31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, fjárlög 1929

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg á ásamt hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) brtt. á þskj. 642, undir XXIV. lið. Það er styrkur til frú Ingibjargar SteinBjarnason. Hún öðlaðist íslenskan ríkisborgararjett í fyrra og er af íslensku bergi brotin, þótt hún sje uppalin erlendis. Hún er 27 ára gömul, ekkja og efnalaus. Síðastliðin þrjú ár hefir hún varið öllu sínu fje til þess að stunda listmálaranám í París. Hefir hún hlotið góðan orðstír og árangurinn orðið með besta móti. Hún er ekki svo lánsöm, að hjer liggi fyrir Alþingi þau verk hennar, sem best eru og sem mundu gera hana verðuga þessa styrks. Hjer liggja einungis fyrir fáein sýnishorn, frumdrættir af málverkum, sem hún hefir gert og sem nú hafa komist á vorsýningarnar í París og Berlín. Þess vegna er það eðlilegt, að hv. þm. geti ekki gert sjer grein fyrir, hverskonar styrkbeiðni þetta er. Einn Íslendingur, Gunnlaugur listmálari Blöndal, getur dæmt um þessa styrkbeiðni. Hann hefir verið 2 ár samtímis henni í París. Kom hann til viðtals við fjvn. að tilhlutun eins nefndarmanna. Hann sagði ekki mikið, en sagðist þekkja til náms hennar og hæfileika og kannaðist við sýnishorn þau, sem hún hafði sent hingað, og sagði það vera frumdrætti að málverkum, sem hann hefði sjeð. En það hefir hann sagt við skyldmenni hennar og aðra, að hún væri óvenjulega listfeng og á því væri enginn efi, að hún mundi ná því takmarki, sem hún hefði sett sjer. Mun henni takast að ljúka námi á tveim árum. En hana brestur fje. Því hefir hún snúið sjer til síns nýja föðurlands, því hún er íslensk í anda og íslenskari en margur, sem hjer hefir alið allan sinn aldur. Hún hefir sagt í brjefi hingað, að það af þeim 6 málverkum, sem nú eru á sýningunni, er besta dóma fær, ætli hún að senda Íslandi að gjöf fyrir þá velvild og skilning, sem Alþingi hafi sýnt sjer með því að veita sjer ríkisborgararjettinn, því hún veit vel, hvers virði hann er og hvað í honum felst. Jeg skal ekki fjölyrða um þetta, en jeg vona, að orð mín beri þann árangur, að þeir, sem viðstaddir eru, sjái sjer fært að veita þennan styrk, 1500 kr. Af vanþekkingu sótti hún að vísu um þennan styrk í tvö ár, en þar sem fjárlög eru afgreidd til eins árs í senn, þá var það leiðrjett. Hún hefir allan hug á að verða sjálfri sjer og hinu nýja föðurlandi sínu til sóma. Veit jeg fyrir víst, að það er ætlun hennar og fullur hugur. Jeg skal ekki þreyta hv. þdm. með lengri ræðu, en vona, að þeir treysti því, að hjer sje ekkert ofmælt.