31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi ekki borið fram neinar brtt., sem jeg þarf að mæla með sjerstaklega. En jeg get sagt það, að jeg er hlyntur ýmsum brtt. hv. fjvn., og mun það koma fram í atkvgr. Auðvitað hefði jeg helst óskað, að frv. hefði verið sem minst breytt frá því, er það kom frá stjórninni og var lagt fyrir þingið upphaflega, enda er varla að svo komnu hægt að segja, að breytingar þær, sem gerðar hafa verið, sjeu til bóta. En það ætla jeg, að till. nefndarinnar muni flestar gerðar að vel yfirlögðu ráði.

Hjá því mun naumast fara, að á þann, sem lengi situr undir fjárlagaumræðum, stríði margar og hver annari óskyldar tilfinningar. Annarsvegar er meðvitundin um, að margt af því, sem fram er borið, eigi fullan rjett á sjer og sje sjálfsagt frá sjónarmiði þeirra, sem till. flytja. En á hinn bóginn mega hinar góðu tilfinningar ekki hlaupa með menn í gönur, og þarf að hafa hugann jafnframt á því, hvar taka skuli peningana.

Þessari þjóð hefir löngum verið svo farið, að hún hefir átt meiri framfarahug en efni. Og mikið af brtt. er eflaust sprottið af ríkri framfaraviðleitni, og því erfitt að leggjast í móti þeim. Jeg býst þó við að verða að greiða atkvæði gegn þeim flestum, og ekki síst af því, að ennþá er óvíst um niðurstöðu tekjuaukafrv. þeirra allflestra, sem fram hafa komið í þinginu. Er raunar vandkvæðum bundið að taka afstöðu til hækkunartillagna, fyr en útsjeð er um úrslit þessara frv. Annars furðar mig á þeirra bjartsýni, sem komið hefir fram í hv. Nd. — einkum innan Íhaldsflokksins —, þegar því er haldið fram, að fjárhagsástæðurnar sjeu svo góðar, að ekki sje þörf nýrra tekjuauka. Þessi misskilningur sumra hv. þm. hlýtur að stafa af því, að grundvöllurinn undir athugunum þeirra sje talsvert gallaður. Það virðist líka liggja í augum uppi, að þegar á að gera áætlun um fjárhagsástandið, verður að hafa meðalár til hliðsjónar. Afkoma meðalárs ætti því að vera undirstaða álits þeirra manna, sem telja enga þörf tekjuauka. En meginvilla þeirra liggur í því, að þeir miða við útkomu þriggja síðustu ára. En að rjettu lagi hefði ekki mátt taka árið 1925 með. En af því að tillit er tekið til þess, gera menn sjer of glæsilegar vonir. Jeg skal geta þess, að þegar fjárhagsyfirlitið var gefið í byrjun þings, var ekki að fullu sjeð, hvernig útkoma síðastliðins árs mundi verða. Síðan hefir komið í ljós, að talsverðar upphæðir voru ógreiddar, t. d. vegna berklavarnalaganna og jarðræktarlaganna. En þetta gerir ástandið enn verra en yfirlitið sýndi. Um leið og jeg get þessa, vil jeg vekja athygli á því, að óhjákvæmilegt verður að stofna til talsverðra útgjalda samkvæmt sjerstökum lögum, sem ýmist hafa verið samþ. eða verða væntanlega samþ. á þessu þingi. Vænti jeg, að hv. fjvn. athugi þetta og taki upp í fjárlagafrv. nauðsynlega útgjaldaliði þeirra vegna. Að svo komnu þýðir ekki að telja einstaka liði, meðan ekki er fullvíst, hvað fram nær að ganga. Nú þegar hafa verið teknir upp í fjárlagafrv. útgjaldaliðir samkv. lögum um byggingar- og landnámssjóð, tilbúinn áburð og búfjártryggingar. En margt annað getur komið til greina, t. d. ef ráðist verður í ríkisrekstur útvarps eða bætur á því auma ástandi, sem hegningarhúsið er í og óviðunandi er, að allra dómi. Ekki hefi jeg heldur orðið var við, að neitt tillit sje tekið til framlags ríkissjóðs til Sundhallarinnar. Að þessu athuguðu verð jeg að halda því fram, að varla sjeu horfur á, að svo verði gengið frá fjárlögunum, að afgangur fáist til þess að greiða tekjuhalla síðasta árs. Veit jeg ekki, hvaðan koma ættu tekjur til þess. Það kynni að vera hægt á uppgripaári; en nú eru ekki glæsilegar horfur. Vertíðin hefir gengið treglega, það sem af er, og ekki er útlit fyrir neitt geipiverð á afurðum. Er því naumast hægt að ætla, að þetta ár verði meira en í meðallagi. En gjöldin verða með meira móti, og það þótt ekki sje tekið tillit til óvissra útgjalda árin 1929 og 1930. En æskilegt væri, að fjárlögin yrðu svo úr garði gerð, að hægt yrði að standa straum af þeim útgjöldum án þess að grípa til sjerstakra ráðstafana.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í einstaka liði sjerstaklega. Er þegar búið að minnast á þá flesta af flutningsmönnum, og ræður þeirra hafa ekki gefið tilefni til athugasemda. En eitt vildi jeg þó minnast á, af því að jeg geri ráð fyrir, að hv. frsm. taki til máls á eftir mjer. Jeg vildi spyrja um, á hverju bygðist áætlun nefndarinnar um 3000 kr. rekstrarkostnað handa Kristneshælinu. Hann hlýtur að verða miklu meiri en svo, og held jeg, að ekki þýði að áætla hann undir 10 þús. kr. (JóhJóh: Er áætlun hæstv. ráðherra bygð á samanburði við Vífilsstaði?). Ekki beinlínis, en þetta liggur í augum uppi.

Þá vil jeg geta eins liðs, sem mjer þykir óviðfeldið að lækka, en það er styrkurinn til Páls Ísólfssonar. Nefndin hefir fært hann niður um 1000 kr. Satt að segja finst mjer slíkum listamanni varla bjóðandi lægri upphæð en sú, sem tiltekin var í frv. eins og það kom frá Nd. Þætti mjer fara að vonum, ef þessi brtt. nefndarinnar yrði feld. Svipað hefi jeg að segja um styrkinn til Jóns Ófeigssonar. Jeg hygg, að hann hafi unnið svo mikið starf við orðabókina, að það sje nokkuð hart, ef hann á enga uppbót að fá á þeim launum, sem hann hefir þegar fengið. Finst mjer, að rjettara hefði verið að fella niður styrkinn til orðabókarsjóðsins og verja honum til greiðslu fyrir starf J. Ó. Ætla jeg, að þess muni langt að bíða, að taka þurfi til þess sjóðs. En úr þessu sker atkvgr.

Þess er áður getið, að nefndin hefir hækkað styrkinn til dr. Helga Pjeturss. Ætla jeg, að mörgum muni koma sú ráðstöfun kynlega fyrir sjónir. Sje jeg ekki annað en fullsæmilegt sje að ætla þessum manni 4000 kr. til lífsframfæris árlega af ríkisfje, og enga ástæðu finn jeg til þess að setja hann á föst prófessorslaun hjeðan í frá, en það skilst mjer, að sje ætlun nefndarinnar. Hefði átt betur við að veita honum einhverja upphæð sem ferðastyrk eða þvílíkt. Það er kunnugt, að þessi maður hefir ekki haft tækifæri til að gegna því starfi, sem hann mundi hæfastur til, en um ritstörf hans eru allskiftar skoðanir. Og það hygg jeg, að skoðanir þær, sem hann flytur, sjeu ekki svo mikilsverðar, að ástæða sje til að veita honum mjög aukinn styrk þeirra vegna.

Jeg var búinn að lofa að fara fljótt yfir sögu, og skal því að mestu leyti láta staðar numið.

Hv. þm. Snæf. (HSteins) mælti vel og eindregið með brtt. sínum. Í sjálfu sjer er það ágætt og æskilegt að leggja fram fje til slíkra hafnarbóta, ef hægt er. En mjer virðist ekki liggja fyrir nægar skýrslur um það, hvernig verkinu á að haga og hvort það verður til frambúðar. En alt er verra en ógert, sem ekki er fulltraust. Má vera, að þessar upplýsingar hafi verið lagðar fyrir nefndina eða þær geti nú komið fram. En það mun hafa áhrif á mína afstöðu til þessa máls. Það má ekki koma fyrir, að hafnarvirkjunum sje hætta búin, þótt óveður geysi, og engin hætta vera á því, að þau bili, þegar minst varir. Það komu fram raddir og till. á þingi um að veita fje til hafnarbóta á Sandi. Verkið var unnið, en þá kom það í ljós, að það var lítils virði, því höfnin fyltist af sandi og þara. Það hefði verið gott, að við þessu hefði verið sjeð í fyrstu. Hjer, þar sem náttúruöflin eru svo óviðráðanleg, má ekki veita mikið fje á nokkurn stað, nema áður sje þrautrannsakað, hvort komi að haldi. Það má vera, að þessi uggur minn sje ekki á rökum bygður. En mjer þætti gott að fá upplýsingar um, að þarna væri öllu borgið og að það, sem þarna verður gert, sje unnið að fyrirsögn ábyggilegra, sjerfróðra manna.

Í sambandi við þetta skal jeg minnast á till. frá hv. þm. Ak. (EF) um hafnarbætur á Akureyri. Það væri ekki ólíklegt, að jeg ljeði því máli lið, þar sem jeg er þaðan að ætt og uppruna. En það er nú svona; þegar maður er kominn í slíka stöðu sem þessa, þá færist yfir mann, mjer liggur við að segja einhver keimur af íhaldssemi, sparsemi í fjármálum. Þó mjer væri mikil ánægja í að ljá þessari till. lið, þá treystj jeg mjer ekki til þess, því mjer virðist heldur ógætilega af stað farið. Þó að vonbrigði hafi orðið af starfsemi skips þess, sem dýpka átti höfnina, þá er ekki hægt að krefjast þess, að ríkið taki afleiðingunum af syndum þeirra, sem ekki höfðu búið nægilega um hlutina. Jeg get því ekki mælt með svo háum styrk sem hjer er farið fram á. Jeg vona og, að hafnarsjóður sje svo vel stæður, að hann komist yfir þetta, þó kostnaður hafi orðið meiri en átt hefði og þurft hefði að vera.

Till. sama þm. (EF) um barnaskólabyggingu Akureyrar fer fram á allmikið fje.(EF: Ábyrgð). Já, ábyrgð, og fyrir mitt leyti vil jeg segja það, að ábyrgðir eru það, sem ríkissjóði er hægast að láta í tje, því eins og þar stendur, „silfur og gull á jeg ekki, en hvað jeg hefi, það gef jeg þjer“. Jeg tel því ekki fráleitt að samþykkja þessa ábyrgð. Byggingarinnar er þörf. Ástandið nú er ekki viðunandi.

Jeg hefi þá gert grein fyrir skoðun minni. Það eru allar horfur á, að útgjöldin í fjárlögunum beri tekjurnar ofurliði. Því verð jeg að treysta nefndinni til fyrir 3. umr. að gera sjer ljósa grein fyrir, hvað vænta megi, að tekjurnar verði móts við útgjöldin og athuga sem best, hverju útgjöld samkv. sjerstökum lögum muni nema.