17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

15. mál, strandferðaskip

Sveinn Ólafsson:

Það er samviskusök að lengja mikið umræðurnar úr þessu. Jeg mun því að miklu leyti láta það niður falla að andmæla þeim, sem talað hafa á móti frv., en jeg kemst þó ekki hjá því að minna á ýmislegt, sem ekki hefir komið fram í þessum umræðum, þó að það hafi komið fram á þinginu í fyrra.

Það er eitt atriði, sem mælir mjög með byggingu nýs strandferðaskips. Hjer hefir í 4–5 ár aðeins verið eitt skip í förum. Það má teljast happ mikið, að því skuli aldrei hafa hlekst á. Það hefir að vísu haldið kyrru fyrir veðurhörðustu mánuði ársins, og hefir það að ýmsu leyti komið sjer illa, en það hefir sem sagt aldrei heltst úr ferðum.

Því verður ekki neitað, að það er mjög ótryggilega um búið að hafa ekki nema eitt skip á að byggja. Allir sjá, hversu illa, það hlýtur að koma við landsbúa, ef þessu eina skipi skyldi hlekkjast á. Um lengri eða skemri tíma mundu niður falla póstgöngur og flutningar ýmsir, en af því hlytust mikil óþægindi og jafnvel beint tjón. Að öðrum bræði er mikil áhersla, lögð á það, að kostnaður við byggingu skipsins yrði svo mikill, að ekki væri viðlit að leggja út í slíkt. Þegar litið er á álit minni hl. nefndarinnar og till. hans um byggingu skips á stærð við Esju, verður þetta líklegra, en því er haldið fram, bæði af minni hl. nefndarinnar og öðrum, að áætlun sú, sem áður hefir verið gerð um byggingarkostnað minna skips, mundi vera of lág. Jeg skal þess vegna leyfa mjer að lesa upp úr brjefi frá Emil Nielsen framkvæmdarstjóra skýrslu um það, hvað hann taldi árið 1926, að 500 tn. skip með kælirúmi og útbúnaði eins og frv. greinir mundi kosta, en síðan hefir sá kostnaður þó lækkað. Hann taldi þá, að slíkt skip mundi kosta 489700 kr., og hann tekur það fram berum orðum, að kæliútbúnaðurinn einn kosti 15 þús. danskar kr., eða 17700 íslenskar. Þetta er langt fyrir neðan þá áætlun, sem nú er gerð. En hjer er að vísu um minna skip að ræða. Jeg skal ekkert hafa á móti því, að skipið verði haft nokkru stærra en upphaflega var ætlast til, en jeg álít hentugra að hafa lítið skip. Sumpart er það ódýrara, og auk þess er það miklu hagkvæmara fyrir þær hafnir, sem torsóttar eru vegna þrengsla eða grynninga. Þá er og nauðsynlegt að greina vöruflutninga frá póst- og mannflutningum, eins og gert er annarsstaðar, og fyrir mörgum áratugum hjá frændum okkar Norðmönnum. — Mjer fanst jeg verða að taka þetta fram, til þess að það kæmi ljóslega fram í umr.

Jeg hefði gjarnan viljað svara þeim, sem hafa lagt á móti frv., nokkrum orðum. Það kom fram ýmislegt í þeirra ræðum, sem orkar tvímælis, að rjett sje. En jeg ætla aðeins að drepa á það helsta.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að mikill meiri hl. landsmanna nyti ekki góðs af auknum strandferðum, heldur miklu fremur af auknum samgöngum á landi. Nú búa 65% landsmanna í kaupstöðum og sjávarþorpum og auk þess fjölda margir í námunda við þau. Allir þessir menn hljóta á einhvern hátt að hafa gagn af auknum strandferðum, og hinir fara ekki heldur á mis við þær. Fullyrðingar hans um þetta eru því alveg þýðingarlausar og ekki til annars en að varpa sandi í augu manna.

Út af einni af ástæðunum, sem jeg færði fram fyrir því, að byggingu skipsins skyldi lokið fyrir 1930, sagði hv. frsm. meiri hl., að fólkið mundi allra helst kjósa bíla. Það getur verið, að það kjósi helst bíla. En það er ekki nóg. Hvernig ætlar hv. þm. að flytja fólk í bílum vestan af Vestfjarðakjálka eða austan af Austfjörðum 1930?

Þá sagði hv. þm. nokkuð, sem mjer þótti mjög einkennilegt. Hann færði það fram sem mikilsverða ástæðu sínum málstað til stuðnings, að þeir, sem ferðast á sjó, sjeu styrktir til þeirra ferða, því að rekstrarhalli skipanna ætti í raun og veru að greiðast af þeim. En eru þeir, sem ferðast á landi, þá ekki líka styrktir? Kosta þá vegirnir ekkert? Ef nokkurt vit er í því að tala um styrk til þeirra, sem ferðast á sjó, verður um leið að minnast á styrk vegna veganna á landi. Jeg nefni þetta til þess að sýna, hvað menn gera sjer títt um að draga inn í umr. um þetta mál það, sem alls ekki kemur því við og er jafnvel hrein og bein fjarstæða.

Eina setningu hjá hv. frsm. minni hl. ætla jeg að leyfa mjer að leiðrjetta. Hann sagði, að skip eins og Esja kostaði 1–2 þús. kr. á dag. Þetta er mjög ónákvæmlega til tekið og getur vilt skilning manna. Fyrir 3 árum lá fyrir nákvæm skýrsla um þetta, og samkv. henni var kostnaðurinn við rekstur Esju 1250 kr. á sólarhring. Hann hefir lækkað síðan og er nú sennilega hjer um bil 10–11 hundr. kr. Jeg hefi að vísu ekki spurst nákvæmlega fyrir um þetta á síðasta ári, en veit, að þetta lætur mjög nærri.

Það var rjettilega tekið fram af hv. frsm. — og jeg hefi tekið það fram áður —, að rekstrarhalli Esju er bein afleiðing af vöruflutningum og umhleðslu á smáhöfnum. Fyrir þá skuld er nauðsynlegt að hafa ódýrt skip til að annast þá flutninga. Þeir eru ætíð kostnaðarsamir og borga sig aldrei, þrátt fyrir þann ¼ af farmgjaldi millilandaskipanna, sem strandskipin fá.

Jeg skal taka það fram að lokum, að jeg mun greiða atkvæði með frv. stjórnarinnar á þskj. 15. Jeg sje enga bragarbót fengna með till. hv. minni hl. nefndarinnar. Þó tel jeg miklu nær sanni að ganga að því en að láta sitja við það sem er.