20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2724 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. minni hl. (Hannes Jónsson):

Það er auðsjeð, að frv. þetta á mikil ítök í hugum hv. þm. Það þarf ekki annað en minnast á strandferðaskipið til þess að þá grípi svo mikil ferðalöngun, að þeir sigli með fullum seglum út úr deildinni.

Jeg get lofað því að vera stuttorður um þetta mál, bæði sökum þess, að mál þetta hefir verið þrautrætt áður og að flest af þeim rökum, sem fram hafa komið gegn því, hafa verið hrakin bæði hjer í hv. deild og annarsstaðar, og má vísa til þess. Hv. frsm, meiri hl. hjelt því fram nú í síðustu ræðu sinni, að tekjur af vöruflutningum með strandferðaskipi verði minni en gert er ráð fyrir, og eins að skipin tefjast hvort eð er sáralítið vegna vöruflutninga.

Jeg veit, að háttv. frsm. hlýtur að skilja það, að töfin á einstökum höfnum er aðeins vegna vöruflutninga, því að alt hvað töfin er nokkuð yfir hálftíma, er hún vegna vöruflutninga, en ekki fólksflutnings. (HK: En ef vont er veður?). Jeg held, að skipin mundu tæplega bíða lengi eftir fáum mönnum.

Jeg er hræddur um, að hv. frsm. meiri hl. hafi misskilið eitthvað það, sem jeg hjelt fram um daginn. Það hefir alls ekki vakað fyrir mjer að hverfa frá skoðun minni um gerð skipsins, og meira að segja er jeg ekki viss um, að mikið sje vikið frá því, sem stjórnin leggur til, nema um innra fyrirkomulag. Í stjfrv. er sagt, að skipið skuli vera 400–500 smálestir að stærð, en þess er ekki getið, hverskonar smál. það eigi að vera. Tel jeg sjálfsagt, að átt sje við nettósmálestir, og er þá skipið af svipaðri stærð og Esja, sem er 437 nettósmálestir, en 728 brúttósmálestir. Raunar er þetta ógreinilegt í frv., en úr því er bætt með því að taka það fram, að skipið eigi að vera af svipaðri stærð og Esja. Vil jeg aðeins geta þessa til leiðbeiningar fyrir hv. þm., þegar brtt. okkar við 1. gr. kemur til atkv., og tel jeg sjálfsagt, að hún verði samþ., því að þetta mun hafa vakað fyrir stjórninni. Jeg vík alls ekki frá fyrri skoðun minni, enda tel jeg, eins og framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins, að mikil þörf sje á að fá strandferðaskip með kælirúmi, og hitt atriðið, að fella niður 3. farrými, hygg jeg, að stjórn Eimskipafjelagsins sje mjer einnig sammála um. Hv. frsm. fór að tala um rekstur járnbrauta erlendis, en jeg get ekki sjeð, að það komi þessu máli við að neinu leyti. Jeg hygg, að allir geti komið sjer saman um það, að járnbrautir hjer á landi geti aldrei fullnægt samgönguþörfinni nema fyrir einstök hjeruð. Síðast í ræðu sinni hefir hv. frsm. horfið frá sinni fyrri skoðun, því að hann segir, að skip það, sem við minni hl. leggjum til, að smíðað verði, muni bera sig betur en skip það, sem stjórnin leggur til, að komið verði upp. Sannar hann hjer það, sem minni hl. hefir haldið fram, að fólksflutningurinn muni bera uppi rekstrarkostnað skipsins að miklu leyti. Tel jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, enda munu mönnum vera svo kunnug rökin með og móti, að slíkt væri óþarfi.

Hv. þm. Barð. vildi halda því fram, að framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins teldi strandferðunum sæmilega fyrir komið eins og nú er. (HK: Aðundanskildum Hornafirði). Jeg get sýnt hv. þm. brjef, þar sem framkvæmdarstjórinn heldur því fram, að vjer verðum að taka strandferðirnar alveg í vorar hendur, ef vjer viljum teljast sjálfstæð þjóð. Svo mikla áherslu leggur framkvæmdarstjórinn á, að úr þessu verði bætt. Hv. þm. Barð. fór síðan að trolla í landhelgi Morgunblaðsins eftir rökum sínu máli til stuðnings, en eins og vænta mátti, var þar ekki um auðugan garð að gresja. Þessi rök áttu að sýna, að skoðun mín í þessu máli stangaðist við till. mína í máli, sem jeg hefi borið fram á þingi. Þetta er alls ekki rjett. Þótt jeg telji, að ýms ferðalög fólks sjeu alveg óþörf, þá krefst fólkið að haga sjer eins og því best líkar. Ferðalögin er því ekki hægt að banna, en ef telja má þau algerlega óþörf, má skattleggja þau. Og þó ferðalögin sjeu að engu leyti óþörf, virðist ekki ósanngjarnt, að þeir, sem mest nota samgöngutækin, sem ríkissjóður hefir lagt til og starfrækir, legðu eitthvað fram umfram aðra til eflingar samgöngunum. Þetta hefir verið gert áður og gefist vel. Þannig er lagður skattur á bifreiðar, er að sjálfsögðu gerir ferðalög með þeim dýrari. Bifreiðaskatturinn hefir numið um 40 þús. kr., og er honum varið til viðhalds og aukningar bílfærum vegum.

Annars finn jeg ekki ástæðu til þess að tala um þetta mál frekar, þar sem það er ekki á dagskrá, en það var auðvitað eðlilegt, að mál þetta kæmi hjer við sögu, því að það er spor í áttina að gera það kleift, sem meiri hl. telur, að ekki sje fært eins og nú standa sakir.

Þjóðin væntir þess af fulltrúum sínum, að þeir reyni að finna einhver ráð til þess að koma samgöngumálunum í viðunandi horf; og jeg vona, að ekki líði á löngu þangað til allir, sem ferðast vilja milli hafna hjer við land, geti fengið far með innlendum skipum, en þurfi ekki að leita á náðir erlendra skipafjelaga.