20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2714 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg þurfti að svara háttv. frsm. minni hl. nokkrum orðum. Hann taldi, að vöruflutningarnir með Esju myndu auka á rekstrarhallann, því að oftast væri það svo, að skipið stæði við 3–4 klukkutíma á hverri höfn til þess að ferma og afferma vörurnar. En þetta er ekki svo, eftir því sem framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins segir. Hann telur ekki, að vöruflutningarnir tefji skipið svo neinu nemi; viðstaðan sje vanalega 1–2 klukkustundir á smáhöfnum og 3 klukkustundir á aðalhöfnum, og styttri verði viðstaðan ekki, þó skipið taki eingöngu póst og farþega. Og þegar maður svo lítur á það, að 3/5 af tekjum skipsins er fyrir vöruflutninga, þá er augljóst, að rekstrarhallinn yrði miklu meiri, ef þeir væru feldir niður. Annars vissi jeg ekki annað en allir nefndarmenn samgmn. væru mótfallnir því að hafa eitt skip til vöruflutninga og annað til póst- og mannflutninga. Jeg vona, að þessi veðrabrigði sjeu ekki fyrirboði þess, að hann sje á leið að „lensa“ frá fyrri skoðun.

Framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins heldur því fram, að meira náist af fólksflutningi, ef skipin eru tvö og hafa bæði sæmileg farrými, en hann fullyrðir jafnframt, að tekjurnar af hinum auknu fólksflutningum myndu ekki vega á móti því, ef vöruflutningunum væri slept. Það hlýtur að vera misskilningur, er hv. frsm. minni hl. hefir það eftir framkvæmdarstjóranum, að hægt myndi að reka strandferðaskip tekjuhallalaust, eða því sem næst, ef skipin væru tvö.

Hv. frsm. minni hl. vildi ekki láta ráðast í smíði strandferðaskipsins, ef fje væri ekki afgangs í fjárlögum, og taldi lítt fært að taka lán til þess. Með þessu er þá loku fyrir skotið, að hægt sje að byggja skipið, og líklegt, að það dragist um ófyrirsjáanlegan tíma.

Vitanlega má deila um það, hvað hagkvæmt sje í þessu efni, enda lítur meiri hl. svo á, að hægt sje að svo stöddu að hlíta þeim strandferðum, sem við höfum við að búa. Annars fanst mjer óbeinlínis skína út úr ræðu hv. frsm. minni hl., að hann væri farinn að slá af þeim kröfum, sem fram komu í nál. á þskj. 248, þegar hann sagði, að vilji hæstv. stj. og minni hl. væri hinn sami. Nú er vilji hæstv. stjórnar og hv. minni hl. hinn sami að því leyti, að báðir þessir aðiljar vilja hrinda málinu í framkvæmd nú þegar. Hinsvegar fara þessir aðiljar hvor í sína áttina í till. sínum um framkvæmd málsins. Jeg hjelt ekki, að hv. frsm. minni hl. mundi vilja ráða til framkvæmda í málinu, ef þær væru bygðar á alveg skökkum grundvelli að hans áliti. En það virðist nú fram komið, þar sem hann nú fellur frá því, sem var aðalatriðið, að skipið skyldi vera af líkri gerð og Esja. Það var aðalatriðið, því að á því voru einna helst reistar vonir bæði meiri og minni hl. um, að rekstrarhallinn yrði minni.

Jeg ætla ekki að ræða hjer um frv. hv. þm. V.-Húnv. um að skattleggja ferðalög manna innanlands. Með þessu vildi hann auka tekjur ríkissjóðs, en það getur á engan hátt staðið í sambandi við þetta mál, enda auðvelt að finna einhverja heppilegri leið til þess að afla ríkissjóði fjár.

Hv. 4. þm. Reykv. vildi efast um, að jeg hefði skýrt rjett frá við 1. umr. þessa máls, er jeg sagði, að í Noregi tíðkaðist það enn, að fólk væri flutt í lestum farþegaskipanna með ströndum fram. En hjer eru nú tveir Norðmenn staddir, sem jeg hefi spurt um þetta. Báðir hafa þeir ferðast mikið fram og aftur með ströndum Noregs og annar þeirra t. d. ferðast oft til Finnmerkur og Lofoten, og þeir segja mjer, að þar hafi lögreglustjórar heimild til að veita undanþágur um þá tölu farþega, sem skipunum er ætlað að flytja, og er það gert með því skilyrði, að bjarghringar sjeu í skipunum handa hverjum einasta farþega.

Sami hv. þm. gat þess, að jeg væri á móti þessu af því, að jeg væri andvígur ríkisrekstri yfir höfuð. Jeg skal játa, að jeg tel heppilegra, að Eimskipafjelag Íslands tæki að sjer rekstur þessara ferða heldur en að ríkissjóður væri að vasast í því. Þetta fjelag er þjóðareign og hefir þegar mikinn strandflutning í sínum höndum, þar sem það annast mikinn hluta bæði af vöru- og fólksflutningi kringum alt land. Hinsvegar er þess að gæta, að þegar halda á uppi samgöngum, sem gefa ekki annað en tap, þá verður ekki hjá því komist, að ríkið beri kostnaðinn. Og ef ekki er hægt að ná samkomulagi við Eimskipafjelagið, sem jeg hygg að verði erfitt eins og stendur, þó að ekki sje það með öllu útilokað, þá verður ríkissjóður að taka strandferðirnar í sínar hendur.

Erlendis er samgöngum háttað svo, t. d. járnbrautunum, að þær eru ýmist ríkiseign eða einstakir menn og fjelög, sem eiga þær og reka. Í Danmörku eru flestar járnbrautir eign ríkisins og reknar af því, en í Englandi eru það einstakir menn eða fjelög, sem eiga járnbrautirnar, og reynslan er sú, að það verður dýrara að ferðast með járnbrautunum í Danmörku en í Englandi. Það má vel vera, að þetta stafi af því, að meira er ferðast með einkabrautunum en þeim, sem ríkið á og rekur. En hitt er líka víst, að ríkisbrautirnar eru víðast hvar reknar með talsverðum tekjuhalla, og í Danmörku hefir sá rekstrarhalli numið allmiklu t. d. síðastliðið ár.

Þá vildi hv. sami þm. draga mjög í efa það, sem haldið er fram í nál. meiri hl., að bifreiðarnar mundu, er stundir líða og vegasambandið er komið í gott horf, taka að sjer mannflutninga til Norðurlands; honum þótti líklegra, að fólkið mundi fremur kjósa að ferðast þá leið með skipum, af því að þar gæti það haft meiri þunga eða flutning í fari sínu. En nú er mjög sennilegt, að þegar stórar vöruflutningabifreiðar fara að þjóta milli landsfjórðunga, að fargjaldið verði mun ódýrara en með skipi, og tekur ferðin þó miklu skemri tíma. Að vísu verður ekki hægt að ferðast með bifreið hjeðan og norður á land á hvaða tíma sem er. En vegamálastjóri álítur, að á mestu annatímunum mundi hægt að halda uppi þessum landferðum milli hjeraðanna, og sjerstaklega þá vegna fólks, sem er í atvinnuleit, enda hlýtur það að verða mun hægra fyrir verkafólk að komast á þann hátt út til sveitanna.

Hv. 4. þm. Reykv. mintist lítilsháttar á flugferðir og taldi sennilegt, að þær mundu verða álitlegur liður í samgöngum okkar áður en mörg ár líða. Jeg get líka verið honum sammála um það, að jeg hygg, að flugferðir muni ljetta undir um póstflutning, og jafnvel eitthvað fyrir mannflutningum innan mjög margra ára. En vegirnir verða samt sem áður nauðsynlegir, og þá verður að bæta og lengja vegna innanhjeraðssamgangnanna.

Að jeg hafi talið strandferðirnar nægilegar sem stendur, er misskilningur. En hinu hefi jeg haldið fram, að ýmsar aðrar þarfir væru meira aðkallandi en bygging nýs strandferðaskips.

Þegar talað er um strandferðir yfir höfuð, þá verður að gæta þess, að nú ganga mikið fleiri og betri skip með ströndum fram og taka upp að meira eða minna leyti flestar hafnir á landinu. Það er því á misskilningi bygt, ef menn halda, að viðkomustaðir skipa sjeu ekki fleiri nú en áður, á meðan hjer voru tvö strandferðaskip. Að vísa til þingmálafundagerða í þessu efni, er nú svo og svo. Jeg held, að að þessu sinni liggi aðeins fyrir þingmálafundargerðir úr 4 hjeruðum, þar sem þess er óskað, að nýtt strandferðaskip verði bygt. Og þetta er ekki nema eðlilegt, af því að það eru svo fá hjeruð, sem hafa not af því.

Annars vil jeg endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt, að þeir, sem orðið hafa til þess að andmæla mjer, hafa ekki reynt að hrekja það, sem haldið er fram í nál. okkar meiri hl. á þskj. 335, að vegna þess, að margar þarfir í samgöngumálum okkar eru meira aðkallandi, þá eigi að fresta smíði þessa skips fyrst um sinn.

Væru nógir peningar til og auðvelt að afla ríkissjóði tekna án þess að íþyngja þegnum landsins eða vinna atvinnufyrirtækjunum tjón, þá væri ekkert að segja og sjálfsagt að ráðast í smíði þessa skips. En jeg held, að flestir viðurkenni, að skattbyrði sú, sem landsmenn standa undir nú, sje það mikil, að á hana sje ekki, bætandi nema í sjerstöku árferði. Eins er það og vitanlegt, að sem stendur er ekkert fje fyrir hendi, og því ljettir á ríkissjóði hvert ár, sem smíði þessa skips dregst, a. m. k. 150–200 þús. kr. útgjöldum á ári.

Hæstv. atvmrh. gat þess, að sjer leiddist að hlýða á umr. um þetta mál. Jeg á nú bágt með að trúa, að hann, sem þetta mál snertir mest, skuli ekki vilja, að það sje ítarlega rökrætt, því að annað hefir ekki verið gert. Þess vegna blöskraði mjer, þegar hæstv. ráðh. leyfði sjer að segja, að honum dytti ekki í hug að eyða tíma eða áreynslu í að rökræða þetta mál. Jeg hefði þó haldið, að hann, sem borið hefir fram frv., mundi síst skorta viljann til þess að færa fram einhver rök fyrir því. Mjer finst það hart og lýsa helst til miklum skorti á ábyrgðartilfinningu hæstv. atvmrh., að rjúka upp og óska, að umr. sje slitið og reyna ekki af hálfu stj. að færa rök fyrir þeim málstað, sem hans eigið frv. flytur. Annars vænti jeg þess, að þeir hv. þdm., sem ekki hafa reynt að mótmæla því, sem stendur í nál. meiri hl. um ýmislegt, sem sje meira aðkallandi og nauðsynlegra en bygging nýs strandferðaskips, geti fallist á að fresta smíði þess að minsta kosti í þetta sinn.