13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2744 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Samgmn., sem hefir haft þetta mál til meðferðar, hefir klofnað. Meiri hl. hennar leggur til, að þetta frv. verði samþ. nú á þessu þingi, en minni hl. leggur til, að það verði felt. Nefndin er þó ekki ósammála að því leyti, að ekki sje þörf á bættum strandferðum. Það kemur fram í áliti minni hl., að hann lítur svo á, að enn sjeu strandferðir ekki komnar í það horf, sem þær þyrftu að komast, en álítur, að eins og nú standa sakir, sje hvorki tími nje tækifæri til að ráðast í frekari framkvæmdir á því sviði. Ágreiningurinn í nefndinni er því um það, hvort nú þegar skuli ráðast í byggingu nýs strandferðaskips eða látið dragast.

Þetta mál hefir lengi verið til umræðu á Alþingi. Það var strax árið 1916, að samþ. voru lög um smíði tveggja strandferðaskipa. Þessi lög voru ekki framkvæmd að öðru leyti en því, að Esja var bygð í kringum 1920. Enda þótt hún hafi bætt mikið úr þeirri þörf, sem var á strandferðum, er það enn víða á landinu, sem strandferðirnar eru engan veginn í því horfi, sem þær þyrftu að vera. Fyrir þrem undanförnum þingum hefir legið frv. um smíði á öðru strandferðaskipi. Málið ætti því að vera — og er — hv. þdm. vel kunnugt. Jeg býst við, að mörgum þeirra sje það kunnugra en mjer, svo að meðal annars þess vegna er ástæðulítið fyrir mig að fara mörgum orðum um það.

Jeg viðurkenni fyllilega, að samgöngur á sjó og landi verða að teljast lífæð atvinnuveganna, enda er alment litið svo á. Þó að jeg hafi hallast að því að ráða hv. deild til þess að samþ. frv., ber engan veginn að skilja það svo, að með því vilji jeg láta í ljós, að ekki beri mikil nauðsyn til að vinna líka, eins og hægt er, að samgöngubótum á landi. Það hefir verið álit flestra, að samgöngur á sjó yrðu, a. m. k. við okkar land, ódýrari en varanlegar samgöngubætur á þessu strjálbygða landi. Þó að jeg hafi mjög mikinn áhuga á, að samgöngur á landi komist í betra horf en þær eru nú, hlýt jeg að fallast á, að mjög sje ólíklegt, að með sömu fjárupphæð sje hægt að bæta úr samgönguþörf jafnmargra landsmanna með því að verja fjenu til samgöngubóta á landi og með því að verja því til strandferða. Eins og mönnum er kunnugt, er það svo, að þær verulegu strandferðir við þetta land annast aðallega eitt skip, Esja. Að vísu koma mörg önnur skip á ýmsar bestu hafnirnar, en allur fjöldinn, og þar á meðal þeir, sem búa á smæstu og verstu höfnunum, fara alveg á mis við það hagræði, sem stafar af strandferðunum. Að undanförnu hefir fólksflutningur hjer við land á milli bestu og fólksflestu hafnanna farið fram með öðrum skipum en þeim, sem landsmenn eiga sjálfir. Bæði dönsk og norsk siglingafjelög halda uppi ferðum hjer við land. Skip þeirra koma aðallega á bestu hafnirnar og flytja fjölda fólks. Þess mætti vænta, ef strandferðaskipin yrðu tvö, og einkum ef breytt yrði til um fyrirkomulag ferðanna, þannig að þær yrðu að nokkru leyti örari, að nokkuð af fólksstraumnum til hinna útlendu skipa flyttist yfir á þau íslensku. Jeg geri því ráð fyrir, að þó að strandferðaskipin yrðu tvö, mundi ekki af því leiða, að rekstrarhalli beggja yrði tvöfalt meiri en hann er nú af öðru, af því að jeg býst við, að með því að hafa tvö skip yrði hægt að bæta fyrirkomulagið svo, að bæði fólks- og vöruflutningar gætu borið sig betur en hingað til hefir verið. En um fólksflutningana verður maður að líta svo á, að hið nýja, væntanlega strandferðaskip sje einkum orðið til til þess að bæta úr þörf þeirra hafna, sem nú eru útundan.

Það hefir undanfarið verið svo um marga staði, til dæmis á Norður- og Norðausturlandi, að samgöngur suður um land til Reykjavíkur hafa varla verið nema með Esju. En Bergenska gufuskipafjelagið og Eimskipafjelag Íslands hafa haldið uppi reglubundnum ferðum til Reykjavíkur norður um land. Menn hafa því hæglega getað komist aðra leiðina, en orðið að bíða lengi, til þess að geta komist hina leiðina.

Gert er ráð fyrir, að hið nýja skip hafi frystirúm, en það hefir, eins og öllum er kunnugt, mjög mikla þýðingu. Það hefir borið meira og meira á því í seinni tíð, að menn hafa þarfnast þess, að geta komið frá sjer búnaðarafurðum sínum til kaupstaðanna, en þó einkum Reykjavíkur. Þeir hafa samt orðið að fara á mis við það, af því að skipin hafa ekki haft frystirúm. Jeg hugsa, að þessi umbót hafi verulegan hagnað í för með sjer, bæði fyrir þá, sem selja og kaupa vörurnar.

Jeg skal taka það fram aftur, að þó að meiri hluti nefndarinnar leggi til, að hv. deild samþ. þetta frv., vakir ekki fyrir honum, að framkvæmd þess verði gerð á kostnað samgöngubóta á landi.