07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2669 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

15. mál, strandferðaskip

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það gegnir furðu, að þingmaður þess hjeraðs, sem verður að hafa einhvern dýrasta flóabátinn og sem verður að styrkja á hverju ári, skuli ekki vera ánægður með þá hjálp, heldur vilja sporna við því, að önnur hjeruð fái samskonar hjálp. Þrátt fyrir hinar marglofuðu framfarir hjer á landi, er sannleikurinn sá, að nú eru strandferðir verri en þær voru um aldamót, þegar hjer gengu tvö dönsk skip. Þetta ástand er að kenna hreppapólitík og þröngsýni Íhaldsflokksins í þessu máli. Þegar Esja var bygð, var töluverður reipdráttur á milli flokkanna, því að formaður Íhaldsflokksins, hv. 3. landsk., hjelt því fram, að á skipinu ætti að vera lítið farþegarúm — aðeins fyrsta farrými, lítið annað farrými, og svo lestarrúm fyrir almenning. Það vildi svo til, að Íhaldsflokkurinn gat ekki ráðið þessu. Þeir, sem rjeðu byggingu skipsins, vildu ekki þola það, að megnið af fólkinu væri flutt í lest. Fyr en við Íslendingar erum búnir að útrýma slíkum lestarflutningi, getum við alls ekki talist til siðaðra þjóða.

Þær upplýsingar, sem hv. minni hl. nefndarinnar hefir fengið frá forstjóra Eimskipafjelagsins, myndu leiða þingið út á villigötur, ef eftir þeim væri farið. Þó að Emil Nielsen sje mjög mikilhæfur maður í sinni stöðu, skjátlast honum um þarfir smáhafnanna, þegar hann vill hafa hið nýja skip eins stórt og Esju, því að það er vitanlegt, að Esja er of stór fyrir hinar smærri hafnir. Hugsun stjfrv. er sú, að byggja eigi nýtt skip minna en Esju, en þó nógu sterkt til þess að þola sjóana hjer við land, nema aðeins í svartasta skammdeginu. Ennfremur á í því að vera kælirúm, til þess að koma afurðum á innlendan markað, eða þá áleiðis til útlanda.

Jeg vil skjóta því til hv. þm. N.-Ísf., hvílíkar framfarir hafa orðið í kjördæmi hans, síðan samgöngubætur komust í framkvæmd. Nú geta bændur þar komið afurðum sínum til sjóþorpanna. Jeg skal nefna nokkur hjeruð, til þess að sýna, hversu mikið ranglæti það er að fella frv. Í Austur-Skaftafellssýslu er höfnin svo grunn og innsiglingin svo þröng, að erfitt er að koma Esju þangað inn. Þessi sýsla fær tvær til þrjár Esju-viðkomur á ári, eitt skip til útlanda og nokkrar mótorbátaferðir. Þetta eru allar samgöngurnar. Hvernig eiga að verða landbúnaðarframfarir á slíkum stað? Hvernig eiga menn að koma afurðunum frá sjer? Jeg hygg, að hv. þm. N.-Ísf. hafi farið um Austur-Skaftafellssýslu. Hann veit það eflaust, að upp frá Hornafirði er eitthvert besta ræktunarland á öllu Íslandi. Þar mætti rækta mörg þúsund dagsláttur. En samgöngurnar vantar.

Suður-Múlasýslu er líkt farið og Norður-Ísafjarðarsýslu. Þar er erfitt að leggja vegi, vegna þess hve þar er sæbratt. Esja kemur þangað einu sinni eða tvisvar á mánuði. Þar er mjög erfitt að ferðast á landi og samgöngur í herfilegu ólagi. Sama er að segja um Norður-Múlasýslu. Þar er mjög erfitt að komast á milli, nema á sjó, en þá er ekki til að dreifa öðru en hinum strjálu Esjuferðum. Í NorðurÞingeyjarsýslu koma Eimskipafjelagsskipin við, en þá vantar alveg kælirúm. Í Suður-Þingeyjarsýslu og Húnavatnssýslu er mikið um laxveiði. En hvaða gagn er að því, þegar ómögulegt er að koma laxinum á markað? Þingeyrar, sem eru einhver besta jörðin á landinu, eru óseljanlegar af því að samgöngur eru svo illar, að laxinn verður að litlu. Allur þorri norðlenskra bænda vill beita sjer fyrir því, að nýtt strandferðaskip verði bygt.

Þá kem jeg að Strandasýslu. Hún er sundurskorin af fjöllum og fjörðum og samgöngur á landi eru þar afar erfiðar. Þar heimtar fólkið strandferðaskip. Sjálfur þingmaður N.-Ísf. heldur því fram, að Norður-Ísfirðingar vilji ekki fá nýtt skip. Kjósendur hans láta sjer kannske nægja hinn afardýra bát, sem þeir hafa, en samt sem áður mundi það hafa mikla þýðingu fyrir þá, ef þeir gætu komið nýju fiskmeti á markað. Jeg dreg það ekki í efa, að ef þeim yrði flutt málið rjett, mundu þeir vera með því. Í Vestur-Ísafjarðarsýslu leggja menn mikla áherslu á að fá strandferðaskip. Breiðifjörður gengur næst Austur-Skaftafellssýslu með slæmar samgöngur. Dalasýsla og Barðastrandarsýsla eru afarilla settar og verða það, þangað til nýtt strandferðaskip kemur. Fyrir fáum árum var sagt, að Dalasýsla hefði orðið að borga 20 þús. kr. í aukafarmgjöld á vörum sínum. Fyrst voru þær fluttar til Reykjavíkur, og þaðan til Stykkishólms og loks til Hvammsfjarðar og Gilsfjarðar. Það er sorglegt tákn tímanna, að svo merkur maður sem hv. þm. Barð. Skuli hafa barist gegn þessu frá byrjun. Jeg vona, að hv. þm. Dal. sjái, að það er sannarlega full þörf á því, að nú verði bætt úr þeirri vanrækslu, sem átt hefir sjer stað í þessu efni.

Menn skyldu ætla, að Snæfellsnessýsla væri vel sett að því er samgöngur snertir, og hún er það að sumu leyti. En í sumar sögðu mjer bændur sunnan til á Snæfellsnesinu, að sumar jarðirnar lægju blátt áfram í eyði vegna samgönguleysis. Þeir sögðu mjer meðal annars, að það gæti kostað 5 krónur að fá sementstunnu flutta frá Reykjavík. Það hefir komið til mín sama sem sendinefnd, til þess að kvarta undan þessu. Það var presturinn í Staðarsveit, sem útmálaði fyrir mjer, hversu hörmulega menn þar vestra væru settir vegna samgönguleysis. Hið fyrirhugaða strandferðaskip er járnbraut hinna dreifðu bygða úti um landið.

Það er vel og viturlega ráðið hjá háttv. þm. Árn., að þeir hafa jafnan fylgt þessu máli. Þeir hafa skilið, að þá fyrst er hægt að skilja þeirra þörf, þegar þeir hafa skilið þörf annara. Þetta strandferðaskip verður að ganga. fyrir öllum öðrum samgöngum. Svo brýn er þörfin fyrir það í nálega öllum sýslum landsins. Það er ætlast til, að skipið verði minna en Esja og ekki eins hraðskreitt, til þess að það eyði minni kolum. Farþegarúm yrði í skipinu fyrir 30 manns. Það ætti að fara hægar hringferðir um landið og koma í hvert sinn á Hornafjörð og Breiðafjörð og 3–4 staði norðan við hann, svo að það gæti lyft Barðastrandarsýslu úr þeim dvala, sem hún hefir legið í undanfarin ár. Það er hyggja mín, að með þessu móti mundu strandferðirnar bera sig betur en hingað til hefir orðið. Hið nýja skip flytti alla þungavöru, en Esja annaðist fólksflutning. Þannig yrði þessi breyting liður í óhjákvæmilegum framkvæmdum um póstflutning. Enn er eitt, sem mundi breytast til mikilla bóta. Nú sem stendur er nærri ómögulegt að flytja lifandi pening með ströndum fram, því að hann er ekki tekinn á skipin. Ef þetta frv. verður samþ., er sjálfsagt að búa svo um, að hægt verði að flytja lifandi pening með Esju. Það er auðvelt, þegar hún er orðin laus við að flytja þungavöru.

Í þjóðlegum efnum er líka stigið stórt spor í framfaraátt með þessu frv. Nú eru það útlend fjelög, norsk og dönsk, sem fleyta rjómann ofan af mannflutningum hjer við land. Jeg vil beina því til þeirra manna, sem telja sig þjóðlega, að hjer er gott tækifæri til þess að styðja að okkar sjálfsbjörg. Meiri parturinn af ferðalagi manna hjer á landi gæti orðið með eimskipum ríkissjóðs eða Esju.

Að síðustu vil jeg skjóta því fram, af því að jeg býst ekki við að tala oftar í þessu máli, að stjórnin hefir sjeð úrræði til þess að útvega peninga með mjög vægum kjörum, ef þingið samþykkir þetta frv. Ef áhersla er lögð á að hafa skipið sterkt og einfalt, og minna er eytt í farþegaútbúnað og því um líkt en gert er ráð fyrir í tillögum forstöðumanns Eimskipafjelagsins, mundi það ekki kosta meira en 400 þús. kr. Það stendur því ekki á öðru en því, hvort þingið vill leysa þetta mál. Annars verðum við að halda þeim samgöngum, sem við höfum nú, erlendum gróðafjelögum til gagns og ánægju.