24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

15. mál, strandferðaskip

Magnús Guðmundsson:

Jeg verð að skoða þetta svar hæstv. atvmrh. sem ekkert svar. Hann segist enn ekki hafa athugað málið; sig langi mjög til þess að geta bygt nýtt strandferðaskip, en hvort hann muni fara eftir þeirri miklu löngun sinni, það getur hann ekkert sagt um.

Hann segir, að jeg þurfi ekki að brýna sig til þess að veita fje til samgöngubóta í sveitum, en það er nú einmitt komið á daginn, að það veitti ekki af að brýna hæstv. stj. til þess, og brýningin sýnist hafa dugað vel í þetta skifti, þar sem hæstv. stj. hefir nú gengið inn á skoðun hv. minni hl. fjvn. í þessu máli.

Það eina, sem fjekst út úr hæstv. ráðh., var, að hann vildi ekkert um það fullyrða, hvort heimildin yrði notuð eða ekki. Þetta er hið venjulega svar hjá hæstv. ráðh. Hann kveðst ekki vera búinn að taka afstöðu í nokkru máli, sem hann er um spurður. Hann sagði ekkert um það, hvort hann vildi fresta framkvæmdunum þangað til hann fengi fjárveitingu til þeirra í fjárlögum. Hefði hann lýst yfir því, mundi jeg ekki verða meinsmaður þessa frv. Enda er það öllum ljóst, sem hugsa um samgöngubætur á landi, að með þessu er nokkrum hundruðum þúsunda ráðstafað um ófyrirsjáanlega langan tíma, sem gætu farið til þeirra þarfa, er mest aðkallandi eru.