24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2738 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

15. mál, strandferðaskip

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. sagði, að brýning minni hl. fjvn. hefði ekki dugað. Mjer finst hún einmitt hafa dugað. Og jeg býst við því, að margir líti svo á, að það sje fjárlagafrv. eins og það er nú, samanborið við hvernig það kom frá stj., sem sanni þetta.

Hæstv. forsrh. sagðist ekki geta keypt fylgi mitt. Jeg bað vissulega ekki um það, enda er það ekki til sals. En jeg hjelt, að hann gæti sagt um það nú t. d., hvort hann ætlaði að nota heimildina á yfirstandandi ári. En eftir því, sem hann dregur þetta lengur og eykur samgöngubætur á landi, skal jeg verða fúsari að fyrirgefa honum fleiri syndir. Mjer telst svo til, að í fjárl. sjeu ætlaðar 430 þús. kr. til strandferða. Mjer sýnist það há upphæð í landi, sem hefir ekki nema 100 þús. íbúa, og held, að það sje ekki varlegt að hækka þennan lið um alt að 300 þús. kr. á einu ári. Það er eins og menn athugi það ekki, að altaf er verið að bæta strandferðirnar með nýjum skipum, sem ganga kringum land og sigla til og frá útlöndum. Þegar litið er á áætlanir Eimskipafjelagsins, sjest, að það hefir 5 skip í förum, og getur hver maður gert sjer í hugarlund, hvað það hefir bætt strandferðirnar.