17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Jeg get verið fáorður. Þeir hv. þm., sem talað hafa á undan mjer, eru nú búnir að tala flesta út úr salnum, svo það er yfir tómum sætum að tala.

Jeg ætla samt að víkja fáum orðum að hv. frsm. meiri hl. samgmn. Hann virtist leggja aðaláhersluna á það að sanna, að mannflutningar Esju hafi borgað sig illa. Þar er jeg á annari skoðun, og svo er einnig um framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins. En það, að dregið hefir úr tekjunum af þeim, stafar af öðru. Framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins hefir tjáð mjer, að það, sem mest hafi dregið úr fólksflutningum Esju, sje það, að skipinu var hleypt inn á fleiri hafnir en stóðu á áætlun. Varð það óvinsælt, og tók svo fólk smámsaman að gera ráð fyrir því, að skipið kæmi við á öðrum höfnum en þeim, sem í áætlun stóðu, og niðurstaðan varð, að það fjekk sjer far með öðrum skipum, sem trygðu betur fljótar ferðir. — Tekjur skipsins voru fyrst í stað meiri af fólksflutningunum en vöruflutningi, og ennþá eru nettótekjurnar meiri af þeirri grein en vöruflutningnum. Skipið verður að dvelja 3–4 tíma á hverri höfn til að losa vörur, en fólkið er hægt að flytja um borð og frá borði á hálftíma. Útgerð skipsins kostar 1000–200 kr. á sólarhring, og er það því mikið fje, sem tafir skipsins á höfn kosta. Jeg vil benda á, að það, sem fyrir mjer vakir með nýja skipinu, er þó ekki aðallega nauðsyn á bættum fólksflutningum. En jeg vil, að skipið nái í fólksflutninginn, til þess að rekstur þess verði hagkvæmari. En vöruflutningarnir skifta mestu máli hvað þörf snertir. Í framtíðinni er það sjálfsagt, að vjer tökum alla mannflutninga með ströndum fram í vorar hendur. Erlendum skipum á ekki að vera leyfilegt að taka þá að sjer að neinu leyti. Þetta er svo alstaðar annarsstaðar en hjer á landi. Því viljum við leggja kapp á að útbúa nýja skipið svo, að það geti tekið fólksflutning að sjer á sínum tíma. Rekstur skipsins verður þá einnig hagkvæmari og meiri líkur fyrir, að skipið geti borið sig. Ef Íslendingar hugsa sjer að annast sjálfir allan fólksflutning með ströndum fram, þá er það því aðeins hægt, að svipað fyrirkomulag sje haft og það, sem nefndin leggur til.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að svo mikið lægi nú fyrir, sem gera þyrfti, að ómögulegt væri að ráðast í byggingu skipsins nú. En það hygg jeg, að mörg ár líði þangað til ekki er hægt að finna neitt, sem þörf sje að framkvæma, og mundi því verða að bíða lengi eftir nýju strandferðaskipi, ef farið væri að hans ráðum.

Afstaða hv. 2. þm. Rang. til þessa frv. minnir mig á bónda einn í Borgarfirði. Þegar verið var að hrósa náttúrufegurðinni í kringum hann, svaraði hann, að þar væri fallegt, þegar vel veiddist. Eins fer honum; honum líkar vel, þegar vel gengur að krækja í peninga ríkissjóðs handa kjördæmi hans. Ef sjeð er fyrir þörfum Rangvellinga, lætur hann sjer fátt um finnast, þótt önnur hjeruð líði tjón af samgönguleysi. Þau hverfa fyrir ljómanum, sem stafar af gæðum þeim, sem ríkissjóður á að draga úr skauti Suðurlandsundirlendisins. En það munu allir sjá, að ekki gengur að hugsa einungis um samgöngubætur handa einstökum hjeruðum, heldur verður í því efni að hugsa um þarfir alls landsins jafnt, og þótt það kosti fje, má það ekki undir höfuð leggjast. Ef hægt er að fá lán til að byggja strandferðaskip fyrir, þá er sjálfsagt að gera það. En hinsvegar viljum við ekki leggja kapp á að byggja það í ár, ef lán fæst ekki og það verður til að setja tekjuhalla á fjárlögin. En nú hefir verið bent á það, að líklegt væri, að lán fengist, og er þá sjálfsagt að taka það og framkvæma verkið svo fljótt sem ástæður virðast til.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ef setja ætti kælirúm í Esju, þá yrði að taka til þess afturlestina; yrði þá ekki hægt að sigla skipinu, því það mundi steypast á annan endann. En hv. þm. hefði getað snarað sjer þessa lýsingu, því það liggur alls ekki fyrir að tala, um að setja kælirúm í Esju, og hefir engum dottið í hug. Hjer er verið að tala um nýtt skip, og trúi jeg því illa, að framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins sje svo þunnur, að hann hugsi sjer að koma upp skipi, sem altaf sje á öðrum endanum! Hann hefir hugsað sjer fyrirkomulagið og vafalaust sjeð um, að þar rekist ekki hvað á annað, og mun hvorki jeg nje frsm. meiri hl. geta með rökum bent á skekkjur í útreikningum hans.

Jeg vil enn taka það fram, sem jeg hefi áður sagt, til að undirstrika orð hv. frsm. meiri hl., að nefndin er óklofin um fyrirkomulag skipsins. Það hlýtur að reka að því von bráðar, að kröfur komi um svipað fyrirkomulag og við leggjum til, að tekið sje upp strax. Ef við bindum okkur við þetta, þá rís ekki spurning um það, hvað sitja skuli fyrir, því við getum gert hvorttveggja, ef lán fæst. Jeg hefi áður minst á frv., sem jeg ber fram hjer í þingi og á að verða til þess að gera það mögulegt að ráðast í slíkar framkvæmdir. Hvernig sem með þetta strandferðamál fer, þá vona jeg, að það mál nál fram að ganga og að næsta þing megi leiða þetta til lykta á hagkvæman hátt.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í einstök atriði þessa máls. Það er búið að ræða það mikið, og jeg býst við, að flestir hv. þm. sjeu búnir að ráða það við sig, hvernig þeir greiði atkvæði.