú um 80% af öllum gjöldum til flóabáta, og ekkert af því fje er hægt að spara.