24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2734 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

15. mál, strandferðaskip

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er verið að ræða jarðræktarlögin í Ed., og hefi jeg því ekki tíma til almennra rökræðna við hv. 1. þm. Skagf. um samgöngubætur á sjó og landi. Enda er það útrætt mál, og jeg býst við, að hv. 1. þm. Skagf. þurfi ekki að brýna mig nje aðra framsóknarmenn til þess að stofna til samgöngubóta á landi, svo sem framast er hægt.

Út af fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. vil jeg minna á það, að það er töluverður munur á þessu máli eins og það liggur nú fyrir þinginu og eins og það hefir verið á fyrri þingum, þar sem nú er aðeins um heimildarlög að ræða. (MG: Jeg tók það fram). Um það, hvort þessi heimild verði notuð eða ekki, er það að segja, að stj. er ennþá ekki búin að taka fasta afstöðu til þess. Enda hygg jeg, að jafnvel ekki háttv. 1. þm. Skagf. geti vænst þess, að hún sje þegar búin að taka afstöðu til allra slíkra mála, meðan þau eru enn til umr. í þinginu.

Jeg vil ekkert fullyrða um það, hvort þessi heimild verður notuð, þótt hún verði veitt, en ef það, að athuguðu máli, getur talist fært að ráðast í þessa framkvæmd, þá hefi jeg svo opin augun fyrir nauðsyn hennar, að jeg mun fyrir mitt leyti telja það sjálfsagt. En hinsvegar geta auðvitað komið þeir tímar, að það sje ekki fært vegna fjárhagsaðstöðunnar yfirleitt.

Jeg óska mjög eindregið eftir því að fá þessa heimild, til þess að hægt sje að koma í framkvæmd þessu nauðsynjamáli, svo fljótt sem aðstaða öll verður svo, að stj. telji það forsvaranlegt.