24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Áður en þessu máli er endanlega lokið, vildi jeg benda á það, að útgjöldin eru áætluð hærri fyrir árið 1929 en árið 1928. Það er víst, að útgjöldin í fjárlögunum eru ½ milj. kr. hærri en fyrir árið 1928. Það er og

vitanlegt, að útgjöldin hækka um alt að ½ milj. kr. samkv. sjerstökum lögum. Alls gerir þetta 900 þús. króna hækkun frá því, sem var 1928. Auk þess koma svo 200–300 þús. kr. árleg útgjöld, ef þetta frv. verður samþ. og stj. notar heimildina.

Það er rjett, að stj., eða öllu heldur leppar hennar hafa komið með tekjuaukafrv., sem nema um einni miljón króna. En nokkuð af þeirri upphæð var skorið niður með brtt. við 25% gengisviðauka á tollvörum, sem samþ. var í gær. En það er stór spurning, hvort atvinnuvegirnir þola þetta. Annarsstaðar er reynt að færa útgjöldin niður; svo hefir verið gert í flestum löndum hin síðari árin, og hjer var byrjað á þessu 1926. Jeg held, að það sje gálaust að stofna til þeirra útgjalda, sem hjer er farið fram á. Og jeg verð að endurtaka það, að þessu máli er svo varið, að það er ekki bagi að því fyrir landið í heild, þótt þetta verði ekki framkvæmt nú. Að vísu er þörf á því fyrir nokkrar sýslur fyrir Suður- og Norður-Múlasýslur. Norður-Þingeyjarsýslu og Húnavatnssýslur, þar til bílvegurinn milli Suður- og Norðurlands er kominn. Ennfremur Vestur-Ísafjarðarsýslu, Vestur-Barðastrandarsýslu og að nokkru leyti Snæfellsnessýslu. Og þess vegna væri æskilegt að framkvæma þetta, ef peningarnir væru til og hægt væri að fá þá án þess að binda atvinnuvegunum óhæfilega þungan bagga. En það er svo fjölda margt, sem nauðsynlegra er og allir vilja fá.

Á svörum hæstv. forsrh. við fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. var ekkert að græða. Það geta allir sagt það sama og ráðh., að þá langi til að framkvæma þetta, ef peningar fást með góðu móti og án þess að íþyngja atvinnuvegunum. En hjer er verið að leggja þunga skatta ofan á þá, sem fyrir eru. Jeg hefi enga löngun til að framkvæma þetta, þó að æskilegt sje, vegna þess að jeg veit, að það er óforsvaranlegt eins og fjárhagurinn er, og þá ekki síður með það fyrir augum, hve brýn nauðsyn er á öðrum verklegum framkvæmdum, eiga menn að taka afstöðu til þessa máls. Það gæti verið forsvaranlegt að gefa ráðdeildarsamri stjórn þessa heimild, en það er óhyggilegt að gefa þeirri bruðlunarstjórn, er nú situr, slíka heimild.