20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2728 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

15. mál, strandferðaskip

Einar Jónsson:

* Jeg vil taka það fram þegar í upphafi, að þau fáu orð, sem jeg ætla að segja, eru frekar utan við dagskrá.

Þótt þannig standi nú á, að varaforseti situr í stóli, þá hygg jeg, að vert væri að minna á það, eins og deildin er þunnskipuð, að þeir, sem vildu tala, ættu að skrifa sínar ræður, í stað þess að tala yfir tómum stólum dag eftir dag og kvöld eftir kvöld. Nú síðustu daga hefir það best komið í ljós, hve þm. mæta óforsvaranlega illa, og eru það aðeins 4–5 menn, sem fá áheyrn meðal hv. þm. Þetta er til einskis gagns, heldur aðeins til þess að lengja umr. sem mest. Vænti jeg þess, að hæstv. forseti verði svo sanngjarn, að hann lýsi yfir því úr forsetastóli, að þess sje æskt, að þm. riti ræður sínar og afhendi þær þingskrifurunum, þar sem það er auðsjeð, að menn tala einungis í þingtíðindin, en ekki til þess að þm. hlýði á ræðurnar. Þetta mun vera orðin tíska frá eldhúsdeginum, þegar umræður stóðu til kl. 8 um morguninn og allir voru fyrir löngu leiðir, og var þó ekkert gagn unnið þá nótt. Hefi jeg aldrei vitað aðra eins tilhögun á þinginu og nú er. Í gær var það þannig, að aðeins var hlustað á einn mann, hv. þm. V.-Ísf., og í dag hefir verið það sama að segja, þá var það aðeins hv. þm. N.-Þ., sem fjekk áheyrn. Jeg vil leyfa mjer að segja hv. deild það, að ef þetta á að ganga svona til oft, þá tek jeg minn hest og ríð heim. Vil jeg leyfa mjer að skora á hæstv. forseta, hvort sem það er aðalforseti eða varaforsetarnir, að áminna þm. um að mæta betur en gert hefir verið undanfarið.

Það undrar mig ekkert, þó að mikið sje talað um þetta mál. En hitt þykir mjer furðulegt, að hv. þm. skuli ekki hlusta á ræðurnar. Sje jeg ekki, að neina þýðingu hafi að halda þinginu áfram með því lagi.

(* Ræðuhandr. óyfirlesið.)